Ljóðmæli Helga

Helgi Seljan Ég var að lesa í morgun ljóðabók eftir móðurbróður minn, Helga Seljan, fyrrum alþingismann. Þar eru ýmisleg ljóð úr öllum áttum eftir Helga, en hann hefur alla tíð verið mjög hagmæltur og ort talsvert í gegnum tíðina, bæði fyrir og eftir að hann sat á þingi á áttunda og níunda áratugnum fyrir Austurlandskjördæmi.

Hafði virkilega gaman að lesa bókina og fara yfir ljóðin, enda mörg þeirra virkilega falleg og bera vel vitni ást hans til Austfjarða og sum bera vel vitni stjórnmálaskoðunum hans, en hann var snemma vinstrimaður og hefur í áratugi unnið í stjórnmálum, bæði fyrir Alþýðubandalagið og VG.

Finnst eitt ljóð sérstaklega fallegt og læt það fylgja hér með:

Friðarbæn

Helgnýr heiminn skekur,
herlúðrarnir gjalla.
Feigðarvofu vekur
vítt um heima alla.
Harm ber fólk í hljóði,
hugsjónirnar víkja.
Vargöld, vígaslóði,
vá og skelfing ríkja.

Hatrið grimma gellur,
geigvænt fylgir stríðum.
Sprengjufjöldi fellur,
feigðarboði lýðum.
Ríkir grimmdin gráa,
gjafi illra verka.
Vei þeim veika og smáa,
valdið er hins sterka.

Máttvana fólk mænir
í myrkrið ógnarsvarta.
Hljóðar bærast bænir
bljúgar innst frá hjarta.
Stríðsins hopi helsi,
hatrið burtu víkir.
Gefist friður, frelsi,
fagurt kærleiksríki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú þekkir þá Hönnu ! fólkið á Helluvaði og Laxárbakka voru miklir vinir foreldra minna og kom ég þar oft, man eftir Hönnu pínulítilli skottu. Það hefur margt falllegt komið frá frænda þínum. 

Ásdís Sigurðardóttir, 6.10.2007 kl. 13:42

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jamm, þekki hana vel. Þetta er virkilega gott og öflugt fólk. Helgi hefur ort margar yndislegar vísur og það er gaman að lesa þær. Þetta ljóð einhvernveginn hafði þannig áhrif á mig að ég vildi endilega birta það hér. Virkilega sterkt ljóð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.10.2007 kl. 13:58

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já þetta er falleg friðarbæn, hvaða ár var þetta ort?

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.10.2007 kl. 14:13

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er eitthvað það bezta, sem ég hef séð frá Helga.

En ein ásláttarvilla er þarna: 'víkir' í 3. síðustu línu, á að vera 'víki' (í viðtengingarhætti, nánar tiltekið óskhætti, eins og orðið 'hopi' í næstu línu fyrir ofan) og rímar þá rétt við kærleiksríki í lokin.

Gaman að sjá þennan nána skyldleika ykkar. - Með kveðju,

Jón Valur Jensson, 10.10.2007 kl. 09:57

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Herdís: Held að þetta hafi verið ort á sjöunda áratugnum.

Jón Valur: Þakka kveðjuna. Já, þetta er virkilega gott ljóð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.10.2007 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband