Áratugur frá leiðarlokum prinsessu í París

Dodi al Fayed og Díana, prinsessa af Wales Í nótt verður liðinn áratugur frá því að Díana, prinsessa af Wales, og Dodi al-Fayed fórust í bílslysi í París. Réttu ári áður hafði prinsessan gengið frá lögskilnaði við Karl, erfðaprins bresku krúnunnar, og framundan blasti við nýtt líf. Hún var á heimleið úr sumarfríi við Miðjarðarhafið. Þangað höfðu ljósmyndarar elt Díönu og sögusagnir gengu um eðli sambands hennar við glaumgosann. Varla hafði myndavélablossinn slokknað við Miðjarðarhafið en leiðarlok litríkrar ævi prinsessunnar voru orðin staðreynd í sjálfri borg ástanna.

Þetta er að mörgu leyti ógleymanlegur tími. Leiðarlok prinsessunnar, ekki aðeins sjálfur ótímabær dauði hennar heldur og mun frekar eftirmálinn sjálfur, haustið 1997 var fréttaviðburður ársins og sennilega ef út í það er farið áratugarins að mjög mörgu leyti. Díana var mjög mikið í umfjöllun fjölmiðla og þeir áttu erfitt með að slíta þráðinn til hennar þó að hún væri ekki lengur væntanleg drottning Englands. Díana, prinsessa af Wales, lifði í kastljósi fjölmiðlanna í mjög langan tíma, allt til hinstu stundar á götum Parísar. Kaldhæðni örlaganna urðu að lokum þau að hún dó í myndavélablossa í París. Það var tragísk saga í meira lagi.

Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það sé orðinn áratugur síðan að Díana dó. Hún er að mörgu leyti svo lifandi enn í myndunum sem teknar voru af henni. Hún varð aldrei gömul, verður alltaf minnst sem ungu myndarlegu prinsessunnar sem hafði svo sterk áhrif á breska konungsveldið, bæði á meðan að hún lifði og ekki síður eftir að hún dó. Sennilega má fullyrða, og það með sanni eflaust, að vikan sem tók við eftir leiðarlokin sorglegu í París hafi haft meiri áhrif á breskt samfélag og stöðu krúnunnar í Bretlandi en öll þau sextán ár sem áður höfðu liðið, eða frá því að prinsessan giftist Karli í London. Dauði hennar skók veldi tengdamóður hennar og varð hennar erfiðasti tími á valdaferlinum.

Dauði Díönu varð svo mikill fjölmiðlahasar í sjálfu sér að sorg í einrúmi, sem flestir telja sjálfsagðan og eðlilegan hlut eftir að nákominn ættingi deyr í skelfilegu slysi, varð ekki valkostur. Þeir sem báru hinar þyngstu byrðar voru synir hennar, sem voru mjög ungir þegar að áfallið reið yfir; Vilhjálmur var 15 ára og Harry að verða 13 ára. Þeir náðu þó að bera þessar þungu byrðar aðdáunarlega vel og sérstaklega var Vilhjálmur sterkur þetta sumar. Hann hefur þó þurft að lifa síðan í sama fjölmiðlahasarnum og mamma hans var partur af allt til hinstu stundar. Þeir hafa lifað í blossa sömu frægðar, sem getur verið lýjandi og erfið er á hólminn kemur. Það er ekki allra að bera þær byrðar.

Ég gleymi aldrei þessum sólarhringi þegar að Díana dó. Fyrst heyrði ég fréttina síðla nætur. Þá var slysið orðið fréttaefni um allan heim en örlög prinsessunnar mjög óljós. Dodi al-Fayed var þá látinn. Mig minnir þó að ég hafi farið að sofa hafandi heyrt fréttir um að líðan hennar væri stöðug. Meiðsl hennar voru mun meiri en órað var fyrir fyrstu stundirnar eftir slysið. Hún lést um fjögurleytið um nóttina að mig minnir. Fréttin um dauða hennar um morguninn var sláandi og margir vildu ekki trúa henni, enda myndir af prinsessunni í ferðalaginu eftirminnilega við Miðjarðarhafið ljóslifandi og minning hennar er vissulega enn björt, enda dó hún svo ung.

Sess prinsessunnar í bresku samfélagi hafði verið umdeildur alla tíð á sextán ára ferli hennar sem lykilpersónu í framlínu umfjöllunar. Henni hafði þó tekist að halda sess sínum sem prinsessa eftir skilnaðinn árið 1996 við Karl en var ekki lengur konungleg hátign. Hafi einhver vafi leikið á konunglegum sess hennar var þeim vafa eytt dagana eftir leiðarlok hennar í París. Elísabet II. Englandsdrottning og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London. En það stöðvaði ekki skriðu almennings.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Fyrr á þessu ári hlaut Helen Mirren óskarinn fyrir að túlka með sannkölluðum bravúr Elísabetu II á þessum krossgötum; myndin lýsir eftirmála dauða Díönu í París. Þjóðin fylgdi ekki leiðsögn drottningar þessa septemberdaga. Með leiðbeiningum Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem í raun leiddi baráttu almennings fyrir því að sess Díönu yrði staðfestur af konungsfjölskyldunni, um að drottningin færi til London, mætti almenningi á götum borgarinnar og flytti sjónvarpsávarp í beinni útsendingu, bjargaði drottningin því sem bjargað varð. Með naumindum tókst drottningu að ná tökum á stöðunni.

Drottningin varð að víkja af leið sinni og votta prinsessunni hinstu virðingu sína í sögulegu ávarpi til bresku þjóðarinnar frá Buckingham-höll tæpum sólarhring fyrir útför hennar. Þessir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun en náði að snúa atburðarásinni við með að mæta þjóð í sorg. Mirren túlkar sálarástand drottningarinnar sem lenti í atburðarás sem sífellt varð verri og verri í The Queen og fer inn í innsta kjarna persónunnar. Og hún fékk svo sannarlega lof fyrir verk sitt.

Allir sem minnast septemberdaganna 1997 þegar að Díana, fjölmiðlaprinsessan, mest myndaða kona heims, var á líkbörunum, telja þá eftirminnilega hver á sinn hátt. Þetta voru sögulegir tímar. En það hefur margt breyst vissulega síðan, aðrir tímar - annað sjónarhorn á tilveruna. Sess prinsessunnar breytist í takt við að tíminn líður og minning hennar virkar misjafnlega á fólk um alla tíð. Heilt yfir finnst mér fólk hafa tekið þá afstöðu að hún eigi að fá að hvíla í friði. En sess hennar verður um alla tíð óumdeildur. Hún markaði spor.

mbl.is Díana er enn umdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband