Melódramatísk kveðjustund í Westminster

Tony Blair Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, mun síðdegis kveðja formlega þingmenn flokksins á fundi í þinghúsinu í Westminster, en hann lætur af völdum eftir tvo sólarhringa. Það hlýtur að svífa melódramatískt andrúmsloft yfir þeirri kveðjustund. Ég hallast þó að því að flestir þingmennirnir séu dauðfegnir að vera að losna við Blair úr pólitísku myndinni sinni eftir langa bið og eins hann að losna við samskipti við óþægustu þingmennina sem hafa í raun verið óþægur ljár í þúfu hans allt frá leiðtogakjörinu sumarið 1994.

Blair hefur allt kjörtímabilið verið nær í gíslingu sumra óbreyttra þingmanna Verkamannaflokksins, sérstaklega þeirra sem lengst hafa verið til vinstri, og þeir hafa storkað honum mjög í ljósi veikari þingmeirihluta. Það varð þegar ljóst á kosninganótt í maí 2005 að veikur þingmeirihluti þýddi minna svigrúm Blairs við völd. Það myndi aðeins verða spurning um hvenær en ekki hvort mál hans myndu frjósa í meðförum þingsins og hann gæti ekki notað járnviljann einan til að keyra mál í gegn. Veikur meirihluti gerði ægivald hans að engu og hann hefur aldrei verið þekktur fyrir að vera sterkur samningamaður við þennan arm flokksins.

Í ítarlegum pistli eftir þingkosningarnar í Bretlandi í maí 2005 sagði ég orðrétt: "Það blasir því í senn bæði annað pólitískt landslag og nýr pólitískur veruleiki við Tony Blair á afmælisdeginum, eftir að hann hefur tryggt sér þriðja kjörtímabilið við stjórnvölinn. Búast má við því að hann þurfi nú mun frekar að semja við óánægjuöflin í flokknum og það verði því bæði erfiðara fyrir hann að ná í gegn málum sínum gegnum þingið og að stjórnarandstaðan eigi auðveldara með að höggva í hann og veita honum pólitíska áverka í ljósi naumari meirihluta." "Blair hefur því veikst til muna og verður vart úr þessu hinn sterki leiðtogi sem keyrir mál í gegn og þarf ekki að láta óánægjuöfl innan flokksins ráða stefnumótun sinni. Nú þegar meirihlutinn er aðeins um 70 sæti breytist því staðan að þessu leyti." Þetta voru orð að sönnu.

Þetta þriðja og síðasta kjörtímabil Tony Blair varð honum erfitt, ég tel eiginlega rétt að segja erfiðara en ég spáði eiginlega um í pistlinum í maímánuði 2005. Það var reyndar virkilega gaman að grafa upp þennan pistil og lesa það sem ég skrifaði daginn eftir kosningarnar. Það hefur margt komið á daginn eftir það og þetta var skemmtileg samantekt um þennan veruleika sem Blair vaknaði við með úrslitunum og því sem á eftir fylgdi. Sennilega var ósigurinn í þinginu í nóvember 2005 honum erfiðastur og ég skrifaði pistil um þau mál á þeim tíma. Ég var reyndar ekki sannspár þá um hvenær að hann myndi hætta, þó að hann hafi í raun klárast sem sterkur leiðtogi með því tapi.

Tony Blair á sér merkilega pólitíska sögu að baki. Hann hefur alla tíð verið að mínu mati leiðtoginn með hugsunarhátt ljónsins. Hann hefur lagt í vana sinn að gefast ekki upp og berjast meðan hann getur staðið í lappirnar. Hann gerði hlutina eftir sínum hætti en ekki annarra. Það er honum sennilega tilhlökkun að losna úr því hlutskipti að vera þjónn þeirra sem hafa hatað hann, órólegu deildarinnar. Hann kveður þá sennilega með súrsætu gleðibrosi í dag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband