Sjálfstæðismenn í Reykjavík fara yfir sín mál

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Það er eðlilegt að sjálfstæðismenn í Reykjavík fari vel yfir sín mál. Missir meirihlutavaldanna í borginni er enda mesta áfall Sjálfstæðisflokksins í tvo áratugi, eða síðan að Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hentu Þorsteini Pálssyni, þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, út úr forsætisráðuneytinu eftir brösuga samvinnu í þriggja flokka stjórn, sem hlaut söguleg endalok í beinni sjónvarpsútsendingu.

Um er að ræða í senn vonda og erfiða stöðu sem blasir við og sjálfstæðismenn í Reykjavík verða að vinna sig út úr henni. Það er ekki óeðlilegt að við landsbyggðarmenn í flokknum hugleiðum það hvað hafi gerst þar innanborðs síðustu mánuði og eðlilegt fyrir þau að fara yfir það lið fyrir lið. Þetta er of alvarlegt mál fyrir flokkinn á landsvísu til að framhjá því verði litið. Eins og þetta horfir við mér missti leiðtogi hópsins stjórn á honum með vinnubrögðum sínum og í kjölfarið veiktist hópurinn til muna. Þetta er staða sem fá dæmi eru um innan Sjálfstæðisflokksins og því eðlilegt að hún sé bollalögð í grunninn.

Að mínu mati er eðlilegt að gefa flokksmönnum sinn tíma til að fara yfir hvað rétt sé að gera. Það er þó öllum ljóst að leiðtogi borgarstjórnarflokksins hefur tapað stuðningi og tiltrú meðal almennra flokksmanna um allt land, staða hans hefur veikst. Nú verða sjálfstæðismenn í Reykjavík að vega og meta hver styrkur hans sé. Flestir sem ég hef heyrt í telja vonlaust að hann leiði flokkinn í gegnum aðrar kosningar. Er ég sammála því mati. Get ég ekki ímyndað mér annað en að spurt sé um hvenær en ekki hvort hann hætti.

Að mínu mati hafa borgarfulltrúar í öllum flokkum misst tiltrú almennings. Það er gremja í fólki um allt land vegna þess hvernig unnið hefur verið í borgarmálunum. Eftir 16 mánaða forystu í borgarmálunum er það hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að fara aftur í minnihluta. Eftir þau endalok sem við blasa er það umfram allt hlutverk hans nú að endurvinna sér traust og tiltrú almennings.

Sérstaklega hlýtur það að eiga við um leiðtoga hópsins, sem hefur veikst umtalsvert með forystu sinni undanfarnar vikur. Í þeim efnum skiptir engu hvort hann hafi logið að borgarbúum eða hafi ekki unnið vinnuna sína.

mbl.is Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda með stjórnum Sjálfstæðisfélaganna á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Leiðtoginn hefur vissulega veikst en restin af borgarstjórnarflokknum hefur líka málað sig út í horn.  Með fádæma dómgreindarleysi og ótrúlegum klaufagangi hafa fyrrverandi framtíðarleiðtogaefni flokksins skaðað flokkinn og sjálfa sig varanlega.  Tími Gísla Marteins, Hönnu Birnu, Þorbjargar, Júlíusar, Jórunnar og Kjartans er liðinn í íslenskri pólitík.

Þau eru fólkið sem glopraði frá sér borginni með innanhússerjum auk þess sem framkoma þeirra eftir meirihlutaslitin hefur verið eins og í hormónafullum 13 ára unglingahóp þar sem þau hafa kennt öllum um nema sjálfum sér og eru einfaldlega minni einstaklingar eftir en áður.

Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega að finna sér nýjan borgarstjórnarhóp fyrir næstu kosningar.  Það á ekki af flokknum að ganga á þessum vettvangi.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.10.2007 kl. 17:27

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er ekki bara einangrað mál Sjálfstæðisflokksins. Allir flokkar hafa brugðist. Leiðtogi Sjálfstæðisflokksins brást stórlega í upplýsingagjöf til samherja sinna og ég skrifa þessa krísu á að hann sem leiðtogi stóð sig ekki nógu vel. Gremja samherja hans er skiljanleg, enda eru enn að koma upp hliðar þessa máls sem þau höfðu ekki hugmynd um verandi í meirihluta. Hvernig stóðu starfsmenn OR sig í að miðla upplýsingum til borgarfulltrúa?

REI-málið er spillingarmál af verstu sort. Enn koma út skítugar útgáfur þess máls. Björn Ingi Hrafnsson sat í stjórn REI og fylgdist með öllum ákvörðunum og verklaginu. Hverjir björguðu Birni Inga? Í grunninn snýst þetta mál um svo miklu meira en bara innanflokksmál. Allt sem viðkemur REI-málinu er til skammar. Samfylkingin kvittaði upp á 20 ára samninginn, einkaréttarsamningana og samrunann. Ætlar nýr meirihluti að ógilda hluthafafundinn?

Það eru margar spurningar uppi. Þetta mál hefur skaðað alla borgarstjórnina eins og hún leggur sig.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.10.2007 kl. 17:35

3 identicon

Gaman að sjá að þú verð sjallanna. En þetta skaðar sjálfstæðisflokkin mest, get ekki séð hvernig það skaðar, samkv. þínum rökum t.d. Vg og samf. að komast í stjórn.

En sjálfstæðisflokkur fór með stjórn orkuveitunar, sjálfstæðismaðurinn Haukur Leósson og mikil vinur Villa var þar líka í forystu.

sjálfstæðisflokkurinn á þetta klúður með öllu, og ekki bara kenna gamla góða Villa um þetta. Hanna Birna og Gísli Marteinn stóðu sig svo ílla með bakstungum í Villa, kjaftandi slúðri um hann í fjölmiðla, fundndi með formanni flokksins án Villa, reynandi að stofna nýjan meirihluta með Vg á Villa að þið enduðuð í stjórnarandstöðu!  

Alex Björn (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 12:00

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég veit ekki betur en að ég hafi verið mjög gagnrýninn, bæði inn á við og út á við í þessu máli. Það hefur ekki verið töluð nein tæpitunga hér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.10.2007 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband