Hátíðisdagur í Fjarðabyggð - álverið opnar

Álver AlcoaÞað er mikil hátíð á Austurlandi í dag, þegar hið nýja álver Alcoa verður formlega opnað. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.

Átökin um framkvæmdirnar fyrir austan hafa þó mun frekar snúist að byggingu Kárahnjúkavirkjunar en því að reisa álverið sjálft í Reyðarfirði. Virkjunin var þó algjör forsenda þess að álver yrði að veruleika. Ég held að allir sem fari til Fjarðabyggðar og hafi kynnt sér aðstæður þar hafi sannfærst um það að þar hefur uppbyggingin, sem er á öllum sviðum og blasir við öllum sem líta yfir svæðið, verið markviss og hún hefur byggt svæðið upp sem lykilkjarna á Austfjörðum. Það leikur enginn vafi á því.

Ég held að allir sem fari í gegnum Reyðarfjörð á ferð sinni hafi séð hversu mjög framkvæmdir við byggingu þessa álvers og aðra þætti sem þeirri uppbyggingu hafi fylgt hafi gjörbreytt Austurlandi, og það til góðs. Áður var Reyðarfjörður hnignandi staður sem var vonum snauður, átti fá almenn tækifæri á vegferðinni og virtist að fjara út mjög markvisst. Síðan að ákvarðanir voru teknar um þessa uppbyggingu hefur Reyðarfjörður risið úr öskustónni. Þar hefur risið alþjóðlegur stórbær þar sem öll tækifæri eru til staðar. Það mun ekki líða á löngu þar til að Reyðarfjörður verður lykilstaður á Austfjörðum, ef hann er ekki hreinlega þegar orðinn það. Uppbygging þar á innan við fjórum árum er gríðarleg og fer ekki framhjá neinum sem þangað kemur.

Þessari uppbyggingu hafa fylgt markviss tækifæri. Þau hafa verið nýtt vel. Það var sérstaklega ánægjulegt að fara austur á síðustu dögum og kynna sér stöðuna. Ég er ættaður úr Fjarðabyggð að stórum hluta og hef unnað þeirri byggð allt mitt líf. Allt frá sumrinu 2004 hefur verið einstaklega gaman að leggja þangað leið sína og sjá markvissa uppbyggingu stig af stigi. Sérstaklega gleymist mér ekki ferðin þangað í janúar 2005, en þá var álverið sjálft tekið að rísa. Það var ógleymanleg sjón og þá fyrst varð umfang framkvæmdanna og upprisa Reyðarfjarðar sem lykilstaðar á Austfjörðum endanlega ljós í augsýn manns. Það var gleðistund.

Það er leitt að geta ekki verið fyrir austan á þessum gleðidegi. En ég vil senda góðar kveðjur til fólksins þar, fyrst og fremst óska þeim til hamingju með að hafa náð sínum markmiðum. Það er mikið gleðiefni, sem við öll sem unnum austfirskum byggðum hugsum stolt til að hafa tryggt með einum hætti eða öðrum. Sigur fólksins þar og krafturinn sem hefur einkennt þann mikla sigur á langri vegferð mun lengi verða í minnum hafður.


mbl.is Álverið á Reyðarfirði opnað í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband