Vilhjálmur Þ. bregst trausti samherja sinna

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er með ólíkindum að lesa frásagnir af því hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur komið fram gagnvart samherjum sínum í REI-málinu. Hann hefur brugðist trausti þeirra og er stórlega skaddaður á eftir. Allar lýsingar þessa máls og sú staðreynd að borgarfulltrúarnir þurftu að leita til forystu flokksins til að kvarta yfir verklagi og störfum borgarstjórans eru sorglegar staðreyndir fyrir hinn reynda stjórnmálamann sem situr á borgarstjórastóli.

Það verður freistandi fyrir stjórnmálaskýrendur að átta sig á því hvað fór úrskeiðis hjá Vilhjálmi Þ. Eftir áralanga setu í borgarstjórn, reynslu af bæði meiri- og minnihlutasetu og sextán ára starf sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga átti maður varla von á því að hann myndi vinna með þeim hætti sem raunin hefur orðið. Það er stóralvarlegt mál að hann hafi unnið á bakvið samherja sína í Sjálfstæðisflokknum að því sem gert var í REI og þessi uppljóstrun um að fyrst hafi borgarfulltrúarnir heyrt af þessu með kynningu á glærushowi segir ansi margt um það hvernig unnið var.

Það er alveg ljóst að staða Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem borgarstjóra hefur veikst umtalsvert. Hann er stórlega skaddað flak á eftir að mínu mati. Vandséð er að hann leiði flokkinn í gegnum aðrar kosningar og hann ætti sjálfs síns vegna að hugleiða sín skref vel. Hann er sem eyland í hópnum eftir afspyrnuslaka frammistöðu sína. En líklegra er að einhverra sátta verði leitað til að vinna sig úr þessum ágreiningi og átökum. Ég tel þó að blasi við að Vilhjálmur hefur á mjög skömmum tíma misst styrkleika sinn og hann er mjög veikur á valdastóli á eftir.

Þetta mál er skólabókardæmi um það hvernig leiðtogar eigi ekki að vinna. Kannski er stærsta vandamálið í þessu máli að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hagaði sér eins og þeir sem hann steypti af stóli og tók upp verklag sem sjálfstæðismenn sjálfir höfðu gagnrýnt svo mjög. Það er afleitt. Mér finnst Vilhjálmur Þ. hafa farið illa með tækifæri sín, enda náði hann stórum prófkjörssigri og var um margt með pálmann í höndunum. Hann hefur klúðrað sínu stórt og á að gjalda þess með einum hætti eða öðrum.

mbl.is Átti að vaða yfir okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

En hver er ábyrgð Villa vasaklúts - víkja menn ekki úr starfi eftir svona? Þó glaður myndi ég vilja sjá þá slíta samstarfinu við Björn Inga frekar, væri gott að losna við þá báða. 

Gísli Foster Hjartarson, 8.10.2007 kl. 13:56

2 Smámynd: Snorri Magnússon

Ábyrgð Villa???!!!!  Er ekki allt í lagi??  Síðan hvenær hafa stjórnmálamenn á Íslandi axlað ábyrgð á athöfnum sínum og orðræði???  Sammála því að losna við Framsóknardrauga, hvar sem þeir annars leynast.  Þar snúast hlutirnir ekki um annað en eiginhagsmunapot.

Snorri Magnússon, 8.10.2007 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband