Lærdómsrík utanlandsferð Ingibjargar Sólrúnar

Ingibjörg Sólrún Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með heimsókn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, til Mið-Austurlanda. Í og með er þessi ferð fyrst og fremst í þeim tilgangi að afla stuðnings við öryggisráðsframboð Íslands. Ingibjörg Sólrún var vel tekið í Ísrael. Hún varð fyrsti stjórnmálamaðurinn sem hitti Shimon Peres, eftir að hann varð forseti Ísraels. Hún vildi ekki hitta hann fyrir fjórtán árum en ekki var betur að sjá en að nú færi vel á með þeim.

Ingibjörg Sólrún sat fund í Knesset, ísraelska þinginu, og var þar sérstaklega kynnt. Einnig átti ráðherrann fund með Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels og varaforsætisráðherra. Livni er einn valdamesti stjórnmálamaður Ísraels, en hún braust fram til metorða undir verndarvæng Ariel Sharon og hefur verið kölluð Mrs. Clean í ísraelskum stjórnmálum. Litlu munaði að hún yrði forsætisráðherra fyrr á árinu vegna vandræða Ehud Olmert, sem hefur veikst sífellt í sessi undanfarna mánuði og berst enn við niðurstöður Líbanon-skýrslunnar margfrægu. Staða Livni er mjög sterk og er hún almennt talin framtíðarleiðtogi Kadima, flokksins sem Sharon stofnaði er hann klauf sig frá Likud, skömmu áður en stjórnmálaferli hans lauk.

Ingibjörg Sólrún er í þessari ferð að afla sér stuðnings. Hún hefur tekið einarða afstöðu með að halda áfram af krafti hinu umdeilda öryggisráðsframboði, sem var gæluverkefni Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli. Davíð Oddsson treysti sér ekki til að stöðva það mál er hann varð utanríkisráðherra. Þá talaði Einar Oddur Kristjánsson heitinn með afgerandi hætti gegn framboðinu og lét skynsemina ráða, og talaði af krafti máli okkar innan Sjálfstæðisflokksins sem höfum alla tíð verið andvíg þessu framboðsbrölti. Mér hefur fundist kostulegt að fylgjast með ráðherrum okkar fara heimshornanna á milli til að safna stuðningi við þetta gæluverkefni Halldórs.

Ingibjörg Sólrún flakkaði um Afríku um daginn til að safna stuðningi þar frá löndunum sem við erum komin í samband við. Nú er komið að Mið-Austurlöndum. Þetta er allt mjög sérstaklega áhorfs svona úr fjarska. Hinsvegar er enginn vafi á því að mikilvægt er að rækta tengsl til Mið-Austurlanda og eðlilegt að ráðherra af okkar hálfu kynni sér stöðu mála og ræði við þjóðarleiðtoga í Ísrael og Palestínu. Það var greinilegt af kvöldfréttunum í gær að ráðherrann lærði mikið á heimsókn til Sderot, þar sem tveim flugskeytum er jafnan á sólarhring varpað á bæinn frá Palestínumönnum.

Ef marka má ummæli Ingibjargar Sólrúnar virðist þetta hafa verið lærdómsrík ferð. Hún hitti í morgun Mahmoud Abbas. Hún er valdamesti íslenski stjórnmálamaðurinn sem heldur um þessar slóðir frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, hélt sem utanríkisráðherra um allar slóðir, en heimsókn hans til Arafats í Ramallah var sérlega eftirminnileg, en henni var gerð góð skil í þætti Jóns Ársæls Þórðarsonar, Sjálfstæðu fólki, en hann var með Halldóri þá í för.

Gert var eftirminnilegt grín af heimsókninni í Áramótaskaupinu á gamlársdag 2002 en þar fór Pálmi Gestsson á kostum í hlutverki Halldórs Ásgrímssonar og Þröstur Leó Gunnarsson sem hinn skjálfandi Arafat.

mbl.is Utanríkisráðherra: Glufa opin í Mið-Austurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll bloggvinur.

Ég dáist að útliti síðunnar þinnar - sérstaklega finnst mér flott myndin af Akureyri hér fyrir ofan. Ég hef mikið brotið heilann um það hvernig maður skipti um mynd í efsta rammanum, því mig langar sjálfa að gera það - en hef ekki haft árangur sem erfiði ennþá.

Hafðu það gott í dag - alltaf gaman að lesa bloggið þitt, þó við séum ekki alltaf sammála.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.7.2007 kl. 13:29

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð orð um bloggið Ólína. Þetta er virkilega falleg mynd, passar mjög vel þarna. Tók mig smátíma að læra að stokka þetta upp. Bað þá hjá Moggablogginu að taka þetta í gegn fyrir mig. Hef skipt nokkrum sinnum um mynd. Fannst ekkert viðeigandi að vera að myndskreyta hana með mér, svo að ég valdi bara Akureyri. Fannst það passa vel. Það er gott statement um það hvaðan ég skrifa og frá hvaða sjónarhóli á heiminn ég skrifa.

Takk fyrir góðar kveðjur. Hafðu það mjög gott. Ég var einmitt í gærkvöldi að fara yfir myndbandasafnið mitt og fann þar frábæran spjallþátt frá árinu 1990 þar sem þú talaðir við Bryndísi Schram. Var alveg virkilega gaman að sjá þennan þátt. Haukur Morthens söng þarna (sennilega með síðustu sjónvarpsframkomum hans) og Þórður húsvörður kom í heimsókn. Jón Baldvin átti að vera þarna en komst ekki. En samt frábær þáttur. Gleymdi mér alveg yfir honum. Fann hann á spólu og ætla svo sannarlega að varðveita hann. :)

Bestu kveðjur vestur

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 16:13

3 identicon

Ahh ég öfunda hana... Tzipi Livni og Shimon Peres eru mínir uppáhalds stjórnmálamenn í Ísrael.

Ætlar hún annars ekki að tala við fleiri en Abbas í Palestínu? Bara einhvern úr Fatah? Spurning hvort hún sé þá að taka afstöðu með því sem Ísraels- og Bandaríkjamenn hafa verið að segja um Hamas. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband