Sterk staða Björgvins G. - áfall Ágústs Ólafs

Björgvin G. Sigurðsson Stærstu tíðindi ráðherrakapals Samfylkingarinnar, fyrir utan pólitíska niðurlægingu varaformanns flokksins, er hiklaust að Björgvin G. Sigurðsson verði viðskiptaráðherra. Það var flétta sem fáir sáu fyrir og byggir mjög undir stjórnmálaferil hins 36 ára Árnesings, sem fyrir aðeins nokkrum mánuðum erfði pólitískt ríki Margrétar Frímannsdóttur á Suðurlandi. Raddir um að hann rísi enn hærra innan flokksins hljóta að vakna við þessa miklu pólitísku stöðuhækkun hans.

Fyrirfram var ég mjög efins um að Björgvin G. yrði ráðherra að þessu sinni. Það voru greinilega óþarfar pælingar að efast um stöðu hans innan Samfylkingarinnar. Sá einstaklingur sem verður viðskiptaráðherra á öðru kjörtímabili sínu á þingi og hefur ekki náð fertugsaldri er enginn léttvigtarmaður innan síns flokks í þessari stöðu. Reyndar hef ég alltaf litið á Björgvin G. sem sterkasta forystumann sinnar kynslóðar hjá Samfylkingunni og mikinn framtíðarmann. Þessi niðurstaða styrkir hann mjög.

Það eru reyndar mikil tíðindi í sjálfu sér að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sé brotið upp og fært aftur í sinn gamla farveg. Síðasti ráðherrann sem gegndi einungis stöðu viðskiptaráðherra í íslenskri stjórnmálasögu er Jón Sigurðsson, gamall forystukappi á vinstrivængnum, sem var ráðherra málaflokksins árin 1987-1988. Frá árinu 1988 hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verið flokkað sem eitt, en þá tók Jón við báðum málaflokkum, en Friðrik Sophusson var síðasti iðnaðarráðherrann fram að því, í stjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988. Þannig að það eru tímamót með því að taka upp þessi tvö ráðuneyti sér aftur.

Ágúst Ólafur Ágústsson átti mjög erfitt með að leyna vonbrigðum sínum í viðtali á Stöð 2 í kvöld. Þessi ráðherrakapall er gríðarlegt áfall fyrir hann og stöðu hans sem varaformanns. Hann virðist ekki vera metinn þungavigtarmaður innan flokksins og hefur ekki stöðu sem lykilráðherra fyrir flokk sinn. Jafnan er það metið öruggt að varaformaður stjórnmálaflokks verði ráðherra og sérstaklega þegar að viðkomandi flokkur hefur úr sex ráðherrastólum að spila fyrir sig.

Vond staða Ágústs Ólafs hefur reyndar sést víða, sérstaklega í því að hann þurfti að berjast hatrammlega í prófkjöri fyrir því að hækka upp í fjórða sætið í prófkjöri í nóvember 2006, semsagt því að hljóta annað sætið á öðrum listanum í Reykjavík, og fáir vildu rýma til fyrir stöðu hans. Þessi staða mun veikja hann utan flokksins, ásýnd hans verður önnur. Það blasir algjörlega við í þessari stöðu.

En ekki þarf Björgvin að kvarta í þessum ráðherrakapal. Hann styrkist mjög með því að fá lyklavöld að viðskiptaráðuneytinu, sem er auðvitað mjög stór málaflokkur og hann verður lykilmaður í stjórnmálunum hér á næstu árum. Á meðan situr varaformaðurinn eftir sem einhver verkamaður inn á við en ekki út á við í ríkisstjórn. Það eru kostuleg örlög.

mbl.is Björgvin: Stefnuyfirlýsing felst í skiptingu iðnaðar- og viðskiptamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég er alls ekki sammála þér Stebbi, að staða Ágústs Ólafs sé eitthvað veik. Ég tel einmitt þvert á móti að hann eigi eftir að vera mun meira áberandi en hann hefur hingað til verið í starfi varaformanns. 

Málið er, eins og þú veist, að utanríkisráðherra er töluvert á ferðalögum og þal reynir mun meira á fyrirsvar varaformannsins við hinar ýmsu aðstæður sem koma upp og þarfnast svara flokksforystunnar.

Þar fyrir utan var augljóst á Ingibjörgu að enn er óunnið töluverð uppbygging flokksins á ýmsum svæðum og ýmislegt í innra starfi flokksins sem þarf að tryggja að verði (áfram) í hæsta gæðaflokki. 

Þannig að þvert á móti þinni spá um veikingu hans, þá mun fyrirsvarið styrkja hann og treysta í stöðunni gagnvart þeim sem standa utan flokksins og vinna hans við innra starfið mun enn efla hann sem varaformann gagnvart þeim sem eru nú þegar í flokknum.

Og svo á hann að sjálfsögðu framtíðina fyrir sér. 

Elfur Logadóttir, 23.5.2007 kl. 08:16

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þetta eru gleðitíðindi fyrir okkur svarna andstæðinga Samsullsins.

Einnig er ég algerlega í hæstum hæðum, eftir að fyrir lá, að Möllerinn verði Samgönguráðherra, það kemur til með að rífa grimmt fylgi af Samfó hér í Höfuðborginni og nærsveitum.

Björgvin er einnig á réttri hillu, þar sem af honum ganga þær sögur, að hann þkki vart fimmkall frá fimmþúsundkalli.

Eina verulega bitastæða skipun Ingibjargar, fyrir utan Össur minn knáa fyrrum samverkamanns úr ,,Fjósinu" við MR, er auðvitað Jóhanna frá Húsbréfafelli, þarna er hún á fjölinni sinni og veit ég, að hún á eftir að standa sig með stakri prýði.

Jóhanna hefur safnað í mal viskunnar og þróast mjög síðan hún var síðast ráðherra, einnig sér hún á fjárlögunum, hvað félagsmálapakkarnir, sem hún dreyfði út um landið í formi ,,félagslegs húsnæðis" kostar og gerið spélítið gagn.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 23.5.2007 kl. 08:53

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það kom mér á óvart að Björgvin skildi verða ráðherra miðað við að flokkurinn tapaði 2 þingsætum í síðustu kosningum.
Ágúst Ólafur varaformaður úti - þetta var ljóst alveg frá því í prófkjörinu þegar hann varð nr.4 - það eru margir sem velta fyrir sér hlutverki&stöðu hans innan sf eftir þetta.
Ég spái því að Björgvin verði varaformaður á næsta flokksþingi.

Óðinn Þórisson, 23.5.2007 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband