Ólöf tekur við varaformennsku í samgöngunefnd

Ólöf Nordal Ólöf Nordal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, hefur nú verið kjörin varaformaður samgöngunefndar í stað Einars Odds Kristjánssonar heitins. Það er gleðiefni fyrir okkur í kjördæminu að Ólöf fái varaformennsku í svo öflugri nefnd á þessum tímapunkti og gefur vel til kynna að hún njóti trausts til verka innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Eins og ég hef margoft sagt við Ólöfu síðustu vikur tel ég að hún megi vel við una, enda fékk hún eiginlega setu í þeim nefndum sem hún hafði mestan áhuga á að fá.

Það vekur mikla athygli að Árni Johnsen, alþingismaður, sem var formaður samgöngunefndar árin 1999-2001, áður en hann hrökklaðist af þingi vegna hneykslismála verði ekki varaformaður í stað Einars Odds. Er þetta mjög til merkis um veika stöðu hans innan þingflokksins. Ég held að það hafi veikt hann enn frekar að hjóla í Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með frekar áberandi hætti í orðavali í kjölfar ákvörðunar um að slá hugmyndir um göng milli lands og Eyja af.

Ólöf er að mínu mati mikil framtíðarkona í stjórnmálum. Ég þekkti hana ekki mikið áður en hún ákvað að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi síðasta vetur. Hún hafði þá samband við mig, vildi fá mig í innsta hóp sinn til ráðleggingar og svo fór að ég lagði henni mikla hjálparhönd í mörgum verkefnum þó að ekki hafi ég viljað taka að mér kosningastjórn fyrir hana eða slíkt. Það var mjög skemmtilegt samstarf og þá varð ég sannfærður um að það væri okkur hér nauðsynlegt að fá hana í forystusveit. Hún varð hinn stóri sigurvegari prófkjörsins.

Heilt yfir er ég stoltur af því að hafa lagt Ólöfu lið, stutt hana og talað máli hennar í því prófkjöri. Öll framganga hennar síðan hefur sýnt svo ekki verði um villst að hún á alla möguleika á að fara ofar á lista hér og taka við öflugum verkefnum innan Sjálfstæðisflokksins. Kjör hennar til varaformennsku í samgöngunefnd á þessum tímapunkti er því ánægjulegur áfangi og færir henni tækifæri til að vinna vel í þeim málaflokki sem skiptir okkur í raun mestu máli hér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég þekkti hana ekki heldur neitt fyrir síðustu kosningar, en hreifst strax að hennar skrifum og sýn á málefni. Ég hitti hana svo á landsfundinum (já Stebbi, ég náði að hitta suma) og leist vel á konuna og var sannfærð um að hún ætti eftir að gera góða hluti. Ég las viðtalið við hana nýlega þar sem hún talaði um að úti á landi skipti hver einstaklingu meira máli fyrir samfélagið og er ég 100% sammála því.

Til hamingju Ólöf.

Herdís Sigurjónsdóttir, 1.9.2007 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband