Björn og Ingibjörg Sólrún hlið við hlið

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Ég verð að viðurkenna að mér fannst það svona frekar súrrealískt að sjá Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, hlið við hlið á fyrsta fundi nýrrar ríkisstjórnar í morgun. Þau hafa áður verið saman á vettvangi borgarmálanna, en það er óhætt að segja að þar hafi litlir kærleikar verið með þeim, en þau tókust á í borgarstjórnarkosningunum 2002 með eftirminnilegum hætti.

Það eru svo sannarlega nýjir tímar með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Tveir stórir pólar í stjórnmálunum hafa tekið upp samstarf. Það breytir auðvitað stjórnmálalandslaginu mjög. Þetta er ríkisstjórn með öflugt umboð, mikinn og traustan þingmeirihluta, og hefur því traustari grunn til verka en ella. Það er eðlilegt að stjórnarsáttmáli flokkanna sé mjög opinn, enda held ég að þessir flokkar verði að finna vel taktinn áður en haldið er af stað. Mér finnst það hafa tekist merkilega vel og tel að það verði spennandi tímar sem taki við með þessari stjórn.

Nú eru vinstri grænir orðnir stærstir í stjórnarandstöðunni. Nú verða þeir hinsvegar að fara að vinna að allavega einhverju leyti með Framsóknarflokknum. Það verður athyglisvert að sjá hvernig að þeir muni ná saman Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Þetta er mjög veik stjórnarandstaða, en aðeins 20 einstaklingar manna hana. Fyrrum stjórnarandstaða var með um 30 þingsæti, svo að hlutföllin í þinginu breytast mjög við upphaf sumarþings á fimmtudaginn.

Upphaf nýrra tíma verða í verklagi þar og fróðlegt að sjá hvernig stjórnarandstaðan þjappar sér saman gegn svo stórum og voldugum stjórnarmeirihluta. Það sem er þó merkilegast við þessa nýju tíma er samstarf þessara lykilpóla í íslenskum stjórnmálum. Þetta kallar á miklar breytingar heilt yfir og eflaust mun það taka smátíma fyrir einhverja stjórnmálamenn og áhugamenn um pólitík að átta sig á þessu nýja landslagi og eins fyrir fólk að ná takti saman. Það eru þó allar forsendur fyrir því að það muni ganga fljótt og vel.

Það að sjá Björn og Ingibjörgu Sólrúnu hlið við hlið sem samherja í ríkisstjórn er þó merkilegt í öllu falli og sýnir vel þær breytingar sem orðið hafa á aðeins rúmri viku í pólitíkinni. Þetta verður líflegt vorþing tel ég og eflaust verður þingveturinn næsti kraftmikill, þó engar kosningar séu í nánd, nema þá mögulega kapphlaup um Bessastaði eftir slétt ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Surreal, góð íslenzka.  Já, það kemur stundum upp sú staða að maður fer að elska þann sem maður hataði áður. Ce'st la vie. 

Ásdís Sigurðardóttir, 25.5.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Sveinn: Súrrealískt já. Það er já ekki beint íslenska, en það er ættað af orðinu surreal, það er best orðað sem fjarstæðukennt eða fjarlægt í besta falli.

Ásdís: Já stundum gengur lífið í hringi. Maður veit sjaldan ævina fyrr en öll er. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.5.2007 kl. 22:46

3 Smámynd: Tíðarandinn.is

Nú skil ég betur dagbókarfærslu Björns frá föstudegi.

Tíðarandinn.is, 26.5.2007 kl. 00:51

4 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Vekur upp spurningar um það hvort þetta séu hinir raunverulegu pólar í íslenskum stjórnmálum??

Og - það verður ekkert vandamál fyrir VG og Framsókn að starfa saman!

Árni Þór Sigurðsson, 26.5.2007 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband