Luciano Pavarotti kvaddur í Modena

Luciano Pavarotti (1935-2007)Meistari Luciano Pavarotti var jarðsunginn í dómkirkjunni í Modena í dag. Horfði ég á útför hans í beinni á CNN eftir hádegið. Þetta var mjög falleg athöfn - tónlist lék þar lykilhlutverk eins og við má búast þegar að einn fremsti söngvari tónlistarsögunnar og óperulistarinnar er kvaddur hinsta sinni. Þetta var umfram allt þjóðarútför, enda var Luciano Pavarotti einn af dáðustu sonum Ítalíu og hann var svo sannarlega kvaddur með virðingu af landsmönnum og íbúum heimabæjarins sérstaklega.

Falleg tónlist situr svo sannarlega eftir í minningunni eftir þessa athöfn. Andrea Bocelli söng hið undurljúfa Ave Verum Corpus með glæsibrag og leikin var þriggja áratuga gömul upptaka með söng feðganna Fernando og Luciano Pavarotti á hinu notalega lagi Panis Angelicus, sem kallaði á mikla gleði viðstaddra og var klappað mjög lengi í kjölfarið. Það var sennilega ein eftirminnilegasta stund athafnarinnar, rétt eins og þegar að hin búlgarska sópransöngkona Raina Kabaivanska, samstarfsmaður Pavarottis og vinkona hans um langt skeið, söng undurljúft við byrjun athafnarinnar (og með tárin í augunum) Ave Maria úr Óþelló eftir Giuseppe Verdi.

Undir lok athafnarinnar var eitt þekktasta lag Luciano Pavarotti, Nessun Dorma úr Turandot eftir Giacomo Puccini, sem verður um alla tíð talið helsta einkennislag hans á litríkum tónlistarferli, leikið í flutningi meistarans sjálfs, er kista hans var borin úr kirkju. Þegar að hann kom fram í síðasta skipti opinberlega, eftir 45 ára söngferil, við setningu vetrarólympíuleikanna í Tórínó fyrir einu og hálfu ári söng hann Nessun Dorma. Það var ótrúlega sterkur flutningur miðað við að heilsu hans væri tekið að halla og hann kallaði þá sem ávallt áður fram sterkar tilfinningar hlustenda. Persónulega finnst mér besta túlkun hans á Nessun Dorma vera á tónleikum tenóranna þriggja í Róm árið 1990 og í París árið 1998, þó sennilega standi fyrri túlkunin þar upp úr.

Luciano Pavarotti
Það var táknrænt að sjá þegar að Luciano Pavarotti var hylltur við lok útfararinnar er ítalski flugherinn flaug yfir dómkirkjuna í Modena í virðingarskyni við söngvarann fallna, einn fremsta tónlistarmann í sögu Ítalíu, og fjölskyldu hans, og kallaði fram ítölsku fánalitina á himninum. Falleg sjón og myndræn hinsta kveðja frá ítölsku þjóðinni til söngvarans.

Það hefur sést á síðustu dögum hversu sterkan sess Luciano Pavarotti hafði, ekki bara á Ítalíu heldur um allan heim. Hann var alþjóðlegur söngvari sem hreif fólk með sér og hans er minnst sem eins hinna bestu sem hafa staðið á óperusviðinu og munu gera það á næstu áratugum og öldum.

Blessuð sé minning þessa mikla meistara.

Umfjöllun um Luciano Pavarotti - 060907 


mbl.is Þúsundir syrgja Pavarotti í Modena
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Blómið

Falleg útför fyrir frábæran tenór

Blómið, 8.9.2007 kl. 21:10

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þegar ég dey... vill ég að þú skrifir minningargreinina mína

Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.9.2007 kl. 21:18

3 Smámynd: Linda

Dásamleg grein um fallinn meistara, hans verður saknað, enn við höfum þó músíkina ennþá sem ég mun njóta eins lengi og ég lifi, þakka þér fyrir Pavarotti, rödd þín hrekur burt sorgir lífsins.

Linda, 9.9.2007 kl. 03:13

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð orð. Það er gott að vita að þú sért ánægður með skrifin Gunnar. Þegar að maður metur verk einhvers mikils og persónuna ennfremur er viðbúið að maður skrifi af tilfinningu. Það geri ég svo sannarlega um Luciano Pavarotti. Hann var einstakur.

Takk fyrir notaleg orð Linda. Pavarotti var sannkallaður meistari tenóranna, sá besti að mínu mati. Ánægjulegt að þú naust greinaskrifanna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.9.2007 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband