Ingibjörg Sólrún komin í nýtt pólitískt hlutverk

Ingibjörg SólrúnÉg verð að viðurkenna að ég taldi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, myndi frekar velja að fara í fjármálaráðuneytið þegar að því kom að skipta ráðuneytum milli flokkanna. Ákvörðun hennar um að fara í utanríkismálin vakti athygli, þó vissulega hafi alltaf mátt eiga von á að sú yrði raunin. Það er mjög erfitt að vera flokksformaður samhliða utanríkismálunum. Fjarverur á ferðalögum um heiminn geta oft komið niður á flokkskjarna.

Margir telja að þar liggi stærsta ástæða þess að Halldór Ásgrímsson missti tökin á Framsóknarflokknum hægt og rólega, eftir góðan kosningasigur vorið 1995. Frægt varð þegar að Halldór þurfti að leggja mikið á sig á síðustu viku kosningabaráttunnar 1999 til að halda velli í Austurlandskjördæmi í síðustu kosningabaráttu sinni fyrir austan er kannanir sýndu veika stöðu hans þar í kjölfar mikilla anna sem utanríkisráðherra. Steingrímur Hermannsson valdi frekar að vera innanlands í sjávarútvegsmálunum í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens 1980-1983 en fara í utanríkismálin og setti Ólaf Jóhannesson, forvera sinn á formannsstóli, í það verkefni.

Margir hafa talað um að ástæða þess að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hafi ekki orðið ráðherra sé vegna þess að honum sé falið að sinna innra starfinu í flokknum í ljósi mikillar fjarveru formannsins. Þetta er vissulega að hluta skynsamlegt, en á móti kemur svo hávær orðrómur um kulda í samskiptum Ingibjargar og Ágústs síðustu misserin. Það er auðvitað visst veikleikamerki fyrir flokk að varaformaður hans hafi ekki pólitískan styrk til að teljast öruggur í ríkisstjórn. Það vekur margar spurningar. Á móti kemur að hann fær verkefni í innra starfinu, en orðrómurinn um veika stöðu hans mun magnast við þetta frekar en hitt.

Það verður áhugavert að fylgjast með verkum Ingibjargar Sólrúnar á ráðherrastóli. Það eru tólf ár síðan að vinstriafl komst í ríkisstjórn og það eru nýjir tímar með þessu merkilega samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þrátt fyrir vondar mælingar lengst af tókst Ingibjörgu Sólrúnu að bæta fylgi flokksins verulega undir lok kosningabaráttunnar, en náði þó ekki að stýra flokknum yfir 30% markið og ná því kjörfylginu frá alþingiskosningunum 2003. En staða Samfylkingarinnar styrkist með þessu stjórnarsamstarfi. En með því reynir auðvitað meira á forystumenn flokksins en ella - þeir hafa nú völd til að vinna af krafti í takt við það að ná að efna sín loforð til kjósenda.

Það hefur vissulega margt breyst í utanríkismálum á síðustu árum. Herinn er farinn og við erum komin í mjög breytta heimsmynd á aðeins tiltölulega skömmum tíma, enn er ekkert svo giska langt síðan að kalda stríðinu lauk og heimurinn er sífellt í mótun. Það verður fróðlegt að sjá hvaða braut nýr utanríkisráðherra fetar í t.d. Evrópumálum. Það er vel vitað að utanríkisráðherrar Framsóknarflokks og Alþýðuflokks í ríkisstjórnum með Sjálfstæðisflokknum allt frá árinu 1991 hafa verið miklir Evrópusinnar og talað mjög eindregið fyrir aðild að ESB í samfélaginu og á vettvangi flokka sinna. Ingibjörg Sólrún er ekkert öðruvísi en Jón Baldvin, Halldór og Valgerður í þeim efnum.

Ingibjörg Sólrún hefur ekki beint öðlast orðspor fyrir að vera sérfræðingur í utanríkismálum. Staða hennar er þó með þeim hætti að hún er nú lykilspilari í íslenskum stjórnmálum, örlagavaldur á pólitíska stefnumótun landsins og er orðin talsmaður Íslands í utanríkismálum. Það verður hlutverk sem áhugavert er að sjá hana í á næstu misserum. Ekki mun hana skorta verkefnin á þessum vettvangi næstu árin.


mbl.is Íslendingar á tímamótum í öryggismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skafti Elíasson

Oft var þörf en nú er nauðsyn á sterkum utanríkisráðherra til þess að halda málstað okkar í góðum farvegi.  Vona að Ingibjörg standi undir því. 

Skafti Elíasson, 26.5.2007 kl. 20:15

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, maður gefur þessu séns.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.5.2007 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband