Hryðjuverkaógn í Bretlandi - skýr skilaboð Browns

Gordon BrownÉg hef fylgst vel með fréttum frá Bretlandi um helgina, þar sem hryðjuverkaógnin vofir enn yfir. Viðbúnaðarstig er í hæstu mörkum, sem þýðir auðvitað að óttast er að fleiri hryðjuverk muni eiga sér stað. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur tjáð sig afgerandi um helgina um þessar sprengjuárásir og segir þær vera verk al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna. Fór hann yfir þessi mál í ítarlegu viðtali við Andrew Marr í morgunspjallþættinum Sunday AM á BBC. Það var virkilega vandað viðtal og bæði farið yfir þessa ógn og fyrstu daga forsætisráðherraferilsins.

Það leikur enginn vafi á að þessar árásir voru skipulagðar gagngert vegna valdaskiptanna í Bretlandi og til að setja mark á fyrstu daga Gordons Browns við völd í Downingstræti 10. Þetta er skýr áminning til ríkisstjórnar Verkamannaflokksins og breskra þegna um að staðan hefur ekkert breyst frá júlímánuði 2005, þó að Tony Blair hafi látið af öllum pólitískum völdum. Það að ráðist sé á skotmörk í Skotlandi segir allt sem segja þarf í raun um hversu skipulagt þetta hefur í raun verið. Það að ráðast á skotmark í Glasgow og tengd svæði á heimavelli forsætisráðherrans svo fljótt eftir að hann tók við völdum er allavega mjög áberandi.

Mér finnst reyndar mjög sláandi þau tíðindi sem voru að koma rétt fyrir miðnættið að tveir af þeim fimm sem hafa verið handteknir í tengslum við þessi hryðjuverk séu læknar. Það er alveg ljóst að á bakvið þessi tilvik eru langar og áhugaverðar sögur sem þarf að fá betur fram í dagsljósið. Það er ljóst nú að einn þeirra sem liggja undir grun er frá Íran. En enn er mikil óvissa yfir þessu máli. Ógnin er auðvitað ekki liðin hjá. Mér finnst þessi ógn reyndar vera skelfileg, sérstaklega í ljósi þess hversu nálæg okkur hún er. Ég hef annars farið yfir skoðanir mínar á því í þessum pistli.

Fyrst og fremst er ég ánægður með Bretar halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Minningartónleikar um Díönu, prinsessu af Wales, fóru fram á afmælisdegi hennar eins og ákveðið hafði verið fyrir löngu og Wimdledon-mótið heldur ennfremur áfram skv. dagskrá. Þetta er auðvitað mikið högg fyrir Breta, svo skömmu eftir hryðjuverkin í neðanjarðarlestunum fyrir tveim árum. Þrátt fyrir þetta högg standa Bretar eftir hnarreistir og líta fram á veginn - halda sínu striki.

Það voru líka mikilvægustu skilaboð Browns forsætisráðherra til almennings að láta í raun eins og ekkert hafi gerst, halda reisn sinni og einbeitni. Mér finnst Gordon Brown vera að koma mjög vel fyrir á þessari stundu. Þetta er auðvitað viss eldskírn fyrir hann í forsætisráðherraembætti á fyrstu dögunum. En hann er þrautreyndur stjórnmálamaður og þekkir vel til verka eftir áratugalangan stjórnmálaferil.


mbl.is Tveir hinna handteknu eru læknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Takk fyrir gott innlegg. Í annars fjörugri umræðu um þessi mál hjá mér finnst mér einmitt vanta skilninginn á því hversu nálægt okkur þetta er. Fólk er að gera lítið úr hættunni sem stafar af öfgafullum múslimum, og einfalda málin með útþynntum frösum um rasista sem ekki megi heyra minnst á aðra útlendina en Dani.. Ég skil ekki tilganginn með því að stinga hausnum í sandinn, þessi mál þarf að ræða því þau skipta okkur máli. Vertu velkominn í heimsókn.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.7.2007 kl. 13:42

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kveðjuna og góð orð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.7.2007 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband