Mun Fred Thompson feta í fótspor Reagans?

Fred Thompson Seint og um síðir, en engum að óvörum, hefur Fred Thompson, fyrrum öldungadeildarþingmaður frá Tennessee, nú loksins lýst yfir framboði sínu til embættis forseta Bandaríkjanna. Hann gerði það með sannkölluðum Hollywood-brag í kvöldþætti Jay Leno, með sama stíl og Arnold Schwarzenegger lýsti yfir ríkisstjóraframboðinu í Kaliforníu fyrir fjórum árum. Thompson er þekktastur fyrir leikferil sinn og við hæfi að tilkynningin um framboðið komi með showbiz-brag að vissu marki eftir allar sögusagnirnar og vangavelturnar um forsetaframboðið sem hefur staðið mánuðum saman.

Mér líst mjög vel á það að Thompson gefi kost á sér. Ég held að það sé mun opnari barátta um útnefninguna framundan hjá Repúblikanaflokknum fyrir þessar forsetakosningar en Demókrataflokknum, þar sem flest bendir nú til að Hillary Rodham Clinton, fyrrum samstarfsmaður Thompsons í öldungadeildinni, fái jafnvel allt að því krýningu. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, getur ekki gefið kost á sér til endurkjörs og Dick Cheney, varaforseti, fer ekki fram, svo að staðan er galopin hjá repúblikunum og gott að vænlegum valkostum fjölgi. Það blasir við að baráttan muni standi á milli Thompson, Mitt Romney og Rudy Giuliani. John McCain virðist heillum horfinn.

Það eru að verða þrír áratugir liðnir frá því að Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna, tæplega sjötugur að aldri, elstur til þessa. Að baki átti Reagan leikferil og hafði verið í kjörnu pólitísku embætti áður sem ríkisstjóri í Kaliforníu. Reagan var þó aldrei talinn úrvalsleikari og myndir hans þóttu misjafnar. Það verður allavega seint sagt um Reagan að hann hafi verið einn stórleikaranna í bransanum. Það verður sennilega hið sama sagt um Thompson. Hann var aldrei aðalleikari en þess þá frekar sem trausti maðurinn inni í misjafnlega sterkum myndum, sumum þeirra stórmyndum og lék jafnan mann sem þurfti að horfast í augu við stórt verkefni sem takast þurfti á við án hiks.

Gott dæmi um þetta eru tvenn hlutverk Thompsons; flugumferðarstjórans staðfasta í Die Hard 2 og starfsmannastjóra Hvíta hússins sem horfist í augu við þann veruleika að geðsjúkur maður er með vinnuveitanda hans, sjálfan forsetann, í sigtinu í In the Line of Fire. Fred Thompson hefur oft sagt að hann hafi endað sem leikari tilviljana vegna. Hann hafi aldrei ætlað sér það hlutskipti. Enda varð Thompson ekki leikari fyrr en á seinni hluta níunda áratugarins og hafði fram að því verið lögmaður og vakti til dæmis athygli í lagateyminu í Watergate-málinu á áttunda áratugnum, sem varð pólitískur banabiti Richards Nixons, sem neyddist til að segja af sér forsetaembættinu eftir mikil átök við þing og hæstarétt.

Thompson hefur reyndar leikið forseta, allavega tvisvar að mig minnir. Hann lék Grant, 18. forsetann, í sjónvarpsmyndinni Bury My Heart at Wounded Knee nýlega og í annarri mynd fyrir nokkrum árum líka, man þó ekki nafnið á henni í svipinn. Thompson hefur oft leikið lögreglumann, saksóknara eða þingmann - sem átti vel við, bæði áður og eftir að hann sat í öldungadeildinni. Hann hefur verið bæði í gamanmyndum og dramatískum myndum með spennuívafi. Fyrrnefndar tvær myndir standa þar eflaust fremst en hann var líka í Feds, endurgerð Born Yesterday, Cape Fear, Class Action og Days of Thunder. Svo lék hann í nokkrum þáttum af Sex and the City, ekki amalegur ferill fyrir forsetaefni.

Fred Thompson sóttist eftir sæti í öldungadeildinni í Tennessee í kjölfar þess að Al Gore varð varaforseti árið 1992. Kosið var um sæti Gore árið 1994 til tveggja ára, til að klára kjörtímabil hans. Thompson vann frambjóðanda demókrata með allavega 20% mun og náði þar með sæti af demókrötum. Hann lék það eftir í kosningunum 1996 er hann sóttist eftir eigin sex ára tímabili. Thompson tilkynnti strax í upphafi að hann myndi aðeins fara fram tvisvar og stóð við það loforð með því að hætta í öldungadeildinni í ársbyrjun 2003, eftir átta ára þingmennsku.

Thompson tókst að ná kjöri í fylki sem Clinton hafði unnið nokkuð afgerandi bæði í forsetakosningunum 1992 og 1996 og var sögulega tengt demókrötum vegna þess að Gore var þaðan. Hann átti stóran þátt í sigri George W. Bush í Tennessee árið 2000. Sá sigur varð sögulegur og mjög áberandi, enda hefði Al Gore orðið forseti Bandaríkjanna ef honum hefði tekist að sigra í heimafylkinu sínu. Þá hefði Flórída aldrei skipt máli fyrir Gore. Kaldhæðnislegt og sennilega var tapið þar mun sárara fyrir Gore en að ná ekki að hafa sigur í sólskinsfylkinu Flórída.

Thompson hóf aftur leik þegar að hann hætti í öldungadeildinni. Það vakti athygli að hann hóf leik í sjónvarpsþáttaröðinni Law and Order árið 2002, nokkrum mánuðum áður en kjörtímabili hans lauk formlega. Með því varð hann fyrsti þingmaður Bandaríkjanna sem starfaði við leik samhliða þingmennskunni. Hann var í leikarahópi Law and Order í fimm ár, í hlutverki saksóknarans Branch. Law and Order hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsþáttum og það var eftirsjá af Thompson úr leikaraliðinu fyrr á árinu er hann hóf undirbúning forsetaframboðsins.

Það munu margir fagna forsetaframboði Thompsons. Það hefur vantað afgerandi fulltrúa íhaldsmanna til framboðs í bandarísku forsetakosningunum og hann fyllir visst tómarúm sem þótti áberandi meðal frambjóðenda repúblikana. Hann kemur með ekki síðri stjörnuljóma í framboðið og Rudy Giuliani og getur höfðað til breiðs hóps landsmanna ef hann heldur rétt á spilunum. Beðið hefur verið lengi eftir framboðinu og ljóst að viss eftirvænting hefur verið eftir því hvaða tóna hann muni leggja með forsetaframboði sínu.

Það verður sérstaklega horft til þess hvernig að Thompson muni leggja framboðið upp hvað varðar tengsl við Bush forseta. Eins og flestum er í fersku minni hélt Thompson utan um útnefningaferli John Roberts og Samuel Alito sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna og dómara við réttinn á nokkurra mánaða skeiði 2005-2006 er sæti Williams Rehnquists og Söndru Day O´Connor losnuðu og þótti þar koma vel fram hversu vel Bush forseti treystir honum. Það verður því fylgst með því hvort að forsetinni leiki hlutverk í framboðinu.

Fyrst og fremst er með framboði Thompsons tryggt að enn meiri fjör verður í útnefningaslag repúblikana um það hver verði fulltrúi flokksins í kosningunum sem marka endalok stjórnmálaferils George W. Bush. Vegna óvinsælda forsetans verður fylgst með afstöðu frambjóðendanna til forsetans og verka hans og verður þar væntanlega helst litið til Thompsons, sem sterks frambjóðanda úr suðurríkjunum og með tengsl í þau svæði sem helst hafa markað lykilstöðu Bush í stjórnmálum.

Það stefnir í spennandi forsetakosningar að ári. Flestir eru komnir á fullt fyrir löngu og sumir verið í framboði í um eitt ár. Það er til marks um djörfung og kraft Thompsons að leggja í baráttuna svo seint og verður sérstaklega áhugavert að sjá hvort að repúblikanar ákveði að velja leikara til að leiða baráttuna um Hvíta húsið af þeirra hálfu, rétt eins og fyrir þrem áratugum þegar að annar lífsreyndur leikari náði að vinna sinn eftirminnilegasta og raunverulegasta leiksigur á ferlinum.

mbl.is Thompson tilkynnir framboð sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ronald Reagan hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum. Fyrir honum hef ég alltaf borið mikla virðingu. Hann var hinsvegar ekki góður leikari. Það er bara þannig. Hann vann sinn stærsta sigur í lífinu á forsetastóli. Hinsvegar var það eitt stórt hlutverk í raun og veru. Færni hans sem leikara kom þar best til skila og sérstaklega í ræðustíl hans. Ég er því að tala vel um Reagan og hans feril, enda er öllum ljóst að hann er einn af vinsælustu og virtustu forsetum Bandaríkjanna undanfarna áratugi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.9.2007 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband