REI-málið verður sífellt skítugra spillingarmál

Bingi glottir við tönn Eftir því sem litið er betur á REI-málið verður það sífellt skítugra spillingarmál að mínu mati. Það er stóralvarlegt mál að kjörnir fulltrúar borgarbúa innan meiri- og minnihluta staðfesti samruna REI og GGE og samning við REI án þess að kynna sér málin eins og virðist nú vera raunin með hinn svokallaða 20 ára samning sem er skuggaleg staðreynd sem kemur alltof seint fram. Það er ekkert annað viðeigandi núna en að ógilda hluthafafundinn og koma málinu á byrjunarreit.

Enn er óskiljanlegt hversu mikill flýtir var í þessu máli. Af hverju lá svona á? Hvaða hagsmunir voru fyrir því að flýta svo málum að ekki var hægt að upplýsa kjörna fulltrúa almennilega um stöðu mála og vinna það almennilega? Það verður sífellt augljósara að kjörnum fulltrúum var ekki færð heildarmyndin á málefnum REI og hvað væri að gerast. Frásagnir af því verða fjarri því áferðarfallegri. Einkaréttarsamningurinn er sérstaklega vont viðbótarinnlegg seint og um síðir. Þetta mál er engum til sóma og það á að klippa á allar gjörðir.

Mér finnst það mjög alvarlegt mál sérstaklega að talað sé um að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafi verið inni í umræðu um kaupréttarsamningana. Það er ótrúlegt að það hafi einu sinni verið rætt, hvað þá annað. Það er veruleg skítalykt af öllu þessu máli og það skánar ekkert þó dagarnir líði. Skíturinn verður ekkert minna áberandi þó hann sé látinn í friði, lyktin verður enn verri. Það á sannarlega við í þessu máli. Smátt og smátt koma fram fleiri atriði í þessum ótrúlega farsa sem REI-málið verður að teljast. Risasamningi haldið leyndum og tal um kauprétt handa kjörnum fulltrúum. Þetta er ekki boðlegur verknaður frá a-ö.

Það sem vekur mesta athygli er að fulltrúi Samfylkingarinnar staðfesti verklagið á fundinum, það gerðu flestir flokkar og fulltrúar líka. Mun Sigrún Elsa Smáradóttir verða stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur eftir að hafa ekki kynnt sér málið, þó í minnihluta væri, og skrifað upp á verklagið? Það er von að spurt sé. Og hvað með þá sem héldu á málinu fyrir fundinn, af hverju voru upplýsingar ekki kynntar betur? Geta lykilstjórnendur á þessum bæ setið áfram á sínum feitu stólum eftir þetta klúður?

Tek undir ummæli Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur þess efnis að klippa verði á allt - strika þarf yfir fyrrnefndan fund. Eina leiðin til að koma þessu skítamáli í eðlilegan farveg er að klippa á verklagið sem var til staðar. Það er fjarri því lausn að róa málið eins og Svandís Svavarsdóttir komst að orði með svo mislukkuðum hætti. Það þarf allt upp á borðið og það þarf að velta öllum steinum við í þessu spillingarmáli. Nú þarf að opna málið upp á gátt.

mbl.is Einkaréttarsamningur til 20 ára ekki í tillögum á eigendafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var nú búinn að ákveða að láta af þessari skorpu athugasemda við Stebba, en ég get ekki annað en að svara þessu:

Stefán, þú áttar þig á því að þú ert að lýsa spillingu sem Guðlaugur Þór Þórðarson hóf og var leidd af Sjálfstæðismönnum allt til enda!  Lokin á þessu eru þau að Svandís Svavarsdóttir er að flytja mál til að fá þennan fund ólöglegan og mun svo leiða athgun á öllum hliðum málsins - athugun sem Björn Ingi hefur samþykkt að taka fullan þátt í!

Það að reyna gera einhverja hetju úr Þorbjörgu Helgu og draga úr þætti Svandísi er afskaplega ósmekklegt!  Þú veist betur!

Steingrímur (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 18:56

2 identicon

Mér fannst gaman að hlusta á Björn Inga í Silfri Egils, þar sem hann sagði að sumir hefðu verið sofandi(ekki hann) þegar kom að þessum fundi, en hann var samt sem áður ekki sjálfur viss á öllu, og var það af því að þeir settu ekki alla hlutina fram.

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 19:01

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessu!!!lengi getur vont versnað/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 14.10.2007 kl. 20:13

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Steingrímur: Það er eðlilegt að tala mannamál í þessum efnum. Ég tel að REI-málið sé spillingarmál. Lyktin er allavega ekki góð og það verður að velta steinum. Það eru margir ósáttir við verklagið í þessu máli og það er eðlilegt. Ég gegni engum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hef frjálsar hendur í mínum skrifum hvað það varðar. Enda er eðlilegt að tala hreint út um mál.

Óli: Nákvæmlega. Skarplega ályktað. Tók vel eftir þessu sama.

Halli: Sammála.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.10.2007 kl. 20:24

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sammála Stefán Friðrik, það á að tala hreint út. En þeir sem eru verulega hallir undir einhvern stjórnmálaflokk, gengur venjulega illa að gera það á hlutlausan hátt. Það var jú Svandís Svavarsdóttir sem fletti ofan af öllu sukkinu og þess vegna er meira en lítið aulalegt að reyna að gera  hennar þátt  minni en efni standa til.

Þórir Kjartansson, 14.10.2007 kl. 20:39

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ummæli Svandísar hvað þetta varðar voru afleit, þ.e.a.s. að róa þyrfti mál niður. Egill Helgason hefur t.d. gagnrýnt þetta.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.10.2007 kl. 22:09

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

 

Ég og fleiri viljum kosningar.

Ég veit að samkvæmt lögum á ekki að kjósa nema á fjögurra ára fresti. Það var líka ólöglegt að flakka á milli bæja þegar vistarbönd giltu.

Við eigum og megum kefjast einhvers þótt lögin séu ekki í samræmi við kröfurnar. Til þess fara menn og konur i stjórnmál, til að hafa áhrif og breyta lögunum þegar þau þjóna ekki hagsmunum almennings. Og það er alveg augljóst að það er verið að fótumtroða lýðræðið í Reykjavík.

Ef kosið væri "nú" yrði það ekki fyrr en  eftir nokkra mánuði en á meðan yrði málin skoðuð ofan í kjölinn.

Vissulega þyrfti að breyta lögunum en það ætti ekki að vera stórmál.

Það sem er að gerast í þessum darraðardansi er að kjörnir fulltrúar okkar ráða ekki við "atvinnubragðarefi", þeir koma því miður af fjöllum eins og jólasveinar og hafa litla sem enga yfirsýn.

Þegar svo er komið er fráleitt að sá sem sprengdi fyrri stjórn og hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum, labbi til vel meinandi borgarfulltrúa í hinu liðinu án þess að kurl séu komin til grafar.

Þessi fjórflokkur mun vaða eld og brennistein (og gufu) til að halda samstarfinu saman, það mun hanga á bláþræði og það verður tilhneiging til að loka óþægilegum málum frekar en að opna þau, vegna þess að Björn Ingi er of mikill gerandi.

Ef stjórnin springur yrði stjórnarkreppa. Björn Ingi gæti ekki starfað með D listanum, ekki Margrét heldur. Það yrði hvort eða er að kjósa.

Ég vil kosningar.

Benedikt Halldórsson, 14.10.2007 kl. 22:38

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Þetta er ekki flókið. Meirihluti sjalla og frammara klúðraði þessu máli og þess vegna er hann ekki lengur til. Stebbi minn...það er ekki hægt að fegra hlut borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins....ég minnist þess varla að hafa séð nokkurn hóp með ein niður um sig pólitíkskt og þetta lið allt saman.

Jón Ingi Cæsarsson, 14.10.2007 kl. 23:15

9 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ný meirihluti ætlar sér örugglega að keyra þetta mál áfram óbreytt

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 14.10.2007 kl. 23:25

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Stefán það þarf að lofta út. Við eigum að krefjast kosninga strax!

Sigurður Þórðarson, 15.10.2007 kl. 00:15

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eru einhver úrræði um að kæra spillingarmál sem þetta?  Á ekki að vera hægt að skipa óháða rannsóknarnefnd eins og flest siðvönd samfélög myndu gera?  Var að hugleiða hvað væri hægt að gera í þessu en sé ekki í fljótu bragði, hvert menn ættu að snúa sér.  Ekki virðist Alþingi treystandi til að hafa frumkvæðið, þótt opinber spillingamál af þessu kaliberi hljóti að snerta landslýð allann.  Væri gaman að heyra ábendingar lögfróðra hér. Hagsmunatengslinn eru vaðandi kriss kross frá botni og uppúr.  Það eru til lög, sem eiga að sporna við slíku.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 02:59

12 Smámynd: Dr Banco Vina  E.D.R.V

Skítugra og skítugra og skítugra og hellings maðkaskítur sagði einhleypa konan í Efra Breiðholti í morgun

Dr Banco Vina E.D.R.V, 15.10.2007 kl. 09:52

13 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það hefur einkennt alla umræðu um þetta vandræðamál að leitast er við að koma sök á borgarstjóra og / eða formann borgarráðs.

Margt er enn óútskýrt varðandi hlut þeirra í málinu og nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort um var að ræða handvömm eða óheilindi, sem gerði peningaöflum kleift að sölsa undir sig lungann úr framtíðarverðmætasköpun Orkuveitu Reykjavíkur, að ekki sé talað um eignarhald í Hitaveitu Suðurnesja.

Forstöðumaður REI sagðist í viðtali við RÚV furða sig á ummælum borgarstjóra varðandi túnaðarbrest og skort á upplýsingum um kauprétt einstaklinga í sameinuðu félagi, þá sagði hann að hann hafi sjálfur ráðið sig frá Orkuveitunni til REI í september á þeim forsendum að hann fengi að kaupa hlut í félaginu. Um það hafi verið samið við stjórn REI og um það ríkt full samstaða.

Einu gildir hvort heldur um var að ræða handvömm eða óheilindi kjörinn fulltrúa Reykvíkinga varðandi stöðu forstöðumanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Reykjavík Energy Invest (REI). Þar er uppi sú sérstæða staða, að forstöðumaður REI er í raun forstöðumaður OR, nema hvað hann er í tímabundnu leyfi frá OR til að sinna REI. Í hans stað í OR situr tímabundið sviðsstjóri lögfræðisviðs og innri endurskoðunnar OR.

Ekki ætla ég að væna þessa menn um skilningsleysi á þeim gjörningum, sem þeir hafa haft milligöngu um að undirrita og staðfesta. Mér þykir því eðlileg krafa til þeirra að þeir réttlæti þann asa sem á öllu þessu máli hefur verið, skort á sérfræðimati og útskýri hvernig OR og eigendur hennar eru bættari eftir samninga en áður, því mörgum þykir þeir vera að éta innan úr Skjónu, sérstaklega með undirritun 20 ára samningsins.

Sigurður Ingi Jónsson, 15.10.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband