Lúðvík orðinn Hermannsson

Lúðvík HermannssonSamkvæmt fréttum hefur nú verið staðfest formlega með lögformlegum leiðum að Lúðvík Gizurarson, lögmaður, sé sonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Það var varla við öðru að búast eftir nýlega DNA-rannsókn sem staðfesti endanlega grun Lúðvíks um faðerni hans. Það er vonandi að hægt verði að yfirstíga ólgu þessa máls, en Lúðvík þurfti að eiga í málaferlum við hálfsystkini sín, Steingrím og Pálínu, til að fá hið sanna fram.

Það hlýtur að teljast eðlilegt að fólk vilji leita uppruna síns og fá hið sanna fram. Persónulega myndi ég vilja hið sama léki einhver vafi á uppruna mínum og ég teldi að eitthvað stæði þar eftir sem ég vildi kanna frekar. Þannig að ákvörðun Lúðvíks er skiljanleg. Þetta gerist vissulega þó mjög seint í þessu máli, en allir aðilar málsins eru annaðhvort látnir eða komnir yfir sjötugt.

Það sem hefur virst erfiðast fyrir Steingrím Hermannsson að viðurkenna er að faðir hans hafi eignast barn meðan að hann var giftur móður hans. Það virðist vera stoltið og heiðurinn sem staðið er vörð um frekar en almenna skynsemi. Greinilegt er þó að Steingrímur ætlar ekki að hafa samskipti við hálfbróður sinn ef marka má ummæli hans um málið í Kastljósi um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er það, - það eru frum-mannréttindi að vita um uppruna sinn.

Sýnum aðilum þessa máls skilning , virðum tilfinningar þeirra allra og setjum okkur í spor þeirra. 

Ég kynntist Hermanni Jónassyni á sínum tíma og met hann alveg jafn mikils eftir sem áður, - hann var mannlegur eins og við öll.

Ég hef Steingrím Hermannsson í ákaflega miklum metum og þetta mál breytir engu um það.  

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Meðal annars þess vegna skulum við orða hlutina eins vel og við getum. Það er ekki alveg það sama að vera sysktin og hálfsystkin. 

Steingrímur og Pála eru hálfsystkin Lúðvíks, - ekki satt?

Ég þekki til þar sem um hálfsyskin er að ræða en þau nota samt orðin systir og bróðir hvert um annað.

Það er úr vöndu að ráða fyrir utanaðkomandi hvaða orðalag á að nota. Í textanum hér fyrir ofan hefði ég notað orðin hálfsystkin og hálfbróður til þess að fara tæknilega rétt með.  

Ómar Ragnarsson, 25.9.2007 kl. 13:13

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér kærlega fyrir kommentið. Þetta eru mjög góðar hugleiðingar hjá þér og ég er sammála þeim. Það er auðvitað mikið áfall að upplifa það að hlutirnir eru öðruvísi en alltaf hefur verið talið og ég skil að þau Hermann og Pálína hafi viljað standa vörð um heiður föður síns. Það er eðlilegt.

Steingrímur Hermannsson er að mínu mati einn frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar, stjórnmálamaður níunda áratugarins án vafa, og ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir honum, þó ekki hafi ég alltaf verið sammála honum. Hann var mannlegur og virðulegur stjórnmálamaður.

En ég ætla að breyta greininni og tala um hálfsystkin og hálfbróður. Það er sanngjarnt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.9.2007 kl. 13:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta má er svolítið vandræðalegt. Ekki er nýmæli að mál sé rekið til staðfestingar á faðerni en þetta var svolítið bratt. Fáir held ég að muni láta þessar upplýsingar breyta áliti á Hermanni Jónassyni sem var umdeildur en viðurkenndur sem stórbrotinn stjórnmálamaður. Mér komu á óvart hin hörðu viðbrögð systkinanna og held að þau hafi verið vanhugsuð. Vegna þessara viðbragða hlaut málið meiri athygli og tók með sér virðingarlitla umræðu þjóðarinnar svo sem ævinlega verður í slíkum málum.

Þetta var klaufalegt og ekki samboðið minningu Hermanns Jónassonar. 

Árni Gunnarsson, 25.9.2007 kl. 15:46

4 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Systkin, hálfsystkin, stjúpsystkin, fóstursystkin, frændsystkin, bræður og systur.

Hverju breytir það? 

Þessi viðbrögð Hermannsbarna eru ekki samboðin sannkristnu fólki. Ég skil vel særindi þeirra, það getur vissulega verið auðmýkjandi að sjá það borðliggjandi að móðir eða föður manns hafi svikið hitt í tryggðum, en að bregðast við með afneitun og meina annarri manneskju að leita uppruna síns, manneskju sem enga sök ber af framhjáhaldinu.  Nei, hinn mikli mæti lansdföður Steingrímur Hermannsson, ætti að taka í hönd hálfbróður síns og bjóða hann velkominn í fjölskylduna.

Sennilega er ég ekki nógu merkileg til að vera taka mig og mína hátíðlega.

En nógu merkileg samt til að láta ekki syndir feðranna, koma niður á afkomendum þeirra. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 25.9.2007 kl. 19:24

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin Árni og Ingibjörg.

Tek undir með þér Ingibjörg sérstaklega. Ég á eina hálfsystur, sem faðir minn átti eftir að hann skildi við mömmu fyrir meira en tveim áratugum. Hún fæddist árið 1989 og er tólf árum yngri. Ég geri engan greinarmun á henni og öðrum systkinum. Hún er systir mín. Punktur, basta. Einfalt mál. Við erum líka það lík og eigum vel saman að annað á ekki við í mínum bókum. Ég er kominn af föður mínum og í mínum huga erum við öll systkinin eitt, sama hvort það eru við systkinin úr hjónabandi foreldra minna eður ei.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.9.2007 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband