Er Madeleine McCann á lífi og stödd í Marókkó?

Er þetta Madeleine McCann? Það er ekki hægt að segja annað en að myndin sem talin er af Madeleine McCann sé frétt dagsins. Ef satt er að þar sé stelpan sem týnd hefur verið í 150 daga og talin hafa látist af völdum foreldra sinna er það svo öflug staðreynd að málið tengt hvarfi hennar fer algjörlega í nýjar áttir og órafjarlægð frá öllu því sem lögreglan í Portúgal hefur unnið síðustu vikur til að reyna að beina gruni í áttina að Kate og Gerry McCann.

Þessi mynd sýnir stelpu sem er sláandi lík Madeleine McCann, hið minnsta og er fregn af því tagi að kanna verður betur. Tveir sjónarvottar telja sig hafa séð Madeleine í Marokkó og málið hlýtur að taka á sig nýja mynd samhliða þessu. Það er orðið vel ljóst að mál portúgölsku lögreglunnar gegn McCann-hjónunum er mjög á sandi reist og virðist ekki geta haldið fyrir dómi. Enda hefur runnið mjög undan fréttaflutningi um það sem þar kemur fram og margir hafa lagt hjónunum lið í baráttunni, meðal annars auðmenn sem telja mikilvægt að standa við hlið þeirra í baráttunni sem horfir við.

Öllum er ljóst að portúgalska lögreglan klúðraði rannsókninni strax á frumstigi. Það er ekki óvarlegt að hún sé að leita að blóraböggli til að geta lokað málinu. Sé einhver sannleiksvottur í því að þessi ljósmynd sé af Madeleine verður áfellisdómurinn þungur yfir yfirvöldum í Portúgal. Það er öllum ljóst. Því má ekki heldur gleyma að orðrómur var um það fyrir nokkrum vikum að vitni hefðu séð Madeleine McCann í Marokkó. Þannig að þetta gæti verið púsl í stórri heildarmynd sem gæti leitt menn á nýjar slóðir og vonandi leyst þetta mál.

Heilt á litið virðist þessi myndbirting geta stutt Kate og Gerry McCann. Það er auðvitað alveg ljóst að ef þessi mynd er sönn og sú sem á myndinni er sú sem talið er boðar það þau stórtíðindi að Kate og Gerry McCann séu saklaus af ásökunum og málið fari auðvitað aftur á þann reit að leitað sé að lifandi barni en ekki líki eða leitað að þeim sem eiga að hafa ráðið henni bana. Það er reyndar mjög óvarlegt miðað við sönnunargögn Portúgalanna að loka málinu, það eru of margir óvissuþættir.

Fyrst og fremst er vonandi að ráðgátan um hvarf og afdrif Madeleine McCann leysist. Þessi ljósmynd er stórt innlegg í málið og sýnir vel að því er hvergi nærri lokið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vona svo sannarlega að þetta sé hún, og að málið fái fljótlega farsæla lausn. En mikið rosalega finnst mér þá skrítið af mannræningjunum, að vera með stelpuna svona sjáanlega í öllu þessu fjölmiðlafári sem umkringt hefur málið. Og sérstaklega vegna þess að á þessum tíma hafði norsk kona sagst hafa séð Madeleine í Marokkó (er það ekki annars?) í maí og svo hafi komið fram annað vitni, sem greint var frá í fjölmiðlum í gær eða fyrradag, sem hafi séð stelpuna í Marokkó á svipuðum tíma. Ef þetta stenst allt, þá þakka ég öllu góðu fyrir það hversu óvarlega mannræningjarnir hafa farið.

Það er vonandi að endurfundir McCann fjölskyldunnar fái að líta dagsins ljós. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 00:43

2 Smámynd: Kej

Maður veit varla hvor endirinn væri verri, ef barninu hefur verið rænt með öllum þeim hryllingi sem barnsráni getur fylgt eða ef foreldrar hafa óviljandi ráðið henni bana. Því miður eru líkurnar á að hún finnist heil á húfi ekki þeim í hag en mikið væri það nú samt góður endir. 

Kej, 26.9.2007 kl. 06:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband