Andi Díönu lifir enn í fjölmiðlaumræðunni

DíanaÁratug eftir andlát Díönu, prinsessu af Wales, og Dodi Al Fayed er enn rætt um alla þætti málsins og reynt að varpa ljósi á síðustu tólf klukkustundirnar áður en bílslysið örlagaríka átti sér stað í miðborg Parísar. Myndirnar úr öryggismyndavélum Ritz-hótelsins gefa mun fyllri heildarmynd af síðustu klukkustundunum. Nú fyrst hafa þessar myndir verið opinberaðar, en sumar þeirra voru þó birtar í september 1997, í vikunni eftir andlát prinsessunnar.

Eftir áratug er vandséð hvað geti talist nýtt í þessu sorglega máli. Myndirnar eru athyglisverðar en þær eru umfram allt viðbót, sem gefa ekkert meira upp en vitað var. Díana hefur hvílt á eyjunni í Althorp í áratug og fjölskylda hennar hefur náð þeim áfanga að halda áfram eftir langa sorg sína. Ég hélt satt best að segja að búið væri að kanna alla hluti þessa máls. Tími væri kominn til þess að prinsessan fengi að hvíla í friði.

Vissulega eru myndirnar af henni í lyftunni mjög fallegar og vekja athygli, en þær minna okkur bara á það hversu falleg Díana var og hversu mikill harmdauði hún var. Ég hef alla tíð talið að ástæða þessa skelfilega slyss sé einföld. Bílstjórinn hafði fengið sér í glas og hann lenti í aðstæðum sem enginn átti von á. Allt fór úr böndunum og afleiðingarnar urðu sorglegar.

Ég trúi því ekki að stórt samsæri hafi verið framið um að myrða Díönu, prinsessu af Wales. Finnst það of fjarstæðukennt að MI6 hafi unnið að skipan konungsfjölskyldunnar að drepa hana. Algjörlega út í hött. Þó að kalt hafi verið milli aðila vildi enginn neinn feigan. Díana lenti bara í aðstæðum sem leiddu til bílslyss og hún slasaðist það illa að henni var ekki ætlað líf.

Þessi endir verður enn sorglegri þegar að litið er á myndirnar. Þessar myndbirtingar og endalaus málarekstur til að upplýsa hið augljósa hlýtur að vera sem fleinn í syni prinsessunnar og fjölskyldu hennar. En kannski verður að fara yfir allt málið enn einu sinni til að ljúka því. En það er kominn tími til að fjölmiðlaprinsessan fái að hvíla í friði.


mbl.is Áður óbirtar myndir af Díönu prinsessu vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Hvenær fær greyið frið????

Einar Bragi Bragason., 6.10.2007 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband