Hriktir í stoðum sjálfstæðismanna í Reykjavík

Gísli Marteinn, Hanna Birna og Vilhjálmur Þ. Það segir allt sem segja þarf um ástandið milli aðila innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að borgarfulltrúar sitji fundi vegna REI-málsins með Geir H. Haarde og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en það gerðist í morgun samkvæmt fréttum. Þetta kemur sannarlega ekki að óvörum, en það hefur sést langar leiðir frá því að tilkynnt var um samruna orkufyrirtækjanna að borgarfulltrúar voru ekki hafðir með í ráðum.

Það er skiljanlegt að kjörnir fulltrúar nenni ekki að sætta sig við svona verklag og gusti milli kjörinna fulltrúa. Það er auðvitað algjörlega afleitt verklag að borgarstjórinn, þó leiðtogi hópsins sé, taki svona stórar ákvarðanir án samráðs við samstarfsmenn sína innan borgarstjórnarflokksins og telji sig vera kóng í ríkinu þar sem ekkert skipti máli nema hans boð og bönn. Þetta virðist vera alvarlegur trúnaðarbrestur og ekki við öðru að búast svosem eins og komið er málum en að vinna þurfi sig úr málinu með aðkomu forystu Sjálfstæðisflokksins.

Það er til marks um veika stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að enginn borgarfulltrúa vill fara í fjölmiðla til að verja hann, nema Júlíus Vífill Ingvarsson. Þögnin er það eina sem kemur frá Gísla Marteini Baldurssyni, formanni borgarstjórnarflokksins, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar. Sú þögn er hróplega áberandi eins og staða mála er orðin. Ef marka má fréttir er andstaðan leidd af fjórum borgarfulltrúum, auk fyrrnefndra tveggja, þeirra Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs, og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs.

Það verður áhugavert að sjá hver lausnin á átökunum verður. Verður hún kannski sú að Vilhjálmi og Hauki Leóssyni verði skipt út sem fulltrúum flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur? Stórt er spurt vissulega, en varla of stórt enda hefur sá orðrómur verið uppi síðan í gær að þeir sem ósáttastir eru við verklagið vilji algjörlega nýtt upphaf með nýjum fulltrúum. En það verður varla flokkað öðruvísi en sem vantraust yfir borgarstjóranum verði honum skipt út úr stjórninni eftir allt sem á undan er gengið.

Það hriktir altént í stoðum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þýðir ekkert að afneita þeirri krísu sem uppi er. Hún sést vel orðalaust í fjölmiðlunum þegar að enginn borgarfulltrúi vill bakka upp ákvarðanir borgarstjórans og tekist er á innan hópsins með þeim hætti sem fjallað hefur verið um. Þessi átök hafa verið að mestu utan kastljóss fjölmiðla, en samt vakið athygli, enda virðist borgarstjórinn standa einn eftir.

Það boðar auðvitað viss tímamót og hlýtur að leiða til þess að kjaftasögur grasseri um pólitíska framtíð borgarstjórans í Reykjavík. Það er alveg ljóst að hann mætir meiri mótspyrnu innan sinna raða en áður hefur gerst og ekki undrunarefni eins og allt er í pottinn búið í þessu REI-máli.

mbl.is Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á fund Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Borgin hafði náttúrulega ekkert að gera með Geysir Green E. Það var Bjarni Ármannsson. Nú þegar REI vill sameinast GGE þá hefur auðvitað borgin mikið um það að segja hvernig málin þróast. 

Starfsmenn Orkuveitunnar áttu ekkert endilega að fá forkaupsrétt, alla vega ekki svona mikinn.
Best hefði verið ef allir hefðu fengið tækifæri eða þá bara enginn.
Rei sem er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar hefði bara áfram verið borgarfyrirtæki og ekkert að því.

Guðmundur Þórodsson og Bjarni Ármannsson ákveða sjálfir að þeir og aðrir starfsmenn megi  kaupa umfram aðra. Guðmundur Þ. ræðir eflaust hvað mest sem forstjóri.

Þekking Orkuveitunnar er þekking okkar allra en ekki bara einstakra starfsmanna. 

Kolbrún Baldursdóttir, 5.10.2007 kl. 20:57

2 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

já, það verður gaman að fylgjast með þessu máli, vonandi verður þetta ekki þagað í hel eins og manni finnst um sum önnur mál, þetta er bara fyrir ofan manns skilning hvað gengur á þarna, hvort þetta er löglegt, siðlaust eða hvort menn eru að segja satt eða ekki.

Hallgrímur Óli Helgason, 5.10.2007 kl. 21:14

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Þú hefur lýst vel Stefán stöðu borgarstjóra í þessu fíflhyggjumáli.Fjalla um þetta á mínu bloggi í dag.

Kristján Pétursson, 5.10.2007 kl. 22:52

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin. Sérstaklega gott hjá þér Kolbrún, áhugaverðar pælingar.  Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.10.2007 kl. 00:05

5 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Sæll Stefán!

Athyglisverðar pælingar!

Finnst þetta hið undarlegasta mál og verður áhugavert að fylgjast með framvindu þess.

Jóhann Rúnar Pálsson, 6.10.2007 kl. 00:16

6 Smámynd: Njörður Lárusson

Engar smá spekuleringar, um skít á priki, Stefán.   Þetta er ekkert vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.  En fyrst að þetta varð svona mikið "fjölmiðlabál" öllum að óvörum, þá þarf fólk að hittast og bera saman bækur sínar.  Það er bara eðlilegt.

Njörður Lárusson, 6.10.2007 kl. 00:38

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Borgarstjórinn er með allt á hælunum Njörður. Dæmalaust klúður hjá þessum manni sem á víst að vera vanur en rennur á hverju bananahýðinu á eftir öðru. Það er einsdæmi að borgarfulltrúar þurfi að leita til flokksforystunnar beint til að leysa trúnaðarbrest milli fólks og segir allt um stöðuna sem blasir við.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.10.2007 kl. 00:40

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður kemur af fjöllum og er bara kjaftstopp/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 6.10.2007 kl. 00:41

9 Smámynd: Njörður Lárusson

Ég er ekki sammála því að borgarstjórinn hafi runnið á hýði, eins og Chaplin, né því að þetta sé dæmalaust klúður, en tíminn mun svo sem leiða það í ljós.  Ég tel það gott mál, og nauðsyn að  íslensku orkuveiturnar eigi svona útrásarfyrirtæki í sameiningu, svo lengi sem meirihlutinn er í eigu þeirra.  Ég held að styrinn standi um kjörin, en góður maður er aldrei ofmetinn, að mínu mati.  Það að borgarfulltrúar hlaupi til flokksforystunnar, tel ég bera vitni slæmum taugum, frekar en annað.

Njörður Lárusson, 6.10.2007 kl. 00:59

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sammála þér Halli.

Það verður auðvitað að koma á daginn, Njörður, hvaða eftirmálar þetta mál hefur í för með sér. Það er aldrei gott að svona stórt mál sé ákveðið án almennilegs samráðs. Þetta er blanda af mörgum mistökum í sjálfu sér, spurning hvort málin séu fleiri þar sem komið hefur til sviptinga milli þessa fólks. Það eru allavega sterk skilaboð í því fólgin að allir borgarfulltrúarnir sex, semsagt allir aðrir en VÞV, tali við forystu flokksins. Þetta er einsdæmi og vekur því auðvitað enn meiri athygli en ella.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.10.2007 kl. 01:07

11 Smámynd: Njörður Lárusson

Verð að viðurkenna, að þetta spretthlaup til forystunnar ( pabba og mömmu) er vægast sagt dularfullt.  (Spurning hvort þau voru farin að grenja eða bara með ekkasogum).  En ég tel að í grundvallaratriðum hafi gamli tekið rétta ákvörðun.  Smáa letrið, eða kauparétturinn, er líklega það sem tárum tekur.

Njörður Lárusson, 6.10.2007 kl. 01:18

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta sýnir bara að trúnaðarbrestur hefur orðið milli fólks og leitað er eftir aðkomu flokksforystunnar. Þetta er grafalvarlegt mál og sýnir að borgarstjórinn hefur brugðist trausti félaga sinna. Ég þekki marga sjálfstæðismenn í rvk og ég finn gremju víða, t.d. meðal fólks sem kaus Vilhjálm í prófkjöri. Fólk hefur stórlega orðið fyrir vonbrigðum með hann, sérstaklega unga fólkið í flokknum. Ég held að staða hans hafi veikst mikið innan flokkskjarnans.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.10.2007 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband