Gremja sjálfstæðismanna - styrkur Hönnu Birnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru hvassir á borgarstjórnarfundi í dag, sem markaði valdaskipti í Reykjavík. Gremja þeirra vegna sviptinga í borgarmálum er skiljanleg, miðað við allar aðstæður. Mér fannst Hanna Birna Kristjánsdóttir flytja bestu ræðu borgarfulltrúanna sjö á þessum fundi. Hún talaði hreint út og var ekki að skafa utan af því í garð Björns Inga Hrafnssonar og ekki síður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en við öllum blasir að Vilhjálmur hefur unnið einn mörg verk í sínum hópi og án þess að kynna samherjum sínum það.

Að mínu mati er sá trúnaðarbrestur og einfarahlutverk Vilhjálms í lykilmálum stærsta ástæða þess hvernig fór í þessu máli fyrir Sjálfstæðisflokknum. Allt annað kom einfaldlega í kjölfarið. Vilhjálmi varð mjög á í leiðtogahlutverkinu sem slíku og staða hans hefur veikst gríðarlega á skömmum tíma - verður aldrei söm og jöfn og eftir prófkjörssigurinn í nóvember 2005. Þar fékk hann traust flokksmanna sem hann hefur ekki staðið undir. Lýsingar Hönnu Birnu á verklaginu í REI-málinu segja meira en mörg orð um hvernig borgarstjórinn stóð einn og vann einn að mörgum málum sem skiptu máli.

Fannst mér Hanna Birna það hvöss að hún gerir ekki greinarmun á verklagi leiðtoganna tveggja. Niðurstaða mála er að mínu mati mesta áfall Sjálfstæðisflokksins frá því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk fyrir tveim áratugum og honum var sparkað af samstarfsmönnum sínum út úr forsætisráðuneytinu. Mér finnst þessi staða enn verri en blasti við þegar að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði borginni fyrir þrettán árum til R-listans. Þá var tapið viðbúið eftir erfiða kosningabaráttu, sem þó var glettilega nærri því að vinnast undir lokin. Nú tapar flokkurinn völdum án kosninga og vegna atburðarásar sem spilaði sig sjálf áfram án stjórnar.

Ég fer ekki leynt með þá skoðun mína að Hanna Birna er öflugasti borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Hún talar af krafti og sannfæringu - er sannur leiðtogi og kjarnakona í forystu. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist næst í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hinsvegar tel ég einsýnt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er í raun búinn að vera sem sterkur leiðtogi flokksins í borginni.

Það er eðlilegast að horft verði til Hönnu Birnu sem eftirmanns hans, hversu fljótt sem leiðtogaskipti verða. Tel þó ekki langt í þau, í sannleika sagt. Get ekki séð að "gamla góða Villa" sé sætt miklu lengur eftir atburðarás síðustu daga, sérstaklega síðustu 48 klukkustunda.

mbl.is Hanna Birna upplýsti um hvers vegna borgarstjórnarsamstarfið brast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Þú ert nokkuð hlutdrægur núna félagi. Mér fannst þessi ræða full af beiskju og gremju og virkaði á mig eins og þar færi geðvond vonsvikin kona. Haft er fyrir satt að sjallar í Reykjavík séu að undirbúa brottför Villa og það sem meira er .... mjög margir vilja að Hanna Birna og Gísli Marteinn skoði sína stöðu en þau þykja hafa sýnt alvarlegan dómgreindarbrest. Sjallar bera gremju sína ekki á torg og þar brugðust þau.

Jón Ingi Cæsarsson, 16.10.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Stefán, 

við eigum það sameiginlegt að hafa gaman af bloggi, þó ekki sé með sama hætti. Ég, ólíkt þér, nenni helst ekki að skrifa en þyki gaman að lesa góða pistla. 

Ég hef verið einn af dyggum lesendum þinum um langa hríð og finn hjá mér hvöt til að þakka kærlega fyrir mig. Stjórnmálaviðhorfs greinarnar eru opinskáar en jafnframt skrifaðar af meiri þekkingu og innsæi en ég hef áður séð. 

               TAKK
 

Sigurður Þórðarson, 16.10.2007 kl. 23:03

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jón Ingi: Ég tala alveg hreint út í þessum efnum. Það er alltaf styrkleiki að meta hlutina með heiðarlegum hætti. Þó að ég sé flokksbundinn ver ég ekki það sem ég tel í hjarta mínu rangt. Hvað þetta REI-mál varðar hef ég ekkert verið að hika í mínum skoðunum. Gremja Hönnu Birnu er skiljanleg, þetta er erfitt mál og hún var ekki síður beitt í garð Vilhjálms en meirihlutaaflanna. Þetta var mjög sönn ræða, en auðvitað er hún sár. Það væru það allir í þessum aðstæðum. Þetta var fjarri því einræða gegn meirihlutanum, hún horfði inn á við, sagði frá sinni hlið mála og var ekkert að hika.

Sigurður: Takk kærlega fyrir góð orð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.10.2007 kl. 23:08

4 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Vilhjálmur hefur flotið sofandi að feigðarósi í REI málinu og gerzt sekur um alvarlega vanrækslu. Að bera ítrekað fyrir sig minnisleysi er til merkis um hvað hann hefur að ótrúlega litlu leyti sett sig inn í meginatriði málsins og ekki spurt spurninga um mál sem hann segir núna að hafi verið óljós.

Ég hef það alls ekki á tilfinningunni, og hef aldrei haft,  að VÞV sé á nokkurn hátt óheiðarlegur stjórnmálamaður. Hann komst til æðstu valda í Reykjavík með þolinmæði kattarins en kannski hefur það að mörgu leyti sýnt sig að hann hefur komizt nákvæmlega því eina skrefi of langt sem hann ræður við.
Foringjakreppa sjálfstæðismanna í "Reikjavík" hefur staðið lengi og ekki augljóst að hún leysist í bráð, alla vega sé ég ekki að Hanna Birna breyti þar miklu -þrátt fyrir opinskáan og kraftmikinnn málflutning á ummræddum borgarstjórnarfundi.
Kveðja, -Þ

Þorsteinn Egilson, 17.10.2007 kl. 04:06

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er vonandi ekki við lund kjósenda, að sparka í liggjandi mann.

Það er vonandi ekki til vinsælda fallið, að kenna öðrum um.

Það er sem þorn í síðu heiðarlegs manns, að sök sé færð á þann, sem liggur vel við höggi.

Það er mér kappsmál, að hroki leiði ekki til áhrifa innan míns elskaða Flokks.

Hvað sannast hafa þeir talað, Júlíus Vífill, Kjartan Magnússson og einnig hefur Gísli Marteinn, látið á móti sér, að sparka í Vilhjálm.

Ekkert afsakar flumbruganginn, líkt og kom fram á fundi Borgarstjórnarflokks okkar, sem haldinn var með aðal og varamönnumásamt og með stjórn Fulltrúaráðsins hér í Rvík.  ÞAr mæltu ofanritaðir menn heilt og viðurkenndu á fulltrúa okkar, flumbrugang og ras.

Mér hugnast ekki, þessi aðferð Hönnu Birnu, að víkjast undan en segja ekki frá, úr hvaða haus þessi stórfurðulega hugmynd um snarsölu REI kom. 

Hefðu þessir fulltrúar, sem ég get fullyrt, fengu góð ráð í stöðunni um, að lýsa fundinn ólögmætann og að of margir agnúar væru á málatilbúnaði öllum, til að una þeim ógöngum, sem málið allt var komið í,--væru okkar fulltrúar enn í meirihluta en hinir, úti um allann völl, að leita að hinum pólitíska bolta, hverjum sparkað hefði verið langt út úr spili.

 ÞEir sem lögðu þeim þetta heilræði eru marg marg vésíraðir í pólitíkk.

Ekki var það bara sá sem þetta pikkar, heldur einnig aðrir mun ,,þyngri" pólitískt og raunar í kílóum talið líka.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 17.10.2007 kl. 08:43

6 identicon

Sæll

Ég verð nú að vera ósammála þér með Hönnu Birnu, heldur vill ég vera á þeirri línu að leikur hennar og Gísla Marteins við að ná höggi á gamla góða Villa, hafi fellt meirhlutann.

Það var nú nefnilega þannig að upplýsingar um hvað Villi væri að standa sig ílla og einhverjar viðkvæmar upplýsingar láku úr borgarstjórnarflokki sjálfstæðisflokksins, samkv. fjölmörgum blaðamönnum. Og reyndar ekki möguleiki á því að Björn Ingi hafi gert það, því það væri versti kosturinn í stöðunni að veikja Villa, gegn þeim.

Þau ætluðu að reyna stofna meirihluta án Villa og Björns Inga! Fóru á fund með formanni flokksins og lýstu þar með vantrausti á Villa sem var sá maður sem Björn Ingi treysti mest og þar með vantrausti á meirihlutasamstarfið. Svo ekki sé minnst á það að þau reyndu að stofna meirihluta með Vg og það var á allra manna vörum.

Nei það var Hanna Birna og Gísli Marteinn sem urðu til þess að meirihlutinn féll.

Alex Björn (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 12:13

7 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Vilhjálmur hefur aldrei verið sterkur leiðtogi að mínu mati, ágætiskall og stóð sig vel sem formaður Sambands Sveitarfélaga sem hálfgerður diplómat. Þar starfaði hann með fólki úr öllum flokkum og gekk það vel. Prófið að máta Davíð inn í þessar aðstæður í stað Vilhjálms, hvað niðurstöðu fáið þið úr því?

Hanna Birna nær kannski að stimpla sig inn sem foringi í Rvk með því að hrauna yfir Vilhjálm í öðru orðinu en lýsa svo yfir fullum stuðningi við hann í því næsta, en það á eftir að koma í ljós.

Gísli Sigurðsson, 17.10.2007 kl. 17:07

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ef Hanna Birna þessi er bjartasta vonin, er útlitið vægast sagt svart. Því verður nú ekki trúað að ekki komi eitthvað björgulegra fram fyrir næstu kosningar, fjandinn hafi það.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 17.10.2007 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband