Fjölmenn kveðjuathöfn um Einar Odd

Einar Oddur Kristjánsson (1942-2007)

Það kemur ekki að óvörum að mikill mannfjöldi hafi kvatt Einar Odd Kristjánsson, alþingismann, við minningarathöfn í Hallgrímskirkju í dag. Hann naut virðingar fólks í öllum flokkum og úr öllum áttum samfélagsins. Það kemur mjög vel í ljós í sérblaði Morgunblaðsins um Einar Odd í dag. Þar skrifa menn úr ólíkum áttum samfélagsins, menn sem kynntust honum á langri vegferð stjórnmála og þjóðmála, falleg minningarorð um bjargvættinn frá Flateyri.

Sérstaklega áhugavert fannst mér að lesa minningarorð Geirs Haarde, forsætisráðherra, Víglundar Þorsteinssonar, fyrrum formanns samtaka iðnrekenda, Ásmundar Stefánssonar, ríkissáttasemjara og fyrrum forseta ASÍ, Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum ráðherra og sendiherra, Agnesar Bragadóttur, blaðamanns, og félaga Einars Odds í þingstarfinu fyrir Vestfjarða- og Norðvesturkjördæmi; Sturlu og Einar Kristinn. Í heildina var það virkilega fróðlegt og áhugavert að lesa þessar minningargreinar allar, sem voru vel ritaðar og höfðu margt að segja og færðu okkur góða innsýn í þann karakter sem einkenndi Einar Odd Kristjánsson.

Þegar að ég hugsa til Einars Odds kemur mér helst upp í hugann spjall okkar fyrir nokkrum árum. Ég hafði ritað grein um andstöðu mína við öryggisráðsframboðið á frelsi.is. Hann las hana og hringdi í mig. Held að við höfum rætt um þessi mál í um fimmtán mínútur. Það varð tilefni spjalls síðar meir á Akureyri um þessi mál og á landsfundi á árinu 2005. Mér fannst framganga Einars Odds í þessu öryggisráðsframboðsmáli mjög mikilvæg. Hann lá ekki á skoðun sinni og hann öðlaðist sterkan sess í huga mér í gegnum sérstaklega það mál, þó að þau séu um margt svo ótalmörg málin sem hann vakti athygli mína í. Hann talaði alltaf hreint og beint um málin. Þeir eru alltof fáir þannig stjórnmálamennirnir í dag.

Það mættu margir stjórnmálamenn læra mikið af framgöngu Einars Odds á pólitískum vettvangi. Það er að vinna verkin frekar en tala mikið. Lyndon B. Johnson sagði eitt sinn að í þessum heimi væru tvær tegundir stjórnmálamanna: þeir sem töluðu mikið og þeir sem væru vinnusamir. Einar Oddur var vinnusama týpan og verður minnst fyrir það. Mér finnst stjórnmálalitrófið hérna heima svipminna við fráfall Einars Odds.

Það eru því fleiri en sjálfstæðismenn sem kveðja þennan eldhuga að vestan, sjálfan bjargvættinn að vestan, með söknuði. Það sást vel af fjöldanum sem sótti minningarathöfnina í Hallgrímskirkju í dag hversu sterkan sess Einar Oddur hafði. Hann á það líka skilið að hans sé minnst. Sjálfur lykilmaður þjóðarsáttarinnar, Bjargvætturinn, skilaði merku ævistarfi, þó að því hefði lokið allt of sviplega.

mbl.is Mikill fjöldi við kveðju- og minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband