Mun Guðni gera upp við Halldór í ævisögu sinni?

Halldór og Guðni Það eru fleiri að rita ævisögu sína þessa dagana en Ólafur Ragnar Grímsson. Brátt mun ævisaga Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, koma út. Guðni hefur verið í stjórnmálum mjög lengi og hefur vissulega litríka sögu að segja eftir tvo áratugi á þingi, tæpan áratug í ríkisstjórn, sex ár sem varaformaður Framsóknarflokksins og nokkra mánuði í forystu flokks á krossgötum.

Áhugaverðast verður, að mínu mati, að lesa þar um love/hate-samband Guðna og Halldórs Ásgrímssonar innan Framsóknarflokksins árum saman. Fyrir nokkrum mánuðum gerði Guðni það upp í DV með flennifyrirsögninni: "Halldór vildi mig ekki". Gremja Guðna yfir atburðarásinni sumarið 2006 þar sem greinilega var reynt að koma í veg fyrir að Guðni tæki við flokknum af Halldóri Ásgrímssyni situr enn þungt í honum samkvæmt því og varla verður ævisaga þessa manns rituð án þess að þar verði talað tæpitungulaust um Halldór, sem var formaður Framsóknarflokksins í tólf ár.

Orðrétt sagði Guðni í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson um samskiptin við Halldór í Fréttablaðinu í maí 2007 (þar sem vikið er að pólitískum endalokum Halldórs): "Halldór taldi mig ekki þann réttborna arftaka sem Framsóknarflokkurinn ætti að fá. Ég veit ekki hvers vegna það var, hvort hann treysti mér ekki fyrir flokknum eða hvort andstaða mín við þessa Evrópusambandshugsun hans réði því." Ískuldi var orðinn í samskiptum Halldórs og Guðna er þarna var komið sögu og ekki var hægt að leyna innri átökum þeirra.

Guðni hefur jafnan talað tæpitungulaust í stjórnmálum og verið maður margra hnyttinna orða. Það hvernig Guðni gerir upp við Halldórsarminn, sem ætlaði að gera hann upp pólitískt sumarið 2006 með Halldóri verður áhugavert að lesa um í ævisögunni fyrir jólin. Það er eflaust enn litríkari saga í heild en þær slitrur sem við höfum heyrt til þessa.

mbl.is Ævisaga Guðna Ágústssonar gefin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Fjölmargir, sem líta á Framsóknarflokkinn sem krabbameinsæxli í íslenzkum stjórnmálum eru mjög sáttir við að risaeðlan Guðni hefur tekið við taumunum. Þótt hann sé ekki gjörspilltur eins og Halldór, þá mun samt flokkurinn með formann sem lifir á 19. öld, stöðugt tapa fylgi.

Vendetta, 6.10.2007 kl. 23:41

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll  Stefán.

Svarið við spurningu þinni í fyrirsögninni er: JÁ

Árni Þór Sigurðsson, 7.10.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband