Þeir undrast... en hvað mega Akureyringar segja?

Ég rak augun í yfirlýsingu Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem undrast er að ekki sé horft til samgönguframkvæmda þar í tillögum um hröðun verkefna. En hvað mega Akureyringar og í raun Eyfirðingar segja vegna þessara tillagna? Það vekur athygli að lykilmál á borð við lengingu Akureyrarflugvallar og Vaðlaheiðargöng er ekki flýtt. Á Akureyri einni búa rúmlega 15.000 manns og yfir 20.000 manns eru í Eyjafirði. Það búa því tæplega helmingi fleiri á Akureyri einni en á gervöllu Norðurlandi vestra.

Þetta eru vissulega tölur á blaði. Hinsvegar ætti öllum að vera ljóst að tillögur um flýtingu framkvæmda eru jákvæðar fyrir sum svæðin. Mér finnst það samt svolítið sláandi að samgönguráðherra, sem jafnframt er leiðtogi framboðs í Norðausturkjördæmi, líti ekki betur til þess að flýta lykilframkvæmdum hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Það að flýta lengingu Akureyrarflugvallar hefði eitt og sér skipt miklu máli og það að setja Vaðlaheiðargöng betur á dagskrá hefði verið mjög vel þegið ennfremur.

Fáir töluðu með meira áberandi hætti í kosningabaráttunni í vor fyrir því að flýta þessum framkvæmdum en Kristján L. Möller, samgönguráðherra. Hvað varð um stóru orðin og hvað varð um hugmyndir ráðherrans, nú þegar að hann er kominn á þann stað sem hann helst vildi? Eflaust vilja allir fá sínar draumatillögur í framkvæmd, en það er samt sem áður mjög athyglisvert að ekki skuli horft til Eyjafjarðarsvæðisins í þessum tillögum.

Ég skil vel að þeir á Norðurlandi vestra vilji keyra sínar tillögur áfram, en hvað má þá stórt og öflugt svæði á borð við Akureyri og Eyjafjörð segja? Er það enn svo skrambi lélegt að við Akureyringar séum áhrifalausir í lykilákvörðunum flokkanna sem mynda ríkisstjórn, eins og var á síðasta kjörtímabili? Það virðist vera, fátt virðist hafa breyst. Þessi staða vekur mikla athygli. Hún er algjörlega óviðunandi.


mbl.is Undrast að engum vegaframkvæmdum á Norðurlandi vestra verði hraðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband