Ellý kveður þjóðina með kossi

Ellý Ármanns Ellý Ármanns kvaddi þjóðina með kossi á laugardagskvöldið í Sjónvarpinu, en hún kvaddi okkur á Moggablogginu ekki svo innilega, öðru nær. Þar var bara sett í lás mjög snögglega og engin rósrauð kveðja í sjálfu sér. Ellý er ekki lengur á þularvakt eftir sjö ára störf hjá Sjónvarpinu. Það er kannski óhætt að segja að Ellý hafi verið umdeild að undanförnu, ekki þó bara sem þula heldur bloggari.

Mér skilst að Ellý sé farin að vinna fyrir Moggann og hafi þurft að fórna þuludjobbinu fyrir það. Hún á víst að stjórna vef þar, sem muni fókusera fyrst og fremst á rauðu málin og líf ríka og fræga fólksins - sennilega svona Séð og heyrt netsins ábyggilega. Hef þó ekki fengið sterka lýsingu á vefnum en hann á víst að opna fljótlega. Hún hlýtur að ná athygli í gegnum það, enda þekkt fyrir mikið lesin skrif og umdeild.

Rósrauðar sögur Ellýjar um ástina, klám, kynlíf og allt þar á milli vöktu sannarlega athygli og umtal. Þessi vefsíða hennar stuðaði mig aldrei neitt sérstaklega. Leit þó stundum þar inn, enda er hún bloggvinkona mín. Sögurnar hennar Ellýjar hafa vissulega verið mjög misjafnar og vakið athygli fyrir að ganga ansi langt. Það var drjúgur lesendahópur sem sótti í þessi skrif og fannst gaman af þeim, meðan að öðrum fannst notalegt að pirra sig yfir þeim en gat þó ekki hætt að fylgjast með þeim, sem segir eflaust meira um aðdráttaraflið á síðuna frekar en margt annað í raun.

Það verður áhugavert að sjá hvort að Ellý ætlar að hafa lás á síðunni eftir að hún verður orðin starfsmaður í yfirstjórn Moggabloggsins og hvort þetta sé hin nýja stefna hennar þrátt fyrir það að vera komin á þá skútu. En kannski vill hún hafa það þannig að þeir sem raunverulega vilji rauðu sögurnar verði að sækja sér passa í rauðu veröldina. Má vera. Það sést þá sennilega best hverjir virkilega vilja lesa rósrauðar sögur með erótísku ívafi á borð við þær sem Ellý hefur orðið svo fræg fyrir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband