Munu sárin á milli borgarfulltrúanna gróa?

Borgarfulltrúar halda blaðamannafundStóra spurningin í borgarmálunum nú er hvort og þá hversu hratt sárin á milli borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins muni gróa eftir átök síðustu daga í REI-málinu. Sættirnar lægja öldur en greinilegt er að átökin voru mjög djúpstæð miðað við þann orðróm að vilji hafi verið fyrir myndun nýs meirihluta, t.d. með VG. Niðurstaðan er samt sem áður augljóst merki um að borgarfulltrúarnir ætli að vinna sig frá átökunum.

Það er greinilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur orðið undir í málinu og hann virkaði eins og barinn hundur á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Gísla Marteins Baldurssonar á blaðamannafundi í dag. Það verður erfitt fyrir hann að halda áfram fyrstu skrefin eftir þessi sýnilegu átök. Stærstu átökin innan Sjálfstæðisflokksins voru um hugmyndafræðina á bakvið útrásina í orkugeiranum og upplýsingaskort til almennra borgarfulltrúa. Virðist hafa verið gengið að þeim kröfum borgarfulltrúanna að taka á því með sölu á hlut borgarinnar í REI og því að borgarfulltrúi verði stjórnarformaður.

Hart var sótt að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni vissulega. Hann á að baki langan feril í stjórnmálum en var rúinn trausti meðal hópsins. Hann hefur veikst umtalsvert í REI-málinu og vandséð hvernig að hann verði aftur sterkur leiðtogi alls hópsins eftir þær sögusagnir og fréttir sem borist hafa um átök milli Vilhjálms við alla hina borgarfulltrúana. Hann var orðinn eyland í málinu og beygir sig undir vilja hinna. Það verður erfitt fyrir hópinn að halda áfram eins og ekkert hafi gerst. Þetta mál hefur viss áhrif og áhugavert að sjá hvernig að þeim gangi að halda samstarfi sínu áfram og ekki síður hvort borgarstjóri hafi styrk til að halda áfram.

Eitt atriði dagsins sem vakti mesta athygli mína voru ummæli Gísla Marteins Baldurssonar þess efnis að málefni REI hefðu aldrei verið rædd í borgarstjórnarflokknum áður en þau voru samþykkt innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Þau hafi fyrst heyrt af stofnun fyrirtækisins í fjölmiðlum. Þetta er mikil frétt ein og sér. Eins og flestir vita sátu þá af hálfu Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Haukur Leósson. Hvorugur var borgarfulltrúi. Gremja sitjandi borgarfulltrúa yfir þessu máli verður sífellt skiljanlegri. Þau voru utan allrar beinnar ákvarðanatöku.

Þó að þessu máli virðist lokið og öldur hafi lægt milli aðila verður fylgst með stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar áfram, enda hefur hann veikst það mjög að vandséð verður hvort hann leiði flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum og hafi áfram þann kjarnastuðning sem þarf til að leiða hópinn til verka. Hann hefur misst mikið traust en nú reynir á styrk hans eftir þetta mál. Þó að allt hafi virst slétt og fellt á yfirborðinu á þessum blaðamannafundi skilur þetta mál eftir mikil sár og áhugavert að sjá hvernig gangi að láta þau gróa.


mbl.is Sátt meðal sjálfstæðismanna þrátt fyrir trúnaðarbrest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Vona bara að "Gamli Góði Villi" sjái sóma sinn í því, að segja af sér, ekki seinna en strax !

Ingólfur Þór Guðmundsson, 9.10.2007 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband