Táknrænt hlutverk forseta við stjórnarmyndun

Ólafur Ragnar Grímsson Það fór ekki svo að Ólafur Ragnar Grímsson léki lykilhlutverk við myndun ríkisstjórnar eftir þingkosningarnar 12. maí sl. Ríkisstjórnin hélt velli og stjórnmálaleiðtogarnir spiluðu skákirnar sem við tóku. Hefði stjórnin fallið hefði forsetinn getað leikið lykilmann í stöðunni, kallað til sín flokksformenn á Bessastaði og prjónað þá stöðu saman sem hann hefði jafnvel viljað, eins og dæmi eru vissulega fyrir í lýðveldissögunni, en Ásgeir Ásgeirsson var t.d. arkitekt viðreisnarstjórnarinnar lífseigu.

Ólafur Ragnar hafði þó vissulega meira hlutverk nú í stöðunni en áður á ellefu ára forsetaferli sínum. Í fyrsta skipti nú baðst forsætisráðherra með þingmeirihluta lausnar í forsetatíð hans. Þegar að það gerðist hafði þó nýr meirihluti komið á teikniborðið - er Geir H. Haarde hélt til Bessastaða voru þreifingar þegar hafnar milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það vakti mikla athygli að forsetinn ákvað að kalla ekki leiðtoga flokkanna til sín og Geir fékk strax umboðið í sínar hendur. Þetta var annað vinnuferli en Vigdís Finnbogadóttir viðhafði vorið 1991. Þó vitað væri að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hefðu hafið viðræður kallaði hún alla formenn til sín.

Það hefur ekki reynt á stöðu forseta við stjórnarmyndun í sjálfu sér frá árinu 1987, en þá féll ríkisstjórn í þingkosningum síðast. Reyndar kom Vigdís Finnbogadóttir nærri myndun stjórnar ári síðar, haustið 1988, er urðu er söguleg stjórnarslit er stjórn Þorsteins Pálssonar féll. Ég fjallaði um þau sögulegu stjórnarslit í ítarlegum pistli haustið 2006. Eftir það hefur forseti verið þögull þátttakandi í þessum efnum, enda hafa meirihlutar ekki fallið og hafi nýjir komið til, eins og gerðist 1991 og 1995, varð það með atbeina stjórnmálamanna ekki forseta. Það sama gerðist nú. Þegar að stjórnin sem hélt velli féll uppfyrir tóku stjórnmálamenn stöðuna og prjónuðu lausu endana saman.

Eflaust hefði Ólafur Ragnar Grímsson viljað vera meira áberandi í myndun ríkisstjórna á forsetaferli sínum. Það bendir þó mjög fátt til þess eins og staðan er nú að svo muni í raun verða. Jafnvel má segja að staða mála kalli á að stjórnmálamenn leysi þessi mál hratt. Þetta hefur auðvitað ekki alltaf verið svona. Á krísutímum á áttunda áratugnum var dr. Kristján Eldjárn lykilspilari í að leysa krísurnar. Hann íhugaði tvisvar á forsetaferli sínum að skipa utanþingsstjórn undir forsæti Jóhannesar Nordals, seðlabankastjóra, föður Ólafar Nordal, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í raun veltur staðan oftast nær á því hvort ríkisstjórn heldur velli eður ei. Haldi stjórn velli er forsætisráðherra með öll tromp á hendi og getur leikið skákirnar eftir vild hafi hann öruggan meirihluta til að vinna úr eða aðra möguleika. Falli stjórnir er forsetinn með þau tromp á hendi að vinna málin á sínum hraða. Í slíkri stöðu geta vissulega líka myndast þingmeirihlutar og forsetinn gæti staðið frammi fyrir því að vera með samstarfsmynstur í þeim efnum tiltölulega fljótt frá kosningum. Möguleikar forsetans á lykilstöðu eru þó meiri vissulega í seinna tilvikinu.

Staða forseta Íslands við stjórnarmyndanir er algjörlega óumdeild. Falli ríkisstjórn og ekki fæst fram neinn starfhæfur meirihluti er hann í því hlutverki að tryggja að til staðar sé meirihluti. Mér fannst það satt best að segja ekki viðeigandi, þrátt fyrir pólitíska fortíð Ólafs Ragnars Grímssonar, að gera lítið úr þeirri stöðu eins og víða var greinilega reynt að gera. Enn hefur Ólafur Ragnar ekki haft nein þau lykiláhrif á myndun stjórnar til að efast megi um að hann sinni því af kostgæfni og heiðarleika.

Það verður áhugavert að sjá hvernig mál þróast á næstu árum og með væntanlegum eftirmönnum Ólafs Ragnars á forsetastóli. Þó að formenn Sjálfstæðisflokksins hafi leitt af krafti ferli við að mynda hratt og vel farsælar meirihlutastjórnir með gott umboð kjósenda er ekki sjálfgefið að sú staða sé alltaf uppi. Það er því alltaf svo að fylgst er með verklagi þess sem situr á Bessastöðum hvort sem stjórnir falla eða halda í kosningum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband