30.9.2007 | 23:04
3:10 to Yuma

En það er langt síðan að Wayne kvaddi og hin sterka staða vestranna í og með líka. Frá því að Clint Eastwood gerði Unforgiven, sem hlaut óskarinn fyrir mynd og leikstjórn fyrst vestra í áratugi, fyrir fimmtán árum hefur engin alvöru stórmynd komið til sögunnar af þessu tagi. Vissulega hafa verið gerðir vestrar á því tímabili sem síðan er liðið, en enginn þeirra hefur fangað stemmninguna og verið þessi stórmynd sem margir gömlu vestranna voru.
Þeir sem minnast meistaraverka á borð við The Searchers, Shane, The Wild Bunch, The Magnificent Seven, Rio Bravo, Red River, Stagecoach og High Noon hafa eflaust beðið mjög lengi eftir sterkri endurkomu vestranna og saknað hinna gömlu góða daga. Við hin yngri sem upplifðum því miður ekki að sjá hinn gullna meistara vestranna, John Wayne, í miðjum hasarnum í svarthvítu eða lit á hvíta tjaldinu í bíó höfum þó getað leitað eftir þeim minningum á DVD og upplifað sanna ævintýraheima. Vestrararnir hafa alla tíð heillað mig mjög og ég hef verið mikill aðdáandi þessa kvikmyndaforms og tel fyrrnefndar eðalmyndir með þeim bestu á síðustu öld.
Það er ekki fjarri lagi að maður sé sannfærður um að gullaldardagar vestranna séu hafnir að nýju þegar að horft er á endurgerð kvikmyndarinnar 3:10 to Yuma. Hálf öld er liðin frá því að fyrirmyndin var gerð en þar fóru Van Heflin, Glenn Ford og Felicia Farr (eiginkona Jack Lemmon) á kostum einn besti vestri sjötta áratugarins, með mjög sterkum siðferðislegum undirtón baráttunnar á milli góðs og hins illa og skotheldur í orðsins fyllstu merkingu. Handrit Elmore Leonard er gríðarlega traust og einn besti grunnur hennar, fyrr og nú. Í endurgerðinni er haldið mjög fast utan um sterkustu þætti gömlu myndarinnar og bætt við svo um munar.
Tólf árum eftir að Russell Crowe lék í The Quick and the Dead er hann aftur kominn í villta vestrið, en nú við stjórnvölinn. Crowe fetar í fótspor Glenn Ford og glæðir persónu Ben Wade, hins vægðarlausa útlaga sem er handtekinn í smábæ og reynir allt til að forðast að mæta örlögunum í Yuma, nýju lífi. Hann er auðvitað hressilega siðspilltur og kaldur algjörlega inn að sálarrót og túlkar þau karaktereinkenni með sannkölluðum bravúr. Ford var kaldur í gamla daga í þessari rullu en Crowe er enn betri. Þetta er besta mynd Crowe í áraraðir, að mínu mati frá A Beautiful Mind, en það var auðvitað skandall að hann fékk ekki óskarinn fyrir að leika John Nash.
Christian Bale er einn af bestu leikurum sinnar kynslóðar og sannar það enn og aftur hér í hlutverki bóndans örvæntingarfulla og lífsreynda, sem hefur ör á sálinni eftir þrælastríðið og stritar til að ala önn fyrir fjölskylduna, og á að fylgja Wade á vit réttvísinnar. Wade veit hverjir veikustu punktar Dan Evans eru og lætur fimlega til skarar skríða til að bjarga eigin skinni. Samleikur Crowe og Bale er auðvitað stórfenglegur. Báðir eru í toppformi en Crowe er betri þennan daginn. Bale er fantagóður og gerir rulluna hans Van Heflin einfaldlega að sinni og tekst virkilega vel upp. Samleikur hans og Lerman sem sonarins er mjög góður.
Það eru að verða fjórir áratugir frá því að Peter Fonda var töffarinn á mótorhjólinu í klassamyndinni Easy Rider á blómatímabilinu, sem er besta mynd ferils hans og ein tímamótamyndanna í kvikmyndasögunni. Hann á hér glæsilega endurkomu á hvíta tjaldið, áratug eftir að hann reif sig upp úr lægðinni miklu og var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir meistaratúlkun í Ulee´s Gold. Fonda er senuþjófurinn og á frábæra stund í hlutverki mannaveiðarans Byrons, sem er á höttunum eftir Wade. Fonda er sannarlega ekki ókunnur vestrunum, en hann leikstýrði einum slíkum í denn, kvikmyndinni The Hired Hand árið 1971.
Ben Foster lífgar upp á heildarmyndina og er leiftrandi góður í hlutverki lykilmanns Wade. Hinn fimmtán ára gamli Logan Lerman fær sannarlega eldskírn sína á hvíta tjaldinu í hlutverki bóndasonarins Williams og er virkilega góður. Lerman er einn af efnilegustu ungu leikurunum í dag að mínu mati og sýnir hvað hann getur með frábærri túlkun sinni. Það verður sannarlega áhugavert að fylgjast með Lerman á næstu árum, en hann hefur áður gert það gott í myndum á borð við The Butterfly Effect og The Patriot. Varla er við öðru að búast en að þessi unga stjarna eigi að blómstra enn á næstunni, miðað við leikinn í þessari mynd.
3:10 to Yuma er auðvitað mjög sterk mynd með siðferðislegan undirtón. Þetta er hiklaust besta mynd leikstjórans James Mangold sem sannar hér enn einu sinni að hann er með þeim bestu af yngri kynslóðinni í bransanum. Fókuserað er á þá meginþætti sem skipta mestu máli sagan er sögð með jarðbundnum og sannfærandi hætti og persónusköpunin er mjög vel gerð. Í heildina er þetta betri mynd en fyrirmyndin að svo mörgu leyti. Heildarmyndin er heilsteyptari og útkoman er mynd sem allir sannir aðdáendur vestranna verða ekki sviknir af. Úr verður hin klassíska barátta góðs og ills og þetta er saga sem hittir beint í mark.
Kvikmyndataka meistarans Phedon Papamichael, tónlist Marco Beltrami og handritið; allt er þetta í sérflokki. Ramminn gerist varla betri utan um sannkallað meistaraverk. Helst fannst mér lokapunkturinn í myndinni vera undir væntingum en það kemur ekki að sök. Ég var mjög ánægður með myndina og naut hverrar sekúndu, sérstaklega ferðalagsins til Yuma. Kvikmyndatakan fangar andann sérstaklega vel og skapar þann þátt sem mestu skiptir. Papamichael toppar sjálfan sig enn og aftur og hver myndrammi verður sönn snilld. Þetta er veisla fyrir augað stórmynd fyrir fagurkerana.
Nú er bara að vona að vestrarnir nái reisn sinni og virðuleika að nýju, það er freistandi að telja það eftir að hafa séð þessa á hvíta tjaldinu. Það styttist í að myndin um Jesse James verði frumsýnd og hún hefur fengið góða dóma. Í heildina er 3:10 to Yuma skylduáhorf fyrir sanna kvikmyndaunnendur með allra bestu myndum ársins og hlýtur að vera nefnd í sömu andrá og Óskar frændi þegar að líða tekur meir á árið. Þetta er klassabíó eins og það gerist allra best.

Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 1.10.2007 kl. 00:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.