Eiga dómarar í Hæstarétti að velja eftirmenn sína?

HæstirétturBjörn Bjarnason, dómsmálaráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, í stað Hrafns Bragasonar, sem lætur af embætti um mánaðarmótin eftir tveggja áratuga setu í réttinum. Hrafn er eini dómarinn í réttinum nú sem skipaður var áður en Sjálfstæðisflokkurinn fékk dómsmálaráðuneytið árið 1991, en fjórir ráðherrar hafa setið í nafni flokksins þar á þessum sextán árum; Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Sólveig Pétursdóttir og Björn Bjarnason.

Nú hafa starfandi dómarar við Hæstarétt Íslands, þar á meðal Hrafn Bragason, fráfarandi dómari við réttinn, skilað áliti um hæfni umsækjenda. Með þessu verklagi á undanförnum árum hafa dómarar t.d. tekið sér það bessaleyfi að raða umsækjendum í hæfnisröð og stillt þeim upp að eigin hætti. Frægust varð þessi hæfnisröð árið 2004 þegar að eftirmaður Péturs Kr. Hafsteins var skipaður í réttinn og væntanlega urðu deilurnar um hana þá mestar. Hefur mér jafnan fundist það vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda eins og orðrómur var um árið 2004.

Að mínu mati eiga dómarar aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í 4. grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum eða taka þá við af þeim sem eru á útleið úr réttinum.

Hæfnisröð dómara við fyrri skipanir í réttinn hafa vekið upp margar spurningar. Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Annar valkostur er að val ráðherrans fari fyrir þingið til staðfestingar, ekki ósvipað og gerist t.d. í Bandaríkjunum. Með því yrði valið ekki aðeins eins manns hefur löggjafarsamkundunnar allrar.

Það verður væntanlega erfitt verkefni fyrir ráðherra að velja einn af umsækjendum til starfa. Um er að ræða nokkra mjög hæfa einstaklinga sem sækja um og reynda á sínu sviði. Það bætir hinsvegar ekki úr skák, hvorki fyrir umsækjendur né ráðherra sem hefur skipunarvaldið varðandi stöðu dómara, að dómarar við Hæstarétt taki upp á því að raða mönnum í röð eftir geðþótta sínum eða velji út menn sem þeim er ekki að skapi og setji þá aftar í hæfnisröðina en reynsla þeirra segir til um eins og gerðist t.d. árið 2004.

Fagna ég því að Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson hafi skilað séráliti og með því komið með sterk skilaboð í þá átt að þeir taki ekki þátt í þessu hæfnisferli umsækjenda. Það er ekki fjarri lagi að horfa til uppstokkunar á þessu ferli með einum hætti eða öðrum. Annars er öllum ljóst að valdið til að skipa dómara nú er dómsmálaráðherrans, enda er vald réttarins aðeins að skila ráðgefandi umsögnum um hæfi og hæfni umsækjenda.

Það verður fróðlegt að sjá hvern ráðherra muni velja í þetta lausa dómarasæti.


mbl.is Þrír hæfastir í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Er ekki eðlilegt að miða við aukinn meirihluta Alþingis?

Gestur Guðjónsson, 27.8.2007 kl. 11:37

2 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Eins og staðan er í dag mun það vera Forseti Íslands sem skipar dómara í Hæstarétti samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra.  Ekki sé ég þess merki að foretanum sé skylt að skipa þann sem dómsmálaráðherra gerir tillögu um en hingað til hefur aldrei skorist í odda með ráðherra og forseta um þetta atriði.  Sé það hins vegar skilningur manna að vald forseta, að þessu leiti, sé ekkert í raun þá spyr maður sig vissulega, hve eðlilegt er að dómsmálaráðherra taki einn ákvörðun um skipun í embættin.

Reyndar vil ég snúa spurningunni við og spyrja:  "Er eðlilegt að dómsmálaráðherra, sem skipar í allar dómarastöður í landinu, skipi jafnfram saksóknara og lögreglustjóra og teljist einnig æðsti stjórnandi löggæslu í landinu?"  Hvernig fer þá með trúverðugleika rannsókna á meintum brotum lögreglunnar eða lögreglumanna ef lögreglan, ákæruvaldið og dómstólarnir eru settir undir einn og sama hattinn?

Hugmyndin um faglega umfjöllun Hæstaréttar, tillögu dómsmálaráðherra, samþykki aukins meirihluta Alþingis og undirskrift forseta hljómar vel í mínum eyrum. 

Hreiðar Eiríksson, 27.8.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband