Þýska járnfrúin slær í gegn á kanslarastóli

Angela MerkelNú þegar að rétt um tvö ár eru liðin frá því að Angela Merkel varð kanslari Þýskalands fyrst kvenna og fyrst austur-þýskra stjórnmálamanna eftir sameiningu austurs og vesturs árið 1990 virðist hún vera með pálmann í höndunum. Hún nýtur mesta stuðnings sem kanslari hefur haft í embætti frá upphafi fylgismælinga og hægriblokkin stendur mjög vel undir hennar forystu í könnunum. Þegar að hún tók við kanslaraembætti í stóru samsteypu CDU og SPD voru ekki allir sem spáðu vel fyrir henni.

Staða Merkel er þó óumdeilanlega sterk nú þegar að seinni hluti kjörtímabilsins hefst. Merkel hefur tekið starfið föstum tökum og farið sínu fram, verið afgerandi og fumlaus í verkum. Er sennilega réttnefnd járnfrú eins og Margaret Thatcher var árum saman og erfir væntanlega þann hefðartitil hennar. Eins og flestir muna kom upp algjör pattstaða í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar í september 2005. Kristilegir urðu stærstir, vinstristjórnin féll en ekki myndaðist hreinn hægrimeirihluti kristilegra og frjálslyndra. Við tók löng stjórnarkreppa. Eina starfhæfa mynstrið í því erfiða pólitíska tafli var samstarf meginpólanna. Eftir vikulangar samningaviðræður tókst með þeim samstarf í nóvember 2005.

Gerhard Schröder barðist fyrir að halda kanslarastólnum, sem hann hafði þá setið í tæpan áratug eða frá falli hægriaflanna undir forystu Helmut Kohl árið 1998, en varð að gefa eftir að lokum fyrir kristilegum. Angela Merkel varð kanslari sem leiðtogi stærsta þingflokksins og Schröder yfirgaf hið pólitíska svið særður og ósáttur við endalokin og að hafa þurft að lúffa fyrir Merkel. Þau tókust harkalega á í þingkosningunum 2005 og barátta þeirra varð persónuleg og harðskeytt. Fyrirfram var öllum ljóst að ágreiningurinn var svo mikil að það þeirra sem tapaði kanslarabaráttunni gæti ekki sest með hátíðarbros á vör í stjórn hins. Það fór enda svo.

Stóra samsteypa - eða grosse koalition - sem nú er við völd er eins og fyrr segir auðvitað sögulegt stjórnarsamstarf í Þýskalandi. Þegar að samið var milli flokkanna um skiptingu valda og kanslaratign dr. Angelu Merkel hafði grosse koalition ekki setið við völd í Þýskalandi frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða 1966-1969. Eftir brotthvarf Schröders af pólitíska sviðinu sem pólitískrar prímadonnu kratanna hefur samstarfið gengið vel og virðist vel fara á með Merkel, Müntefering, varakanslara og fyrrum flokksleiðtoga kratanna, og Frank Walter Steinmeyer, sem varð utanríkisráðherra af hálfu kratanna í þessu stjórnarsamstarfi.

Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Merkel er kjarnakona í þýskri pólitík, oft nefnd vinnusami töffarinn. Hún komst til áhrifaembætta innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Það hefði fáum órað fyrir því er hún tók við að henni tekist að skáka hinum pólitískt langlífa og vinsæla læriföður sínum í fylgismælingum en sú er nú orðin raunin.

Staða Merkel er óneitanlega góð. Stóru samsteypu virðist ganga vel. Eftir brotthvarf Schröders hefur henni tekist að byggja sér góða pólitíska stöðu og drottna vel þar yfir á meðan að minni öflin og kratarnir eru svolítið vandræðaleg á hliðarlínunni vegna vinsælda hennar. Merkel svífur á góðum fylgismælingum og stefnir í kosningar á næstu tveim árum sem skera úr um pólitíska framtíð hennar. Meira að segja er hún nú farin að leita eftir pólitískri ráðgjöf læriföðurins Kohls, en upp á vinskap þeirra slettist í frægu hneykslismáli tengdu Kohl fyrir nokkrum árum.

Það verður mjög vel fylgst með því hvort þýsku járnfrúnni takist að ná endurkjöri á valdastóli með sama glans og pólitíska læriföðurnum tókst, sjálfum járnkanslaranum sem ríkti í gegnum súrt og sætt í heil sextán ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband