Volgi borgarstjórinn talar sig frá vínkælinum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er svolítið kostulegt að sjá hvernig að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, er nú byrjaður að reyna að tala sig frá vandræðaganginum sem fylgdi kælinum í vínbúðinni í Austurstræti, sem hann vildi að yrði fjarlægður. Hann segir nú það vera sér að meinalausu að hann verði settur á sinn stað og í samband. Sennilega eru pólitískir ráðgjafar borgarstjórans farnir að átta sig á því að þetta mál er í alla staði hið vandræðalegasta fyrir mann sem vill kenna sig við leiðtogastöðu í hægriflokki.

Borgarstjórinn í Reykjavík segir nú kælinn vera algjört aukaatriði málsins. Hvers vegna fór hann þá fram á að hann yrði fjarlægður og gekk skrefið lengra með því að krefjast líka að bjór yrði ekki seldur í stykkjatali. Nú er búið að snúa við blaðinu, það er leitað af eftiráskýringum til að koma sér út úr klúðrinu. Þeir eru ekki margir sem leggja í það að verja talanda borgarstjórans og það sem hann kom með upphaflega. Hann er auðvitað bara orðinn algjört aðhlátursefni eins og nakti keisarinn í gamla góða ævintýrinu. Þetta er svona týpískur vandræðagangur, sem vekur enn meiri athygli en ella vegna þess að um er að ræða kjörinn sveitarstjórnarfulltrúa í vel á þriðja áratug og formann sambands sveitarfélaga í hartnær tvo áratugi.

Þetta mál er allt hið kostulegasta. Það að láta sér detta í hug að einn kælir í vínbúð leiki lykilhlutverk í drykkjuvenjum þeirra sem koma til að kaupa sér léttar veigar er eiginlega hlægilegt í besta falli sagt. Eða hvort bjór sé seldur í stykkjatali. Þetta mál með kælinn hefur hinsvegar opnað á margar spurningar um stjórnmálamanninn Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og hvar hann sé staddur á sinni pólitísku vegferð. Í svo miklu klúðri er skiljanlegt að reynt sé að bakka en spurningin er hvort að það sé ekki orðið of seint. Hvort borgarstjórinn sé ekki orðinn of pólitískt volgur til að slá í gegn.

Það er mikið verkefni að vera borgarstjóri. Þar skiptir máli að láta til sín taka og vinna vel. Geirs Hallgrímssonar var minnst fyrir að malbika Reykjavík, Davíðs Oddssonar verður minnst fyrir framkvæmdasemi á mörgum sviðum á valdastóli og Gunnars Thoroddsens fyrir að byggja upp borgarhverfin með myndarbrag. Svona mætti lengi telja. Það verða grátleg örlög fyrir gamla góða Villa ef hans verður minnst fyrir að slökkva á vínkælinum og halda að bjórdrykkja landsmanna standi og falli með því hvort bjórinn sé seldur kaldur.

Ekki er þetta vegleg hægristefna í verki hjá gamalreyndum en þó volgum sveitarstjórnarmanni, segi ég og skrifa.

mbl.is Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Stefán Friðrik!

Augljóslega ertu búinn að koma þér upp þráhyggju varðandi þetta mál; um hvað Villi var að tjá sig og um hvaða vandamál er að ræða. Ef þú færir niður Laugaveginn og um Kvosina allt frá því snemma að morgni og fram eftir degi, þegar viðrar til útiveru, myndu augu þín opnast, nema þú gangir um blindandi. Vandinn er ekki ein vínbúð eða minibar þar, heldur að þarna er athvarf talverðs hóps, einkum karla, sem virðist ekki eiga betri kosta völ í eymdinni en sýna sig, betla og bjálfast. Það er úrlausnarefnið.

Herbert Guðmundsson, 23.8.2007 kl. 18:52

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þessi kælir á eftir að reynast honum erfiður. Vilhjálmur verður að skoða sína stöðu mjög vel því það verður mjög vel fylgst með honum á næstunni.
Þetta er sorglegt því minnihlutinn er slakur og engin ástæða til að skora sjálfsmörk.
Hanna Birna er mjög sterkur stjórnmálamaður og klárlega framtíðarleiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Óðinn Þórisson, 23.8.2007 kl. 18:52

3 identicon

Hvar betla betlarar, þeir betla þar sem fólkið er, algerlega óháð vínkælum.
Hvernig sem er horft á þessa hugmynd þá er hún algerlega fáránleg.
Hugmyndir borgarstjórnar eru að versna með hverri hugdettu, allt saman Lísu í undralandi hugdettur.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 19:40

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Viltu kíkja á mitt blogg og hjálpa til! Please!!

Heiða B. Heiðars, 23.8.2007 kl. 20:41

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Borgarstjóri stendur í stórræðum í hinum ýmsu krókum og kimum borgarinnar og er að vinna óhemju þarft og gott verk.

Tiltektin eftir fyrri meirihluta er mikið mun meira verk en fólk almennt veit og árangurinn á eftir að koma í ljós.

Þjóðin býsnast yfir Grímseyjarferjukostnaði upp á 300 - 400 milljónir króna og vill hengja einhvern.

Borgin fór út í rafrænt greiðslukerfi fyrir strætó og sundstaðina. Kostnaðurinn er kominn yfir 500 milljónir króna og er ekki séð fyrir endann á þeim skandal. Borgarstjóri tekst á við það verkefni eins og mörg önnur og er ekki að berja sér á brjóst yfir árangrinum sem á eftir að koma í ljós.

Svo haldið þið ekki vatni yfir nokkrum kældum bjórum!!!!!!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 23.8.2007 kl. 21:32

6 Smámynd: Herbert Guðmundsson

RÓNALÍF ... Lýsing Egils Helgasonar frá því fyrir nokkrum misserum:

"Upp úr níu koma rónarnir í bæinn. Þá er lokað í Farsótt. Þeir koma eins og sveimur niður Þingholtin. Sitja á bekkjunum á Lækjartorgi og í Austurstræti þangað til opnar á Kaffi Skít. Það gerist líklega um ellefu. Þá hverfa þeir margir. Mest er að gera á Skít upp úr hádegi. Á kvöldin er þar lítil traffík, þá eru flestir fastagestirnir þreyttir. Þeir koma aftur daginn eftir. Rónar þurfa kannski ekki að hafa áhyggjur af smáborgaralegu amstri, en líklega er þetta frekar tilbreytingarsnautt líf.

Maður sér lögregluna sjaldan amast við rónunum. Frekar að hún taki eitthvað lið sem er að sniglast í kringum þá – eftirlegukindur næturinnar. Þá sem eru ekki ennþá komnir í ræsið. Á laugardagsmorguninn sýndist mér lögreglan vera að hirða tvo drykkjumenn sem húktu heldu heldur aumingjalegir á bekk. Þegar betur var að gáð voru þetta tveir ungir piltar sem litu út fyrir að hafa klárað samræmdu prófin daginn áður.

--- --- ---

Bærinn er ótrúlega óþrifalegur á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Pylsubréf, glerbrot og hálfdrukkin glös út um allt. Mávarnir eru að kroppa í óþverrann í morgunsárið. Einu sinni var ég að ganga hjá Tjörninni og þá datt heil sómasamloka rétt við hausinn á mér. Með rækjusalati sýndist mér. Ég gáði upp í himinninn til að athuga hvaðan hún kom. Var það mávur sem ekki loftaði feng sínum? Eða kannski flugvél? Ég kom ekki auga á neitt."

Hvað hefði gerst ef samlokan hefði verði með roast-beaf og remúlaði? Annars er þetta alls ekkert grín allt saman, heldur alvaran uppmáluð.

Herbert Guðmundsson, 23.8.2007 kl. 22:09

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Hefði ekki getað orðað þetta svona vel eins og Stefán Friðrik,þessi grein er tær snilld!!!!/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.8.2007 kl. 23:14

8 Smámynd: Fannar frá Rifi

Villi er á sorglegri braut á leið frá sjálfstæðisstefnunni í átt til hafta og forræðishyggju. Núna með því að reyna að stjórna neyslu almennings en það er ekki allt. Í vetur barðist hann gegn því að ferðmenn kæmu til landsins. Villi virðist bara vera vinstri hafta maður. Það er hreinlega ekki hægt að bera gegn því.

Fannar frá Rifi, 24.8.2007 kl. 00:28

9 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Flott að einblína á einhvern kæli. Í mörgum öðrum löndum eru kælar í hverri búð og þykir ekkert tilkomumál frekar en Coca Cola.
Umgengni á almanafæri er allt anað mál og virðast menn ekki þurfa að vera útúrdrukknir til að skemma og mölva. 

Ólafur Þórðarson, 24.8.2007 kl. 02:02

10 Smámynd: Jens Guð

  Villi er áreiðanlega hinn vænsti maður.  Í pólitík er hann alþýðlegur sósíaldemókrat.  Hrifnæmur varðandi alþýðilegar lausnir á vandamálum án þess að vera harðlínumaður í hugmyndafræði.  Og blessunarlega laus við frjálshyggjutakta.

  Eitt af fyrstu embættisverkum Villa var að taka upp baráttu gegn spilakössum í Mjódd.  Bann.  Engir spilakassar í fjölskylduparadísinni Mjódd.

  Ég er að mörgu leyti ánægður með alþýðlega takta Vilhjálms.  En mér þótti hann aðeins fara yfir strikið með banni á spilakassa í Mjódd. 

  Ég er afskaplega ánægður með afstöðu Villa varðandi heimili fyrir útigangsmenn á Njálsgötu.  Stend heilshugar að baki því dæmi.  Líka varðandi málamiðlunina að fækka utigangsmönnum þar úr 10 í 8 til að skapa sátt.

  Þetta með bann við sölu kælds bjórs í Vínbúð í Austurstræti orkar tvímælis.  Svo ekki sé meira sagt.  Rökin eru að að kaup á volgum bjór á virkum dögum hindri ofbeldi í miðbænum um helgar.  Töluvert langsótt svo ekki sé meira sagt.

  Eða tilmæli hans um að fólk verði að kaupa 6 stykkja pakka.  Sem stangast á við lög.  Í dag heyrði ég hann leggja til í útvarpsviðtali á Bygljunni að bannað verði að selja ölvuðu fólki áfengi í Vínbúðum og á veitingastöðum.

  Æ, er þetta ekki út úr korti?  Það eru einhverjir 3 - 5 rónar til vandræða í Austurstræti betlandi pening.  Ég hef sjálfur lent í að vera beðinn um 100 kall af þessum rónum. 

  Er ekki einfaldara og eðlilegra að taka á vanda þessara  3ja til 5 vesalinga fremur en hlaða boðum og bönnum yfir 200.000 höfuðborgarbúa?

Jens Guð, 24.8.2007 kl. 02:10

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Vilhjálmur borgarstóri hefur án efa alveg rétt fyrir sér í þessu máli það ætti hver heilvita maður að sjá sem leggur þau atriði á vogarskálar. Mikilvægi þess að ekki sé verið að auka á vanda þeirra sem þegar eru í vanda staddir og valda öðrum ónæði af þeim sökum , má fyrirbyggja í einhverjum mæli. Vandamál þess að menn geti ekki keypt einn bjór í einu í þessari verslun sem ekki eiga við vandamál fíknar að stríða er léttvægt á vogarskálunum miðað við hitt að mínu mati.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.8.2007 kl. 02:23

12 Smámynd: Óðinn

Guðrúm, afsakaðu - en ertu að segja mér að þessi ákvörðun Viljálms eigi við rök að styðjast, svo lengi sem við leggjum atriðin rétt á vogarskálar? Útskýrðu þetta nánar, svona svo ég sjái hversi mikill "óviti" ég er.

Finns mér frekar að þú ættir að leggja atriðin á vogarskálar því það er ljóst að þeir einstaklingar sem þessi ákvörðun beinist að munu vart kippa sér við því hvort áfengið við hönd sé volgt eða kalt.

"Hefur alkohólisma verið útrýmt? Vilhjálmur hefur því fundið ástæðu vandans sem miðbærinn hefur hrjáðst af og notfært sér völd sín til að útrýma honum algerlega í einni svipan? Það er ótrúlegt að þessi lausn hafi þá ekki legið fyrir öll þessi ár, eða er það ekki annars staðreynd að þeir sem eru hluti vandans sem verið er að leiðrétta hér geti ekki fyrir sitt litla líf drukkið volgt áfengi? "

Ég held að þú sért haldin einhverri fyrringu ef þú heldur því fram að þótt að fíkniefnið sé takmarkað eða jafnvel fjarlægt að vandamálið hverfi með því - það er bara einfaldlega ekki rétt.

Óðinn, 24.8.2007 kl. 09:41

13 Smámynd: Þarfagreinir

Af orðum Vilhjálms var ekki að heyra að hann hefði áhyggjur af drykkjuvenjum rónanna, né þeirra velferð. Samúð hans virðist vera með þeim 'broddborgurum' sem finnst ólíðandi að rónarnir séu að belta hundraðkalla fyrir bjór af þeim. Nei, það gengur ekki - betra að reyna að bægja þeim frá Vínbúðinni og bjórum í stykkjatali svo þeir angri ekki heiðvirt fólk.

Auðvitað munu rónar útvega sér áfengi með einum eða öðrum hætti, svo lengi sem þeir eru virkir alkar. Að gera þeim erfiðara fyrir að kaupa stakan og stakan bjór breytir nákvæmlega engu þar um - og slíkar aðgerðir bitna auðvitað mest á almennum viðskiptavinum Vínbúðarinnar. Að líta á þetta sem einhvers konar skref í átt að lausn á rónavandanum er annað hvort gengdarlaust dómgreindarleysi, eða kaldranaleg uppgjöf gagnvart því að reyna að koma rónunum til hjálpar með beinum leiðum til að koma þeim af götunni.

Borgarstjórinn hafði nákvæmlega engan rétt til þess að ákveða það upp á sitt einsdæmi (reyndar með stuðningi formanns borgarstjórnar, en það er aukaatriði) að þetta væri þarft verk, og senda persónulega bréf þar sem hann íhlutast út í starfsemi Vínbúðarinnar.

Vilhjálmur og Björn Ingi misreiknaðu sig þarna algjörlega; stigu freklega út fyrir sitt valdsvið, sem og almenna skynsemi, og ég vona að þetta verði þeim báðum til ævarandi háðungar - og að þetta muni fólk muna í næstu kosningum.

Þarfagreinir, 24.8.2007 kl. 11:53

14 Smámynd: Steinar Örn

Ef mér skjátlast ekki þá komu útigangsmennirnir áður en þessi blessaði kælir kom. Jú og reyndar líka áður en farið var að selja bjór í stykkjatali hérna um árið. Þegar ég hugsa betur um það minnir mig að drykkjumenn og alkóhólismi hafi verið til staðar áður en bjórinn var leyfður.

Kannski er ég að ruglast eitthvað

Steinar Örn, 24.8.2007 kl. 11:58

15 Smámynd: Fannar frá Rifi

Vandamálinn eru til þessa að kenna einhverju eða einhverjum um þau. 

Rónar eru rónar. það hefur ekkert breyst þótt þeir drekki bjór eða rauðspritt.

Vandamálið sem er verið að kenna áfengi um er ekki áfenginu að kenna. Við höfum lifað í svo miklu hömlu og hafta samfélagi að ef áfengi er haft um hönd þá er það drukkið allt í einu. Íslendingar drekka um helgar allan vikuskammt annarra þjóða. frá 10 um kvöldið til sex um morgnanna eru íslendingar staur fullir um helgar. Drykkju menning batnar til muna þegar við drekkum oftar og minna í einu.

allt er gott í hófi.

Fannar frá Rifi, 24.8.2007 kl. 14:01

16 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér finnst þú Stefán, sem innmúraður í flokkinn, gera fullmikið grín að leiðtoga Sjálfstæðismanna í Reykajvík. Í seinni tíð gerist þú fremur kaldhæðinn og það jafnvel í garð eigin flokksmanna. Við svo búið lýsi ég því yfir að ég tek undir með þér.

Jens er með þetta á hreinu eins og svo oft áður. Tökum á vandamálum þeirra fáu einstaklinga sem eru til leiðinda fremur en að auka leiðindin hjá öllum hinum sem eru til friðs. Amen. 

Haukur Nikulásson, 24.8.2007 kl. 14:45

17 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin og lífleg viðbrögð við skrifunum. Það hefur sést af framgöngu borgarstjóra að hann er á flótta í málinu - skal engan undra. Held að bakland hans sé ekki beint gleðilegt yfir því hvernig hann hefur komið fram.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.8.2007 kl. 21:22

18 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik og skrifararnir !

Heyr á endemi,,,,,,,,,,,,,,,,, Stefán Friðrik !!! Hugði þig, jafnvel nær okkur bindindismönnum, raunin er sannarlega önnur.

Er áfengisflóðið ekki nóg fyrir, í landinu ? Hefði ekki verið nær, að hvetja hinn hrekklausa og góðgjarna borgmeistara; Vilhjálm til dáða, að andæfa enn frekar, við áfengisflaumnum ?

Er glæpaaldan, og ósómi annar eitthvert náttúrulögmál; Stefán minn ?

Með mjög blendnum kveðjum, til ykkar Eyfirzkra, sem og annarra /

Óskar Helgi Helgason, úr Árnesþingi ritað; skömmu eftir lágnættið   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 00:14

19 Smámynd: Jens Guð

  Mér varð hugsað til þess þegar ég heyrði Villa bera upp tillögu um að bannað verði að selja ölvuðu fólki áfengi í Vínbúðinni í Austurstræti og vínveitingahúsum í miðbænum:  Verða viðkomandi fyrirbæri þá að láta fólk blása í áfengismæli?  Ef kaupandinn mælist fyrir ofan ö,5 prómill fær hann ekki afgreiðslu.  Þarf fólk í miðbænum að framvísa félagsskírteini í SÁÁ eða Templarahreyfingunni til að fá afgreiðslu.  Villi er stjórnarmaður í SÁÁ.  Ég veit ekki hvernig á því stendur.  Ég þekki ekki þann ágæta félagsskap.  Að óreyndu held ég að sá félagsskapur samanstandi af óvirkum ölkum.  Leiðréttið það endilega ef ég hef rangt fyrir mér.    

Jens Guð, 25.8.2007 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband