6.9.2007 | 00:55
Fjölmiðlavæn skoðanaskipti á stjórnarheimilinu
Það var mjög áhugavert að sjá Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lýsa sig ósammála ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um að kalla eina íslenska friðargæsluliðann heim frá Írak í Kastljósi í kvöld. Bætti hann um betur með því að segja að hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun sem utanríkisráðherra, en eins og flestir vita hefur hann gegnt því embætti. Þetta er merkileg yfirlýsing, enda sýnir hún skoðanamun leiðtoga stjórnarflokkanna í nokkuð áberandi máli að mínu mati.
Þarna kveður vægast sagt við nýjan tón. Það er orðið verulega langt síðan að leiðtogar stjórnarflokkanna hafa talað niður ákvarðanir hvors annars í fjölmiðlum og beint spjótum sínum að þeim beint í svörum við spurningum fjölmiðlamanna. Þetta gerði Ingibjörg Sólrún líka fannst mér með áberandi hætti er hún talaði um að of litlu hefði eiginlega verið varið til kosningabaráttunnar um öryggisráðssætið af hálfu utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, sem eru eins og flestir vita þeir Geir sjálfur og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri.
Ég held að það sé ekki orðum aukið að þetta veki mikla athygli, enda er um að ræða nokkuð nýmæli í samskiptum leiðtoga stjórnarflokka hérna heima sem blasir þarna við. Við sem fylgjumst með stjórnmálum vorum ekki beinlínis vön svona í löngu og farsælu samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í áratug. Þar voru ólíkar skoðanir gerðar samstíga á lokuðum fundum og niðurstaðan varð samhent ákvörðun beggja aðila, þó eflaust hefði eitthvað verið tekist á í lokuðum herbergjum bak við tjöldin. Svona áberandi skoðanamunur og afgerandi talsmáti leiðtoga stjórnarflokkanna um ágæti ákvarðana hvors annars vekur því auðvitað enn meiri athygli en ella vegna þess.
Þessi skoðanamunur hlýtur að kalla á spurningar um hversu sterk ríkisstjórnin sé í raun og veru - hvort að veglegur þingmeirihluti hennar verði einfaldlega ekki svo veglegur vegna átaka milli manna er á hólminn muni koma. Það hefur í sjálfu sér ekki reynt mikið á ríkisstjórnina á fyrstu 100 dögum hennar. Hún hefur siglt frekar lygnan sjó og ekki tekist á við mörg lykilmál í sjálfu sér. Mörgum finnst ákvörðun hafa verið tekin um samstarfið og mörg stór mál sett til hliðar og sú stefna tekin að reynt verði að snúa skoðanir saman síðar. Það vakti mikla athygli mína allavega í kvöld að heyra forsætisráðherrann tala um að samstarfið hefði gengið vel en menn ættu þó enn eftir að finna taktinn saman.
Eitt mál enn vekur athygli þar sem ólíkar skoðanir lykilráðherra ríkisstjórnarinnar koma fram með áberandi hætti. Það eru málefni krónunnar og hugsanleg upptaka Evru. Í kvöld sagðist forsætisráðherrann ekki finna fyrir þrýstingi í þeim efnum að Evran verði tekin upp og talaði máli krónunnar. Þrátt fyrir það hafði sjálfur viðskiptaráðherrann sagt það í fjölmiðlum fyrr um daginn að horfa yrði raunhæft á þessi mál og ekki yrði umflúið að tala um stöðu krónunnar. Klikkti hann út með því að tala um aðild að myntbandalagi Evrópu. Þetta eru ráðherrar í sömu stjórninni og þeir virðast ekki vera á sömu blaðsíðu hvað þá í sama kafla í þessu máli. Þessar ólíku skoðanir eru hróplega áberandi.
Um eitt eru menn þó áberandi sammála auðvitað. Það er að Grímseyjarferjumálið sé klúður. Allir vilja þá Lilju kveðið hafa nú, enda er klúðrið svo augljóst og áberandi að enginn leggur í að neita því. Forsætisráðherrann talaði hreint út um það í kvöld. Samt vill enginn taka ábyrgð á því og mörgum finnst óhugsandi að sú ábyrgð verði á endanum pólitísk. Persónulega finnst mér afleitt að það verði ekki gert upp almennilega og tel óhugsandi annað en að það verði gert að lokum. Þrátt fyrir allt vekur mikla athygli að samgönguráðherrann hefur enn ekki beðið skipaverkfræðinginn afsökunar á að hafa lýst því yfir í bríaríi að hann vilji að hann tæki skellinn. Kristján er á hröðum flótta undan því blaðri.
Ég held miðað við yfirlýsingar frá stjórnarheimilinu á þessum haustdögum að við séum að horfa fram á líflegan þingvetur. Það eru nokkrar vikur í þingsetningu og fjörið virðist vera hafið á fullum hraða. Það sem vekur þó mesta athygli er að stjórnarandstæðingar geta slappað af - eins og fólk leggst upp í lazy boy-stólinn til að horfa á sjónvarpið - og horft á stjórnarsinna, og það meira að segja sjálfa ráðherra ríkisstjórnarinnar, tala gegn hvor öðrum á prime sjónvarpstíma. Ætli að ólgan verði mest milli stjórnarsinnanna á þessum vetri?
Geir: Hefði ekki kallað starfsmanninn heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 13:28 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta vekur nú vægast sagt athygli og fyrir mína parta fannst mér sérkennilegt að hlýða á orð forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins þess efnis að vald utanríkisráðherra sé að virðist alvald.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 6.9.2007 kl. 01:01
Mér fannst nú Geir einmitt komast vel frá því að fjalla efnislega um fljótfærni ISG.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2007 kl. 01:43
Hvað er nýtt í þessu???
Stjórnarathafnir voru ,,í beinni" þegar Kratar voru síðast í ríkisstjórn og aðalástæða þess, að Davíð gafst uppá honum Jóni Baldna, var einmitt þessi tilhneiging þeirra Krata, að leka öllu og blaðra út í eitt í fjölmiðlum.
Það er síður skaðlegt fyrir stjórnmálamann, að baða sig í Sólskini en skini Fjölmiðla.
Eimns og þú veist svosem fullvel, býst undirritaður ekki við neinu góðu úr stjórnarsamstarfi okkar við Samfó.
Hefði frekar viljað VG
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 6.9.2007 kl. 10:20
Ég heyrði þetta viðtal og skynjaði ekki endilega að forsætisráðherrann væri ósáttur við þessa ákvörðun Ingibjargar þótt hann sjálfur hefði ekki gert eins væri hann í þeirri stöðu.
Hins vegar var áhugavert að heyra hvernig fjölmiðlarnir drekktu sér í þessu svari og fyrir þann sem ekki hlustaði á viðtalið við Geir hefði mátt halda að verulegur ágreiningur væri milli ráðherranna um þessa ákvarðanatöku ISG
Kolbrún Baldursdóttir, 6.9.2007 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.