Er Þorsteinn Pálsson að fara í forsetaframboð?

Þorsteinn Pálsson Á meðan að ég horfði á drottningarviðtal við Þorstein Pálsson, ritstjóra Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra, í Silfri Egils hugsaði ég mig um hvort að hann væri að fara í forsetaframboð. Þorsteinn kom fram með þeim stíl að allt beinlínis öskraði á mann um að þar færi maður sem stefndi á Bessastaði. Fílingurinn við að horfa á viðtalið var einfaldlega með þessum brag. Hvað svo sem Þorsteinn hyggst fyrir finnst mér karakter hans minna mig ótrúlega mikið á Ólaf Ragnar fyrir rúmum áratug er hann setti stefnuna á Álftanesið.

Hverjum hefði annars órað fyrir því fyrir tveim áratugum þegar að Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hentu Þorsteini út úr forsætisráðuneytinu með kostulegum hætti (í beinni sjónvarpsútsendingu) og hann tapaði formannsembættinu í Sjálfstæðisflokknum til Davíðs Oddssonar með eftirminnilegum hætti að hann yrði einskonar grand old man í stjórnmálapælingum. Mér fannst hann líta þannig út að eitthvað væri í spilunum. Þorsteinn talar um málin með úthugsuðum og fræðilegum hætti og einhvernveginn er maður sem ég held að flestir gætu náð að treysta þrátt fyrir allt.

Það voru margir undrandi þegar að Þorsteinn varð ritstjóri Fréttablaðsins, flaggskips Baugsmiðlanna hjá 365-prentmiðlum. Þorsteinn hafði þá fyrir stuttu lokið störfum í utanríkisþjónustunni en hann var á sex árum sínum sem sendiherra starfandi sem slíkur í London og Kaupmannahöfn. Í þau verkefni fór hann að stjórnmálaferlinum loknum en hann var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, forsætisráðherra 1987-1988 og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991. Hann gegndi á þeim ferli sínum fjölda ráðherraembætta auk forsætisráðherraembættis, en hann var fjármálaráðherra 1985-1987, iðnaðarráðherra 1987 og sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra 1991-1999.

Þorsteinn var ekki nema 52 ára gamall er hann vék af hinu pólitíska sviði og hélt út til sendiherrastarfa. Hann var aðeins 58 ára er hann hætti þeim störfum og margir veltu þá vöngum yfir því hvað tæki þá við, enda bjuggust fáir við að hann myndi setjast með hendur í skaut með mörg herrans ár enn eftir af virkum starfsárum. Lengi var spáð í það hvort að hann yrði ritstjóri Morgunblaðsins og væri ætlað að taka við blaðinu er Styrmir Gunnarsson myndi fara á eftirlaun. Svo fór þó ekki og niðurstaðan sú að hann settist að við Skaftahlíð og tók við Fréttablaðinu. Það var útspil sem fáir hefðu séð fyrir.

Mér hefur vissulega fundist fróðlegt að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála.

Enn er ekki vitað hvað gerist með Ólaf Ragnar en Þorsteinn sýndi á sér allan brag þess í viðtalinu við Egil að hann hefði áhuga á Bessastöðum. Hann einfaldlega lúkkaði þannig hreint út sagt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán. Ég minnist Kastljóssviðtals við Þorstein Pálsson fyrir fáeinum árum, þar sem hann var spurður hvort hann hyggði á endurkomu í stjórnmálin. Þá svaraði hann eitthvað á þá leið að það væri vel hugsanlegt, en þá á öðrum vettvangi en hann hafði verið áður. Ég hugsaði með mér að þessi maður væri greinilega að velta forsetaembættinu fyrir sér.

Baldur Helgi Benjamínsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 17:07

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentið Baldur.

Já, ég tek undir þetta. Hef talið að Þorsteinn hafi um nokkuð skeið haft áhuga á þessu. Tel miklar líkur á að hann fari fram í forsetakosningum að ári, sérstaklega ef Ólafur Ragnar hættir.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.10.2007 kl. 21:29

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það eru engar líkur á því að Ólafur hætti á næsta ári.  Hann er vægast sagt á "full-swing" og það kæmi verulega á óvart ef hann biði sig ekki fram til næsta kjörtímabils.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 11.10.2007 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband