Mun vatnið standa í stjórnarflokkunum?

Ingibjörg Sólrún og Geir Hveitibrauðsdögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er að ljúka. Á morgun eru 100 dagar liðnir frá stjórnarskiptum. Mánuður er í að þing komi saman og fjörið hefjist aftur í pólitíkinni. Fróðlegt verður að sjá andrúmsloftið í þinginu á þessum fyrsta þingvetri nýrrar stjórnar. Eitt stóru málanna sem fylgst verður með eru vatnalögin, sem taka eiga gildi í nóvember. Um þau voru miklar deilur á þingi fyrir alþingiskosningar og voru stjórnarflokkarnir meginpólarnir í því máli.

Það er greinilegt að þetta stefnir í að verða átakamál að óbreyttu milli flokkanna. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur sagt uppstokkun laganna í burðarliðnum í ráðuneytinu og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þegar farnir að svara því vinnulagi fullum hálsi. Svo að þetta gæti hiklaust orðið mál sem gæti staðið í stjórninni. Það féllu mörg stór orð í umræðunum um vatnalögin, á maraþonfundum gengu þingmenn Samfylkingarinnar t.d. mjög langt og væntanlega munu þingmenn stjórnarandstöðunnar fara í sagnfræðilega upprifjun á þeim breyti iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar ekki kúrsinum.

Það hefur mjög einkennt hveitibrauðsdaga ríkisstjórnarinnar hversu allt tal þingmanna og ráðherra stjórnarflokkanna er laust í rásinni og skeiðað um víðan völl. Það leyfa allir sér að segja sitt og núningar hafa átt sér stað með áberandi hætti. Það blasir við öllum að um er að ræða mjög voldugan þingmeirihluta, einn þann stærsta í seinni tíma stjórnmálasögu landsins. Það er því ekki beint að búast við að þurfi sama járnaga á þingmenn þegar að svo horfir við líkt og var áður, t.d. í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áður þar sem nokkrir þingmenn Framsóknarflokks gátu sett mál í gíslingu með andstöðu sinni eða veikt meirihlutann allavega.

Mér finnst mjög áberandi í þessu máli hvað nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hvassir í garð iðnaðarráðherrans. Það er svosem varla undrunarefni. Lögin hafa verið sett og ekki langur tími í gildistöku þeirra. Flestir sjálfstæðismenn hafa litið svo á að þessi lög séu frágengin og ekki tilefni til uppstokkunar. Á það ber þó að minnast að ekki var samið um þetta mál í stjórnarsáttmála flokkanna og það því í lausu lofti. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, hefur talað mjög skynsamlega í þessu máli og tek ég undir skoðanir hans, er sammála þeim.

Heilt yfir tel ég að spennandi þingvetur sé framundan. Það verður áhugavert að sjá meginlínur milli nýrra fylkinga í stjórnmálunum skerpast. Fornir fjandvinir hafa hafið stjórnarsamstarf og sitja nú í stjórnarandstöðu. Það verður líflegt vonandi á þingi í vetur. Mér sýnist fyrst og fremst að stormurinn muni standa á Samfylkingunni. Það höfum við t.d. séð af upprifjunum framsóknarmanna á loforðum Samfylkingarinnar um ókeypis skólabækur til nemenda.

Báðir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir munu hjóla mest í Samfylkinguna á þessum vetri og því er skiljanlegt að iðnaðarráðherra renni til í rásinni örlítið vegna vatnalaganna - laganna sem hann hafði svo stór orð uppi gegn á sínum tíma.

mbl.is Segir Sjálfstæðisflokk varla standa að endurskoðun vatnalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki standa að endurskoðun vatnalaga - það væri fáránlegt.
Það kemur í ljós þegar þingið kemur saman úr hverju þessi stjórn er og hvort sf sé stjórntæk.

Óðinn Þórisson, 31.8.2007 kl. 19:37

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þú manst auðvitað þær umræður sem urðu um drögin að áliti ,,aulindanefndarinnar" á síðasta Landsfundi okkar.

ÞAr kom mjög berlega í ljós vilji meirihluta svona ,,venjulegra" Sjálfstæðirmanna í Auðlindamálum.

Á meðan ekki er kristaltært, að þjóðin fari með fullveldisrétt á ÖLLUM auðlindum landsins, svo sem vatn, hitaorku, fallvötn og vilta stofna lands og sjóvar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 3.9.2007 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband