Undarleg ákvörðun - pólitísk krísa á Akureyri

AkureyriÞað hefur ekki farið framhjá neinum manni að mikil pólitísk krísa hefur skapast hér á Akureyri vegna þeirrar ákvörðunar bæjaryfirvalda að meina 18-23 ára fólki aðgang að tjaldsvæðum bæjarins. Mikið hefur verið rætt og ritað um þessi mál. Um það verður ekki deilt að hátíðarhöldin um verslunarmannahelgina hér á Akureyri voru háð meira og minna í skugga þessarar ákvörðunar sem var umdeild og hefur verið tekist á um hana í kastljósi fjölmiðla, sem er að mörgu leyti mjög eðlilegt.

Mér fannst þessi ákvörðun bæjaryfirvalda með hreinum ólíkindum, einkum og sér í lagi að 18-23 ára einstaklingar eru orðnir lögráða. Ég hef hvergi á nokkrum vettvangi sem ég hef fylgst með og heyrt rökstuðninga með og á móti þessum fáránlegu aldurstakmörkum heyrt þeirri spurningu svarað af hverju mörkin voru sett við 23 ára aldur. Af hverju ekki 22 ára, nú eða 24 ára, eða kannski 25 ára? Þessi tala meikar verulega lítinn sens í huga mér og hef ég velt þessu máli verulega fyrir mér. 20 ára aldurstakmark hefði kannski verið skiljanlegt að vissu marki vegna áfengiskaupaaldurs, þó að það sé samt á gráu svæði í huga margra.

Ég stóð í þeirri trú fyrir þessa verslunarmannahelgi að tekin hefði verið sú ákvörðun að hafa aldurstakmarkið 18 ár. Enda var það í sjálfu sér varla svo fáránlegt viðmið. Við erum öll sjálfráða 18 ára og getum gert flest það sem okkur dettur í hug. Það að taka ákvörðun um að fara til Akureyrar og dvelja þar yfir helgi telst varla ólöglegt þegar að maður hefur náð átján ára aldri og getur sett sér sínar lífsins reglur að mestu leyti sjálfur með tilliti til lagabókstafsins í það minnsta. Það að fá sér í glas ætti líka að vera eigin ákvörðun á þessum aldri. Það leiðir vissulega hugann að því hversvegna áfengiskaupaaldri hefur ekki verið breytt og hann settur við hlið 18 ára aldurs.

Mér fannst þessi ákvörðun verulegt pólitískt klúður hjá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, kom ekki vel frá þessu máli. Í hita leiksins og þegar að ólgan jókst sífellt var það allt í einu skátunum að kenna að þessi aldursmörk voru sett. Þegar að í ljós var komið að ekki var meirihluti í bæjarstjórn Akureyrar við þetta 23 ára aldurstakmark var málið að mestu leyti fallið. Þetta er enda að mínu mati gjörsamlega óverjandi ákvörðun og ég hef ekki á nokkrum vettvangi heyrt sannfærandi vörn í þessu máli frá bæjarstjóra. Ég tel að þetta verði talin vond ákvörðun bæði nú sem síðar. Þetta var óskiljanleg ákvörðun líka.

Það fer mjög í taugarnar á mér að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri standi að því að setja slík aldursviðmið. Ég hélt að flokkurinn sem ég hefði unnið fyrir hér árum saman stæði fyrir eitthvað allt annað en þessa ákvörðun. Um er því að ræða mikið persónulegt áfall að svo mörgu leyti. Um er að ræða ákvörðun sem ég get engan veginn stutt og ég mótmæli henni harðlega. Þetta er ákvörðun sem hélt ekki vatni og að mörgu leyti var lagt á flótta með hana um leið og hún hafði í raun verið tekin. Hún varð veruleiki mjög seint, svo seint reyndar að öll kynningarblöð tengd hátíðinni voru merkt því að átján ára aldurstakmark væri á tjaldsvæðin.

Vissulega var veðrið vont um helgina og það hafði sín áhrif. Það hafði líka þessi ákvörðun og ímyndin sem vofði yfir Akureyri þessa helgina var að hér væri fólk á þessum aldursmörkum, 18-23 ára, ekki velkomið og það væri í straffi. Það er ólíðandi að mínu mati og það er undarlegt að enn skuli jafnvel haldið í það að þessi aldursmörk verði sett aftur. Það verður að taka af skarið strax. Svona klúður má einfaldlega ekki gerast aftur í höfuðstað Norðurlands. Ég studdi ákvörðun um að leggja af sérstök ungmennatjaldsvæði en ég mun aldrei geta varið að loka tjaldsvæðin fyrir lögráða fólki. Það er alveg einfalt mál í sjálfu sér.

Nú er hafin undirskriftasöfnun gegn þessari ákvörðun og gegn bæjaryfirvöldum, einkum bæjarstjóranum á Akureyri. Ég fæ ekki betur séð en að um sé að ræða mikla pólitíska krísu. Það kemur mér ekki að óvörum að ólga vakni vegna þessa máls. Sjálfur hef ég hugleitt mjög undanfarna daga hvort ég geti hreinlega stutt stjórnmálaflokk sem stendur að svona ákvörðun og svona verklagi. Tíminn verður að leiða það í ljós.


mbl.is Hvetja til afsagnar bæjarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi...mér finnst þú fjalla um þetta mál af mikilli vanþekkingu og þér ólíkt.

Þetta mál er ekki flokkspólitískt og þessi ákvörðun er ákvörðun að opna ekki á þennan aldurshóp á almenn tjaldsvæði Akureyrar. Þau hafa verið honum lokuð lengi um verslunarmannahelgar.

Fram að þessu hafa verið sérstök unglingatjaldsvæði á Akureyri um þessa helgi eða í rúmlega 10 ár og fólki á þessum aldri vísað þangað.

Bæjarfulltrúar Akureyrar tóku ekki þessa ákvörðun heldur starfshópur sem skipaður var að bæjarráði til að vera fulltrúar bæjarins í þessu ferli.

Tugir tjaldsvæða um land allt hafa aldursviðmið og nokkuð misjafnt hvernig þau eru. Hæsti viðmiðunaraldur sem ég veit um eru 30 ár á Laugarvatni.

Skoðanir eru mjög skiptar og stór hópur manna er afar ánægðir með þessa helgi og þar má telja presta, hjúkrunarfólk, lögreglu, barnaverndaryfirvöld og margir fleiri.

Ég hefði ekki trúað því að sjá þig skrifa með þessum hætti og legg til að þú kynnir þér málin betur frá öllum hliðum áður en þú legst í sleggjudóma.

Jón Ingi Cæsarsson, 9.8.2007 kl. 14:05

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Stefán, ég er sammála þér hérna. Bæjarstjórinn missti sig í vitleysu í tiltölulega einföldu máli.

Það má því alveg spyrja með fullri sanngirni hvort hún verði eitthvað betur hæf þegar málin verða flóknari. Það er þess vegna rétt hjá þér að efast um að hægt sé að styðja bæjarstjórnina til annarra verka. 

Haukur Nikulásson, 9.8.2007 kl. 15:18

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Stefán ,sammála þessu þetta var röng ákvörðun á alla vegu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 9.8.2007 kl. 16:00

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Fjölmargar fjölskyldur um land allt hugsa sér gott til glóðarinnar varðandi útilegu um verslunarmannahelgi næsta árs á Akureyri.

Andið rólega nyrðra.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.8.2007 kl. 16:46

5 Smámynd: Helgi Már Barðason

Stormur í vatnsglasi. En mikið svaf ég vel.

Helgi Már Barðason, 9.8.2007 kl. 18:03

6 Smámynd: Brattur

... við Akureyringar viljum helst ekki neina gesti í bæinn og viljum eiga sem minnst samskipti við utanbæjarfólk, nema þá í mesta lagi með tölvupósti... þetta aðkomulið raskar bara ró okkar... hverjir mega svo ekki tjalda á næsta ári hjá okkur, þeir sem nota skó nr. 42 og eiga færri en 3 börn???

Brattur, 9.8.2007 kl. 20:30

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ákvörðun bæjarstjórnar finnst mér vera kórrétt. Það má vera að tilkynna hefði átt kaupmönnum og öðrum þjónustuaðiljum einhverjum dögum fyrr um breytta tilhögun, svo að þeir hefðu pantað hóflegar inn.

Nú hefur komið í ljós, að svokallaðir "Vinir Akureyrar" eru ekki neinir vinir, nema þeir fái í friði að féfletta ölóða og/eða dópaða unglinga helst næturlangt ? Slíkir vinir mega missa sín. Bæjarstjórn Akureyrar hefur sýnt kjark og dug í þessu máli og það er næsta víst, að foreldri og forsjármenn barna og unglinga um land hugsa með hlýju til forráðamanna ykkar, Akureyringar, og í Guðs bænum, látið ekki fjár-sjúka menn fá ykkur til að skrifa undir marklausa áskorun. Þið eigið fagran og þrifalegan bæ, sem gaman er að heimsækja. Þannig á Akureyri að vera áfram, verðugur sómi Norðurlands. Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 9.8.2007 kl. 20:37

8 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Smá villa ........um land... les: um land allt hugsa .........

Kristján P. Gudmundsson, 9.8.2007 kl. 20:43

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Góður pistill hjá þér, og ekki datt mér í hug að þú gætir tekið undir þessar ákvarðanir. Sjálf sá ég mig tilknúna  til þess að taka upp hanskann fyrir þennan hóp og vekja athygli á þessu þegar bæjarstjórinn kom í fréttir og sagði frá þessu fyrir helgina. Bókstaflega óskiljanleg ákvarðanataka.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.8.2007 kl. 01:51

10 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Helgar tilgangurinn meðalið?

Mér finnst bæjarstjórn (og nefndir sem starfa með hennar umboði) senda frá sér misvísandi skilaboð. Bæjarráð samþykkti að veita undanþágu þannig að það væri hægt að halda 16 ára ball til klukkan 3 um nóttina þessa umræddu helgi. Aðrir skemmtistaðir fengu að vera opnir til klukkan 5 um morguninn. Ég get ekki skilið þessa ákvörðun öðruvísi en það sé verið að höfða til ungs fólks. Eða er verið að höfða til fjölskyldufólks með því að hafa skemmtistaðina opna fram undir morgun, líka fyrir 16 ára unglinga?

Nokkru síðar er þessi ákvörðun tekin um að heimila ekki ungu fólki aðgang að tjaldsvæðinu. Væri ekki nær að reyna að notast við aðgerðir sem eru ekki móðgandi við gesti okkar og hafnar yfir vafa um það hvort þær væru löglegar s.s. með því að efla gæslu eða lengja ekki opnunartíma skemmtistaða.

Þó að tjaldstæðið á Laugarvatni sé örugglega ágætt þá hafa reglur sem þar eru settar ekki lagalegt gildi svo ég viti og koma að a.m.k. ekki í staðin fyrir stjórnaskrá Lýðveldisins og lög um neytendavernd. Mér finnst óhætt að gera þá kröfu til stjórnenda bæjarins að þeir fari frekar eftir lögum en ákvörðunum tjaldstæðavarða á Laugarvatni. Þið afsakið frekjuna.

Það er ekki hægt að leyfa sér að gera hvað sem er jafnvel þó að markmiðið sé göfugt. Þetta mál er ekki dæmi um góða stjórnsýslu. Það ættu allir að sjá, líka Jón Ingi.

Gísli Aðalsteinsson , 10.8.2007 kl. 09:43

11 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Ég vil taka það fram að þó að ég sé gagnrýnin á þessa tilteknu ákvörðun að þá er langt því frá að ég geti tekið undir allt sem einstaklingar í hópnum sem kallar sig Vini Akureyrar hafa sagt opinberlega. Mér finnst t.d. þessi undirskriftarsöfnun um að meirihlutinn segi af sér út af þessu máli alveg hlægileg.

Þetta var slæm ákvörðun en sumir kaupmenn þurfa líka greinilega aðeins að slappa af eftir helgina.

Gísli Aðalsteinsson , 10.8.2007 kl. 11:19

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón Ingi: Sigrún Björk hefur sagt í yfirlýsingu sinni að ákvörðunin væri hennar. Þetta er pólitísk ákvörðun sem bæjarstjórinn tekur auðvitað alla ábyrgð af. Meirihluti bæjarstjórnar styður ekki þessa ákvörðun eins og fram hefur komið í fréttum. Hver er afstaða bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar annars? Ég rita ekki um þetta af neinni vanhugsun. Ég er að tjá skoðun mína á þessu máli og ég get ekki stutt þetta. Meirihlutinn þarf að fara að hugsa sitt ráð að mínu mati ef ekki á verulega illa að fara.

Þakka öðrum fyrir sínar hugleiðingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.8.2007 kl. 11:48

13 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þarna er ég þér algjörlega sammála Stefán, manni dettur helst í hug aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku.

kv. Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 10.8.2007 kl. 14:27

14 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta var í meira lagi undarleg ákvörðun sem erfitt er að skilja.
Hvað skylirði setja menn næst ?

Óðinn Þórisson, 11.8.2007 kl. 09:49

15 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

ég reikna með að vandinn sé leystur. Flestir hér sjá einfaldar lausnir og það er gott...bætum bara við gæslu og þá er málið leyst. En hverjir ætlað að greiða fyrir þá gæslu og bera ábyrgð gagnvart þeim sem eiga líka sinn rétt að fá friði sínum og umvhverfi ekki stefnt í voða.

Það hafa slíkar ofurtölur verið nefndar í þessu sambandi að mann rekur í rogastans. Vinir Akureyrar hafa tapað 300 millum á þessari ákvörðun að eigi söng og þess vegna er ég ekki alveg að átta mig á því hvers vegna þeir hafa sótt um styrki frá skattborgurum Akureyrar og láti löggæslu og heilbrigðisþjónustu bera mikinn kosnað vegna viðbótarálags. Ef gróðinn hefur verið svona rosalegur er líklegt að það þurfi ekki í framtíðinni. þeir greiði og eigi hátíðina einir og sér og greiði allan kosnað og eigi allan gróða en hafi það ekki þannig að þeir eigi allan gróða og aðrir beri kosnað eins og verið hefur.

ég legg það til eins og fleiri hafa gert að vinir Akureyrar reki eigið tjaldsvæði um þessa helgi og beri alla ábyrgð á því og þeim kosnaði sem hlýst af þeirri gæslu sem til þarf. Flestum sem hér hafa skrifða virðist nokkuð sama þó skátar yrðu gjaldþrota á því að þurfa að bregðast við því sem átti að leggja á tjaldsvæði sem þeir var falið að reka og er jafnframt útvistarmiðstöð skáta.

Hvers vegna vildu engir reka unglingatjaldsvæði núna ? af hverju gafst KA upp á slíku fyrir nokkrum árum. Hvernig var ástandið á tjaldsvæði sem Þór raka á siðasta ári og mörg ár þar á undan...Umræðan um þessi mál hefur verið grunn og einhliða. Margir sem hér skrifa bregðast við einum þætti málsins og kjósa að láta aðra þætti sem valda þessari ákvörðun órædda sennilega vegna vanþekkingar og hugsunarleysis.

Jón Ingi Cæsarsson, 11.8.2007 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband