Fjölmenni á Dalvík - glæsilegt framtak

Fiskidagurinn mikli

Á morgun verður Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í sjöunda skiptið. Sú hefð hefur skapast að á öðrum laugardegi í ágústmánuði er haldin þessi glæsilega bæjarhátíð við höfnina á Dalvík. Fiskidagurinn hefur tekist með eindæmum vel þau sex ár sem hann hefur áður verið haldinn. Árið 2001 komu um 7.000 manns á hátíðarsvæðið, 2002 um 15.000, 2003 um 23.000, 2004 rúmlega 25.000, 2005 voru þeir 30.000 og í fyrra rúmlega 35.000 manns.

Mikið fjölmenni, yfir 10.000 manns, er þegar komið til Dalvíkur og stefnir í skemmtilega fiskidagshelgi nú rétt eins og hin fyrri árin. Enn ein hefðin hefur skapast í kringum fiskidaginn en það er súpukvöldið nú daginn fyrir fiskidaginn. Það er skemmtilegt upphaf að hátíðinni og góð hefð sem með því er komin til sögunnar. Í kvöld opna íbúar í rúmlega 40 íbúðarhúsum í Dalvíkurbyggð heimili sín fyrir gestum og gangandi. Þeim er boðið upp á súpu og virkilega notaleg stemmning skapast. Það var mjög ánægjulegt að fara í fyrra labbitúr um bæinn og kynna sér það sem var að gerast og verður gaman í kvöld. Allsstaðar er fólki tekið með höfðingsskap, því boðið upp á góðan mat og notalegt andrúmsloft.

Ég bjó í nokkur ár á Dalvík og á þar góða vini, bæði frá árunum í skólanum þar og svo fólk sem ég kynntist í gegnum lífið og tilveruna. Allt alveg yndislegt fólk og það er gott að maður á góðar tengingar þangað - það finn ég alltaf vel þessa helgi sem þessi bæjarhátíð er. Það er svo margt fólk sem vill að maður komi í heimsókn og vill ræða við mann og metur mann mikils. Það er ómetanlegt. Allsstaðar hitti ég fólk á hátíðinni sem maður þekkir og það er jafnan um margt að spjalla, suma hittir maður alltof sjaldan og aðrir eru traustir vinir sem maður er reglulega í sambandi við.

Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Þetta er auðvitað glæsilegt framtak, enda mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist á Dalvík á þessum degi að byggja upp yndislega stemmningu og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af.

Bendi lesendum að sjálfsögðu á heimasíðu Fiskidagsins mikla og kynna sér dagskrá og atburðina um helgina. Að lokum vil ég auðvitað hvetja alla, sem eiga tök á því, til að skella sér til Dalvíkur á morgun og njóta lífsins og yndislegrar stemmningar þar.


mbl.is „Ótrúlegt mannhaf “ á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Velkominn aftur í bloggheima. Gott að lesa skrifin þín á ný. Skemmtu þér vel á fiskidaginn, ég verð fjarri góðu gamni þetta árið. Kær kveðja til þín og fjölskyldunnar með von um að þokkaleg gangi í veikindunum.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.8.2007 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband