Key Largo

Key LargoEin eftirminnilegasta kvikmynd fimmta áratugar síðustu aldar er kennd við Key Largo á Flórída. Það hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsmyndum. Ég rifjaði upp kynnin af henni í gærkvöldi. Það var viðeigandi að horfa á myndina í því leiðindaveðri sem er hérna fyrir norðan þessa dagana. Myndin gerist meðan að fellibylur gengur yfir og hávaðarok og það tónaði ágætlega við rokið hérna á Akureyri meðan að myndin var í tækinu. Kom merkilega vel út allavega... og myndin klikkar svo sannarlega aldrei.

Ég hef alltaf metið þessa mynd mikils og tel hana með þeim bestu sem komu frá leikstjóranum John Huston. Að mínu mati var John Huston einn af bestu leikstjórum 20. aldarinnar. Hann gerði á löngum ferli kvikmyndir á borð við The African Queen, The Misfits, The Asphalt Jungle, The Treasure of the Sierra Madre, Prizzi's Honor, Under the Volcano, The Man Who Would Be King, Casino Royale, og að ógleymdri hans allra bestu kvikmynd á ferlinum, The Maltese Falcon, sem jafnframt var frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóra.

Það verður að mínu mati enginn sannur kvikmyndaáhugamaður til fyrr en hann hefur séð Möltufálkann, sem er yndislegasta og áhugaverðasta film noir-mynd sem kvikmyndafíkill getur séð (fyrir utan Casablanca). Huston hlaut leikstjóraóskarinn einu sinni á sínum litríka leikstjóraferli en það var fyrir The Treasure of the Sierra Madre árið 1948, sem margir telja með hans besta en faðir hans Walter Huston fékk ennfremur óskarinn fyrir leik sinn í henni. Key Largo var gerð á milli helstu annanna við gerð The Treasure of the Sierra Madre á árinu 1948 og var ekki dýr í gerð, enda einföld í sniðum. En hún varð ein af eftirminnilegustu myndunum á ferli Hustons.

Í Key Largo segir frá Frank sem ákveður að lokinni herþjónustu sinni í seinni heimsstyrjöldinni að heimsækja James Temple, fatlaðan hóteleiganda á Key Largo, og tengdadóttur hans Noru. Hún er ekkja eins af þeim sem þjónuðu í hernum sem Frank var yfirmaður í. Hann telur sig verða að heimsækja þau og bera þeim kveðju sína. Hann lendir þó fljótt eftir komuna í ótrúlegri atburðarás. Mafíósinn Johnny Rocco, sem er á flótta undan yfirvöldum, sest að á hótelinu og tekur Frank, James og Noru í gíslingu. Með Rocco í för er t.d. kærasta hans Gaye Dawn. Framkoma Rocco og t.d. meðferð á kærustunni veldur því að Frank leggur til atlögu við mafíósann.

Í Key Largo fara hjónin Humphrey Bogart og Lauren Bacall á kostum í hlutverkum Franks og Noru. Þetta var þriðja myndin sem þau léku saman í. Hinar voru To Have and Have Not and The Big Sleep. Allar eru þessar myndir stórfenglegar og með bestu myndum síns tíma. Bogart var án nokkurs vafa einn af bestu leikurum 20. aldarinnar. Hann var enda jafnvígur á að leika harðjaxl með massívu yfirbragði og ekki síður með tilfinningu. Bogart er einn mesti töffarinn í kvikmyndasögunni. Persóna hans og túlkun voru með þeim hætti að hann var fæddur leiðtogi í leik. Neistinn á milli Bogart og Bacall eru með mikilvægustu töfrum þessara mynda.

Bogart og Bacall voru þó gríðarlega ólík, bæði sem leikarar og persónur. En smullu saman þrátt fyrir 25 ára aldursmun og voru gift í um einn og hálfan áratug. Bogart lést úr krabbameini árið 1957 en Bacall lifir enn, nú orðin 83 ára gömul og enn á fullu að leika. Edward G. Robinson er skemmtilega illkvittinn og ógeðfelldur sem mafíósinn Johnny Rocco. Þetta var ein af hans bestu myndum á löngum og litríkum ferli. Claire Trevor snertir streng í brjósti áhorfandans í hlutverki Gaye og túlkar brothætta konu með tilfinningar og brotið stolt. Trevor var stórfengleg í hlutverkinu og hlaut óskarinn fyrir leik sinn og það mjög verðskuldað.

Key Largo er allt í senn heillandi og spennandi - athygli áhorfandans helst allan tímann á atburðarásinni. Einn helsti aðall myndarinnar er hversu mikið veðrið leikur stóran þátt í henni. Fellibylurinn verður að táknmynd ólgunnar á hótelinu - það er skemmtilega sjarmerandi að sjá myndina einmitt í nettu rokveðri, með hvínandi vindinn hljómandi undir úti ekki síður en í myndinni - svona svipuðu og því sem var einmitt í gærkvöldi. Sakar allavega ekki upp á stemmninguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband