Speedy Sarko á miklu vinsældaflugi í Frakklandi

Nicolas Sarkozy Nicolas Sarkozy hefur verið forseti Frakklands í tæpan mánuð. Hann hlaut völdin í Elysée-höll með sannfærandi hætti og er vinsælasti forseti Frakklands í upphafi valdaferilsins í áratugi. Nú stefnir allt í að samherjar hans vinni stórsigur í frönsku þingkosningunum á morgun og eftir viku, þann 17. júní nk. Flest stefnir í að sósíalistar séu að stefna í afhroð af svipuðum skala eða jafnvel enn verra en sumarið 2002, eftir að Jacques Chirac var endurkjörinn forseti.

Stuðningur landsmanna við Sarkozy og forsætisráðherrann Francois Fillon er mjög mikill og þeim er treyst til verka. Sarkozy hefur í upphafi valdaferilsins slegið öll vopn úr höndum sósíalista og miðjumanna undir forystu Francois Bayrou og þeir munu væntanlega taka hressilega dýfu í kosningunum. Það vakti mikla athygli þegar að Sarkozy valdi sósíalistann og friðarverðlaunahafa Nóbels dr. Bernard Kouchner sem utanríkisráðherra stjórnar sinnar. Sósíalistar vita varla í hvorn fótinn hefur átt að stíga og þeir beindu gremjunni að Kouchner með lítt glæsilegum hætti.

Fyrir nokkrum mánuðum var Segolene Royal vonarstjarna franskra vinstrimanna og talin nokkuð líkleg um að geta hlotið forsetaembættið. Svo fór að hún tapaði nokkuð illa fyrir Sarkozy. Kannanir á lokaspretti kosningabaráttunnar gerðu aldrei ráð fyrir sigri hennar og munurinn á henni og Sarkozy varð að lokum nokkuð áberandi mikill, sá mesti milli sósíalista og hægrimanns til þessa. Sarkozy vann með öflugum hætti og Royal varð fyrir áberandi niðurlægingu.

Pólitísk framtíð hennar er mjög óviss og verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu Sósíalistaflokkurinn, sem leiddur er af eiginmanni Royal, Francois Hollande, tekur gangi spár um vont gengi í þingkosningunum eftir. Þá er hætt við að sósíalistar verði að ganga í gegnum allsherjar naflaskoðun og uppstokkun á kjarna sínum og mannskap, enn meiri en varð eftir afhroð Lionel Jospin í forsetakosningunum 2002 og flokksins í þingkosningunum sama ár.

Á meðan brosir Sarkozy út í eitt. Það stefnir allt í að hann fái fullnaðarumboð landsmanna til verka, til að setja stefnu sína í framkvæmd. Á meðan muni sósíalistar sleikja sár sín. Sarkozy stefnir á breytingar, hann kynnti breytingar og nýja tíma í kosningabaráttunni fyrir nokkrum vikum. Nú reynir á þessa nýju tíma eftir að hann fær umboð til verka. Nú er spurningin aðeins um hversu öflugt það umboð verður.

Nicolas Sarkozy hefur sannað sig á fyrsta mánuði sínum sem húsbóndi í Elysée-höll sem maður breytinga, maður sem horfir í aðrar áttir. Það sýnist og sannar af frjálslegri framkomu hans, t.d. skokktúrana um götur miðborgarinnar í kringum forsetahöllina. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum hans. Það stefnir allt í að hann fái full völd til að setja framtíðarsýn sína í framkvæmd.

mbl.is Fyrstu atkvæðin greidd í frönsku þingkosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband