Veikburða heilsufar á bandarískri varaforsetavakt

Cheney & BushAllt frá því að George W. Bush tilkynnti um valið á Dick Cheney sem varaforsetaefni sínu í júlí 2000 hefur verið mikil umræða um það í bandarísku samfélagi hvort hann gæti vegna hjartveiki sinnar og fjölda hjartaáfalla gegnt embættinu til fulls. Umræður um það urðu heitar í báðum forsetakosningunum sem Bush sigraði í og sérstaklega vöknuðu efasemdir um heilsufar varaforsetans í nóvember 2000 er hann fékk hjartaáfall í fjórða skiptið nokkrum sólarhringum eftir lok kosningabaráttu.

Cheney hefur því verið þjakaður af heilsuleysi allan valdaferilinn. Það leikur að mínu mati enginn vafi á því að Dick Cheney var einn helsti lykilmaðurinn í sigri Bush forseta fyrir sjö árum. Hann hefur alla tíð verið límið í hersveit hans og leitt starf þar. Af því leiðir að Cheney er án nokkurs vafa valdamesti varaforseti Bandaríkjanna til þessa. Aðeins Al Gore hefur komist nærri Cheney í áhrifum á valdaferli forsetans sem leiðir þjóðina á varaforsetavakt þess sem með honum starfar. Jafnan hefur varaforsetinn verið litlaus hliðarmaður án valda og áhrifa. Það á svo sannarlega ekki við um Cheney.

Cheney er auðvitað mjög öflugur maður valdsins og hefur mikinn kraft og einbeitingu til verka. Hann hefur þó ekki verið mikið í fjölmiðlum og hefur nær alveg unnið sitt verk í kyrrþey og á bakvið tjöld fjölmiðlaathyglinnar. Hann hefur fjarri því verið mest áberandi varaforseti bandarískrar stjórnmálasögu í fjölmiðlum og mjög ólíkur Al Gore að því leyti. En hann hefur haft völd með mun áberandi hætti en aðrir forverar hans og gætt varaforsetaembættið öðrum blæ í ljósi þess. Cheney hefur verið lykilmaður í bandarískum stjórnmálum í áraraðir. Hann var áberandi í starfsliði Nixons og var starfsmannastjóri Hvíta hússins í forsetatíð Gerald Ford.

Cheney var einn valdamesti maður Bush-stjórnarinnar 1989-1993 og sat sem varnarmálaráðherra á mikilvægum tímum Persaflóa-stríðsins sem var fyrsta sjónvarpsstyrjöldin ef svo má segja. Þegar að Bush eldri tapaði fyrir Bill Clinton hvarf Cheney af pólitíska sjónarsviðinu með honum og fór til annarra verka. Þegar að George W. Bush sóttist eftir forsetaembættinu við lok valdaferils Clintons leitaði hann til Dick Cheney, lykilmanns í pólitískum samráðshópi föður síns, til að stýra vali á varaforsetaefni sínu. Eftir langa leit og samráð við Cheney ákvað hann að leita ekki langt yfir skammt. Svo fór að Cheney var talinn maðurinn sem Bush þurfti á að halda og það vakti mikla athygli þegar að formaður valnefndarinnar varð sjálfur varaforsetaefnið.

Ég man mjög vel eftir því að fyrsta hugsun mín þegar að ég heyrði af vali Bush á Cheney væri hvort að hann hefði heilsufar í að vera varaforseti Bandaríkjanna eftir allt sem á undan var gengið hjá honum. Það var líka fyrsta fréttin sem fylgdi valinu í heimspressunni. Það var ekki undrunarefni. Þó að varaforseti sé allajafna litlaus hliðarmaður og ekki maður lykilvaldsins er hann þó á varaforsetavakt, er því sá sem tekur við embættinu komi eitthvað fyrir þann sem leiðir þjóðina. Það verður því að vanda til valsins. Bush vissi að faðir hans hafði alla tíð séð mjög eftir valinu á hinum misheppnaða Dan Quayle árið 1988 og vildi traustan mann sér við hlið. Hann sá þann mann í Cheney.

Mikil umræða varð einhversstaðar í pressunni og utan hennar árið 2004 um það hvort að Cheney yrði áfram við hlið Bush og færi fram með honum þá. Það voru mjög undarlegar vangaveltur og algjörlega út í hött. Það kom enda aldrei til greina að skipta um og Cheney var áfram við hlið forsetans. Það hefði verið algjört stórpólitískt klúður hjá Bush að skipta um varaforseta á þeim tímapunkti. Hinsvegar voru stór mistök hans eftir kosningarnar að hafa Donald Rumsfeld á sínum pósti. Hann var mun umdeildari en Cheney og það var mjög skaðlegt fyrir forsetann að hafa hann með. Ég tel að skellur repúblikana í þingkosningunum í nóvember 2006 hefði orðið minni hefði Rumsfeld verið settur af fyrr.

Dick Cheney er maður sem hefur unnið af skyldurækni fyrir forseta sinn og þjóðina meðfram erfiðum veikindum. Allur hans lykiltími við völd hefur einkennst af vangaveltum um veikburða heilsufar. Þrátt fyrir allt það hefur Cheney byggt upp embætti sitt sem valdamikinn póst í bandarísku stjórnskipulagi, mun valdameira en áður hefur jafnan þekkst. Þrátt fyrir það hefur hann verið varaforseti sem allir vita að aldrei yrði forseti Bandaríkjanna nema á hreinni örlagastund þar sem eitthvað kæmi fyrir George W. Bush. Hann hefur aldrei alið forsetadrauma, hann vildi aldrei verða varaforseti heldur, tók þeirri áskorun aðeins vegna áskorana.

Cheney fer frá völdum samhliða Bush eftir rúmlega eitt og hálft ár. Það leikur enginn vafi á því að þrátt fyrir heilsufarið verður Cheney ekki síðri lykilmaður þessa valdaskeiðs en forsetinn sjálfur. Slík eru áhrif hins hálfsjötuga varaforseta. Hann er og verður alla tíð metinn mikill lykilmaður bandarískra stjórnmála á fyrsta áratug 21. aldarinnar.


mbl.is Skipta þarf um rafhlöður í Cheney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband