Jacqui Smith reykti kannabis fyrir 25 árum

Jacqui Smith Fyrir tæpum mánuði komst Jacqui Smith á spjöld breskrar stjórnmálasögu er hún var skipuð innanríkisráðherra Bretlands, fyrst kvenna. Nú hefur hún viðurkennt að hafa reykt kannabis fyrir 25 árum. Er um að ræða, án nokkurs vafa, fyrsta alvöruáfallið sem dynur yfir ríkisstjórn Gordon Brown, forsætisráðherra, sem hefur farið mjög vel af stað og notið nokkurs byrs meðal kjósenda, eftir að Tony Blair lét af embætti. Smith er aðeins þriðja konan í breskri stjórnmálasögu sem gegnir lykilráðuneyti. Hinar eru Margaret Thatcher og Margaret Beckett.

Uppljóstranir Smith á fortíð sinni koma á svipuðum tíma og tilkynnt var að hún myndi leiða nefnd Browns forsætisráðherra til að vinna að lausn á fíkniefnavandanum. Hlýtur að teljast algjört klúður að hún fari fyrir þeirri nefnd með þessa fortíð á bakinu. Fyrir áratug hefðu uppljóstranir af þessu tagi orðið pólitískur banabiti Jacqui Smith. Þeir eru til ráðherrarnir sem hafa hrökklast frá embætti vegna fortíðarverka af þessu tagi eða af öðru tagi. Það er reyndar með ólíkindum að breska pressan, sem er vægðarlaus, hafi ekki grafið þetta upp.

Það er erfitt um að segja hvað verði um Jacqui Smith í kjölfar þessa. Þetta er þó verulega vandræðalegt mál í öllu falli fyrir Smith og ekki síður Gordon Brown, forsætisráðherra, sem þarf ekki beint á svona máli að halda á upphafsferli stjórnar sinnar. Hann hefur lagt mikið traust á Jacqui Smith, meira en mörgum hefði órað fyrir að væri til staðar í raun. Skipun hennar í innanríkisráðuneytið kom mörgum mjög að óvörum. Flestir töldu að þar yrði reyndari stjórnmálamaður settur til verka.

Jacqui Smith kom sem ferskur og nýr vindblær í þetta gamalgróna karlaveldi og hlaut vissa eldskírn strax í upphafi með hryðjuverkaárásunum í Skotlandi og London strax á fyrstu dögum valdaferils ríkisstjórnar Gordons Browns. Nú er hún komin í krísu af því tagi sem fáum hefði órað fyrir, strax á fyrsta mánuði nýrrar stjórnar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig tekið verði á þessu kuski á hvítflippa hins nýja innanríkisráðherra.

mbl.is Smith: „Ég reykti kannabis"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem að meiri hluti bresku þjóðarinnar hefur án efa reykt gras einu sinni eða oftar, er einfaldlega absúrd að gera þetta að stórmáli. Almenningur ætti að vera minni hneykslaður vegna þessa heldur en ef að hún hefði verið tekin fyrir ofhraðan akstur fyrir 25 árum.

Fabrizio Kjartanelli (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 11:40

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er auðvitað verulega vandræðalegt mál. Í breskri stjórnmálasögu hafa ráðherrar fokið fyrir minna en þetta. Pressan í Bretlandi er vægðarlaus. Það vita svosem allir. Forsætisráðherrann hafði valið hana til að leiða nefnd til að taka á fíkniefnavandanum og stokka upp lagasetningar í þeim efnum og þá kemur upp úr kafinu að hún sem stýrir nefndinni hefur sjálf brotið lög með því að reykja kannabis. Þetta er mjög vandræðalegt og eflaust er litið þannig á málið í Downingstræti 10 að Smith hefði átt að upplýsa Gordon Brown um þetta fyrirfram, enda er þetta krísa fyrir stjórnina. Það sést bara á umfjöllun fjölmiðla í Bretlandi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 11:43

3 Smámynd: Sveinn Arnarsson

einhvern veginn hefðir þú talað öðruvisi um þetta ef þetta væri íhaldsflokkurinn við stjórn. eitt skitið gras er lítilvægt

Sveinn Arnarsson, 19.7.2007 kl. 12:06

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hefði Jacqui Smith verið ráðherra á valdatíma Íhaldsflokksins 1979-1997 hefði hún orðið að segja af sér. Þá var tekið mun harðar og afgerandi á málum af þessu tagi. Margir ráðherrar Íhaldsflokksins urðu að segja af sér vegna t.d. kynlífshneyksla og fleiri mála. Það gekk á með afsögnum, ansi mörgum sérstaklega í forsætisráðherratíð John Major. Þá var brottrekstrarsök að halda framhjá og eiga í öðru sambandi. Sama gilti með svona brot. Þetta er enn vandræðalegra því að Smith átti að fara fyrir nefnd til að taka á lögbrotum vegna eiturlyfja. Ég er ekki í vafa um að Brown er æfur yfir því að Smith hafi ekki upplýst hann um þetta. Smith hefur upplýst að hún lét engan vita af þessu fyrirfram, ekki einu sinni forsætisráðherrann. Ég tel að flokkslínur skipti engu, sérstaklega ekki í Bretlandi, þar sem pressan gengur enn lengra en það sem við höfum nokkru sinni kynnst hér. Þar eru menn vegnir pólitískt án hiks í pressunni komi kusk á hvítflippann.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 12:12

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Þetta er breskum líkt...velta sér upp úr smáafglöpum manna fyrir áratugum. Stefán...ég trúi því ekki að þér finnist það eðlilegt að láta svona. Sennilega er Kristur einn nógu hreinn til að þola skoðun breskra....en hann er víst látinn fyrir all nokkru og verður víst ekki ráðherra þar. Það er ekki undarlegt þó breskir stjórnmálamenn séu upp til hópa hundleyðinlegir.

Jón Ingi Cæsarsson, 19.7.2007 kl. 12:38

6 Smámynd: halkatla

þetta er svo fyndið, algjör ekkifrétt og ekkiáfall - ég tek heilshugar undir með kjartanelli!!!

halkatla, 19.7.2007 kl. 12:47

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hún verður aldrei trúverðug til að fara fyrir nefndinni sem á að taka á lagabrotum vegna eiturlyfjamála, hafandi sjálf brotið lögin. Sá á vef Sky áðan viðtal við hana þar sem hún á í stökustu vandræðum að verja það. Mjög vandræðalegt í besta falli. Kjaftasögurnar segja að Brown sé æfur yfir þessum uppljóstrunum og að ráðherrann hafi ekki upplýst sig fyrirfram.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 12:50

8 Smámynd: G.J

Stebbi, þetta gerðist fyrir 25 árum síðan.  Hvað annað telur þú að hún að segja Brown þegar hann bauð henni ráðherrastöðuna ?  

Sigurður Kári, er hann ekki algjörlega óhæfur til að fjalla um og taka afstöðu og ákvarðanir um áfengislöggjöfina vegna "glæpa" sinna ?

G.J, 19.7.2007 kl. 13:39

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Árni: Hvenær braut dómsmálaráðherra jafnréttislög? Hvaða dómur féll þar um? Það væri fróðlegt að vita það.

Scotty: Auðvitað átti hún að segja Gordon Brown þetta. Þá er séns á því að hann hefði forðað sér frá þeirri skömm að velja hana til að stýra þessari nefnd. Þetta lítur mjög hlægilega út og er vandræðalegt. Sigurður Kári lenti í sínum málum eftir að hann varð þingmaður. Hann tók út sína refsingu og það mál varð opinbert með mjög afgerandi hætti. Það lá aldrei neinn vafi á þeim efnum. Það varð enginn leyndarhjúpur yfir því.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 16:08

10 Smámynd: Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir

Í Bretlandi fá menn sekt upp á 10 þús íslenskar, eitthvað svoleiðis, fyrir að hafa kannabisefni undir höndum. Það er t.d. tekið miklu harðar á fólki sem notar anabólíska stera.

Konan framdi lögbrot á sínum tíma, það er alveg klárt, en það var lögbrot sem nú á tímum þykir ekki ýkja alvarlegt. 

Það er alveg fráleitt að bera þetta dæmi saman við hin svokölluðu kynlífshneyksli. 

Hjúskaparbrot er í sjálfu sér ekki refsivert athæfi -- ekki lögbrot semsagt -- en bretar og bandaríkjamenn líta það mjög alvarlegum augum þegar fólk gerist sekt um slíkt þegar það gegnir æðstu opinberum embættum. Litið er svo á að framhjáhöld og kynlífsævintýri á bak við makann beri vott um alvarleg óheilindi  og slælegt siðferðisþrek, svo slælegt að viðkomandi sé ekki stætt á að gegna áfram embætti.

Kannabisreykingar fyrir 25 árum bera í rauninni ekki vott um nokkurn skapaðan hlut annan en unggæðislegt dómgreindar- og ábyrgðarleysi. Sem er nokkuð sem fólk vex uppúr.

Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, 19.7.2007 kl. 18:03

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Brown hefði örugglega viljað vita af þessu áður en hann valdi hana til að fara fyrir þessari nefnd.
Áfall fyrir Verkamannaflokkinn - jú alveg klárlega.

Óðinn Þórisson, 19.7.2007 kl. 18:15

12 Smámynd: Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir

"Áfall fyrir Verkamannaflokkinn - jú alveg klárlega."

 Kannski ákveðin pínlegheit fyrir Verkamannaflokkinn en tæpast mikið áfall.

Á undanförnum árum hefur fjöldi breskra ráðherra viðurkennt opinberlega að hafa reykt kannabisefni á unglingsárum. Hafa sennilega talið að það sé vænlegra að viðurkenna svona nokkuð að fyrra bragði.

Þannig að það er ekki eins og eitthvað sjokkerandi einsdæmi sé á ferðinni. 

Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, 19.7.2007 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband