Ólafur Ragnar flýgur um heiminn í boði auðmanna

Ólafur Ragnar Það virðist vera orðin hefð hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að fljúga um heiminn í boði auðmanna ef hann þarf að ferðast vegna embættiserinda, ef marka má nýjustu fréttir. Það er stutt síðan að Eyjan birti fréttir um að hann hefði flogið til Englands í boði Eimskip og nú fer hann til Kína í boði Glitnis. Þetta hlýtur að leiða til umræðu um það hvort að forseti Íslands sé eins og umrenningur að dóla um heiminn í embættiserindum sínum og þurfi hjálp hinna ríku til að komast um.

Mér finnst þetta ekki eðlileg þróun og finnst þetta til skammar fyrir forsetaembættið. Ef forsetinn getur ekki ferðast í almennu millilandaflugi á hann að óska eftir því að ríkisstjórnin kaupi einkaflugvél handa honum til að geta sinnt sínum verkum. Það er mun skárra heldur en að vera að fylgja eftir hinum ríku með þessum hætti. Það er reyndar mjög kaldhæðnislegt að fyrrum formaður Alþýðubandalagsins ferðist með þessum hætti og er dæmi um það hvernig tímarnir eru sífellt að breytast.

Það eru vissulega nýjir tímar víða, en það er samt sem áður einum of að forsetinn sé að snapa sér far með auðmönnum til að geta mætt á fundi með þjóðhöfðingjum og eða sinnt öðrum mikilvægum verkum. Þetta er ný sýn á veruleikann sem blasir þarna við og eðlilegt að við spyrjum okkur að því á hvaða leið þessi forseti er að fara með embættið.

mbl.is Ólafur Ragnar flaug til Kína í boði Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Stefán. Mér finnst allt í lagi að Ólafur Ragnar ferðist með farartækjum í eigu íslenskra fyrirtækja ef það hentar honum og embættinu.  Útrás íslenskra fyrirtækja hefur verið frábær og bætt lífskjör og lífsgæði landsmanna. Við eigum öll að vera samtaka og styðja þá þróun. Forsetinn á að vera þar fremstur í flokki. Reyndar er ég sammála þér að það er kaldhæðnislegt að fyrrverandi formaður alþýðubandalagsins skuli gera þetta, en batnandi mönnum er best að lifa.  Ég kaus Ólaf Ragnar ekki en finnst hann samt hafa verið ágætur forseti þó svo að hann eigi það til að vera full hátíðlegur og jafnvel tilgerðarlegur á stundum.

Þorsteinn Sverrisson, 6.10.2007 kl. 21:30

2 identicon

Alveg er ég sammála þér! Mér finnst embættið setja verulega niður við svona vinnubrögð. Ekki bara að það sé hallærislegt að snapa svona far með þeim sem eitthvað eiga undir sér heldur finnst mér það líka gefa í skyn að forsetinn geti ekki ferðast með þjóð sinni og þá er embættið komið ansi langt frá upprunanum.

kjellingin (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 21:44

3 identicon

Sæll Stefán

Tek undir hvert orð í þessari færslu.

Skondið hvað Ólafi lætur vel að makka með auðvaldinu. Hann er greinilega ekki lengur málsvari öreiganna. Honum lætur greinilega betur að sitja við alsnægtaborð gróðapunganna.

 Hann hefur aldrei verið neinn hugsjónamaður, heldur bara ósköp venjulegur tækifærissinni sem líður vel í kastljósi fjölmiðlanna.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 21:56

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ótrúleg smáborgaraumræða er þetta.  Maðurinn þarf að komast frá A til B, er boðið far í þotu sem er að fara sömu leið og gefur honum tækifæri á að vinna á leiðinni og vera fljótari í förum en hann annars væri.  Þar að auki er hægt að nýta það almanna fé sem annars færi í að skutla manninum milli verkefna í eitthvað annað.

Forsetinn núverandi og forsetaembættið alla tíð hefur alltaf aðstoðað íslensk fyrirtæki á vegferð þeirra um heiminn enda opna slík tengsl verulega leiðir inn á erlenda markaði s.b. Kína.  Hann hefur því fyrir löngu síðan unnið fyrir öllum þeim flugferðum sem hann fær að sitja með í og skuldar engum neitt.

Af hverju í ósköpunum er fólk svona öfundsjúkt og smáborgaralegt?  Hefur það virkilega ekkert þarfara að gera?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 7.10.2007 kl. 01:40

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þetta er rétt Stebbi.

Það er lágmark að forseti landsins sé óháður fyrirtækjum í ferðalögum sínum í þágu þjóðarinnar, algjört lágmark.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.10.2007 kl. 01:58

6 Smámynd: Hjalti Garðarsson

Annað hvort þarf að kaupa þotu handa kallinum eða þá að skipuleggja dagskrá hans betur.  Ég kann ekki við það að æðsti ráðamaður þjóðarinnar flækist um heiminn eins og einhver puttalingur.

Hjalti Garðarsson, 7.10.2007 kl. 09:45

7 identicon

Málið snýst um grundvallaratriði og varðar bæði siðgæði og hugmyndafræði. Þau sem héldu að forseti Íslands myndi vinna að meiri jöfnuði og upphefja manngildisstefnuna, berjast á móti gróðafíkn og lina tök kaupsýslustéttarinnar á landi og þjóð, sjá nú sína sæng útbreidda. Þessi forseti hefur alla tíð verið tækifærissinni, kunnað að smaðra fyrir alþýðu þessa lands með hátíðlegum orðum, en verið undirdánugur þjónn auðmanna alla tíð. Og þetta með útrásina, hafa menn tekið eftir því að vextir hafi lækkað á lánum eftir hina miklu útrás bankanna? Hvenær hefur það þótt gott fyrir nokkurt efnahagskerfi að draga fjármagn út úr því til fjárfestinga annarsstaðar? Einn góðan veðurdag eigum við eftir að sjá erlenda stórfiska gleypa þessi íslensku smáseyði. Núna eru þeir aðeins að bíða eftir að þau vaxi í álitlega stærð. Með áróðri hefur íslensk þjóðerniskennd verið tengd útrásarbraskinu svo Jón og Gunnu finnst þau vera með í leiknum og fyllast stolti yfir útrásinni. Minnir mann á sefjun þjóðar á stríðstímum. Spyrjum að leikslokum.

Guttormur Sigurdsson (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 11:04

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég tek undir þennan pistil þinn, Stefán. Æ sér gjöf til gjalda og það er hætta á að forsetaembættið tapi stöðu sinni sem sameiningartákn þjóðarinnar, ef forsetinn er stöðugt að snapa sér far með fararskjótum stórfyrirtækja.

Fyrir utan það að mér finnst hneisa að forsetinn og aðrir frammámenn séu að sleikja sig upp við blóði drifna harðstjóra í landi þar sem mannréttindi eru fótum troðin og fólk er fangelsað og drepið fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Allt fyrir fáeina aura. 

Theódór Norðkvist, 7.10.2007 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband