Skammlífri hjónabandssælu í Elysée-höll lokið

Cecilia og Nicolas Sarkozy Það kemur engum að óvörum að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Cecilia Sarkozy séu að skilja. Það hefur verið ljóst allt frá kjöri forsetans í vor að hjónabandi þeirra væri í raun lokið og þátttökuleysi Ceciliu í forsetakosningunum fyrr á þessu ári voru sterk ábending í þá veru að ekki yrði hjónabandssælan í Elysée-höll langlíf - hún sást ekki þar og kjaftasagan sú að hún hafi ekki einu sinni kosið eiginmanninn, hafi ekki farið á kjörstað.

Þau skildu tímabundið meðan að Sarkozy var innanríkisráðherra og það hafði verið stirt þeirra á milli árum saman - kuldaleg samskiptin í sumar og haust í sviðsljósi forsetaembættisins verið mjög áberandi og augljóst að draga myndi til tíðinda. Enda hafa þau ekki sést saman síðan í júlí. Mesta athygli vakti þetta þegar að Cecilia þáði ekki heimboð Bush-hjónanna til Maine er Sarkozy forseti átti leið um Bandaríkin í heimsókn sem markaði upphaf þíðu milli Bandaríkjanna og Frakklands eftir að Jacques Chirac flutti úr Elysée-höll. Fjarvera Ceciliu Sarkozy var æpandi áberandi.

Þó að hjónabandssæla forsetans hafi verið skammlíf í Elysée-höll verður seint sagt að hann hafi átt í erfiðleikum í þessu valdamikla embætti frá því að hann tók við völdum í maíbyrjun eftir afgerandi kosningasigur. Nicolas Sarkozy hefur notið mikils stuðnings, hins mesta sem nýkjörinn franskur forseti frá valdadögum Charles De Gaulle fyrir hálfri öld og ennfremur nýtur stjórn hans, undir forsæti Francois Fillon, náins pólitísks samstarfsmanns hans í áraraðir, umtalsverðs stuðnings landsmanna. Í júní náði hann sigri ennfremur í þingkosningum og fékk afgerandi umboð til verka frá frönsku þjóðinni.

Eftir innan við hálft ár á forsetastóli í Frakklandi er Nicolas Sarkozy orðinn einn á forsetavakt. Cecilia Sarkozy hefur sagt skilið við embættið sem hún vildi aldrei tilheyra. Hún sagðist alla tíð aldrei munu geta fetað í fótspor Bernadette Chirac - gæti aldrei orðið hin eina sanna forsetafrú Frakka og vildi það hreinlega ekki. Nú er Sarkozy einn eftir í Elysée-höll. Væntanlega munu slúðurblöðin bollaleggja vel á næstunni hversu lengi Sarkozy verði einsetumaður í höllu sinni.

mbl.is Skilnaður Sarkozy-hjónanna staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband