19.10.2007 | 22:32
Deborah Kerr látin
Leikkonan Deborah Kerr er látin, 86 ára að aldri. Kerr setti sterkan svip á kvikmyndasögu gullaldartímans í Hollywood og lék í fjöldamörgum stórmyndum á sínum leikferli og er ein af síðustu stórleikkonum þessa tíma sem kveður þennan heim. Deborah Kerr varð heimsþekkt fyrir túlkun sína á fáguðum og litríkum kvenpersónum hvíta tjaldsins, einkum á fimmta og sjötta áratugnum, jafnan í rómantískum kvikmyndum með mannlegu og notalegu yfirbragði og lék í um 50 kvikmyndum varð m.a. Bond "stelpa" á fimmtugsaldri.
Deborah Kerr fæddist í Helensburgh (rétt við Glasgow) í Skotlandi árið 1921 og var skírð Deborah Jane Kerr-Trimmer. Deborah hóf ung feril sem balletdansari og kom fyrst fram á sviði í alvöru verki á miðjum fjórða áratugnum. Eftir nokkurra ára dansferil snerist hugur hennar til þess að koma sér á framfæri sem leikkona. Frænka hennar, Phyllis Smale, stjórnaði leiklistarskóla í Bristol og kveikti áhuga Deborah á að hún gæti átt framtíðina fyrir sér sem leikkona og ætti að horfa frekar til þess en dansins. Phyllis varð að sjálfsögðu fyrsti leiklistarkennari Deborah og hún hóf fyrstu skrefin út í frægðina undir hennar verndarvæng.
Frumraun Deborah sem leikkonu var árið 1940 í bresku kvikmyndinni Contraband, en hún lék í og með einnig á ferlinum oft á sviði. Öll atriði hennar voru klippt út úr myndinni er yfir lauk, sem olli Deborah gríðarlegum vonbrigðum. Hún fékk næst alvöru tækifæri tveim árum síðar í kvikmyndinni Hatter´s Castle, þar sem hún lék á móti James Mason og Robert Newton. Auk þess lék Deborah þrjú eftirminnileg kvenhlutverk í kvikmyndinni The Life and Death of Colonel Blimp árið 1943 og náði þá fyrstu alvöru athygli í bransanum. Myndin er mörgum gleymd en er ein af perlum hennar eftir það náði hún hægt en örugglega á frægðarbrautina.
Ósvikinn fágaður breskur hreimur og glæsileiki urðu alla tíð aðalsmerki Deborah Kerr og hún hlaut æ fleiri hlutverk út á þá ímynd að vera hin fágaða kona glæsileikans og með þeim hætti var hún markaðssett nær alla tíð í Bandaríkjunum eftir að hún hóf leik þar af alvöru árið 1942 með Penn of Pennsylvania. Í kvikmyndunum I See a Dark Stranger og Perfect Strangers sjást þó væntanlega sterkust merki þessarar lykilímyndar Deborah í upphafi ferilsins sem fylgdi henni eftir það. Aðrar myndir þessa tíma eru t.d. Major Barbara og The Day Will Dawn, allar gerðar á stríðstímanum.
Stóra tækifæri Deborah á ferlinum kom árið 1947 er hún lék systur Clodagh í hinni óviðjafnanlegu kvikmynd Black Narcissus í leikstjórn Michael Powell og Emeric Pressburger, sem höfðu leikstýrt Deborah áður í The Life and Death of Colonel Blimp nokkrum árum áður. Stjarna var fædd að mati kvikmyndagagnrýnenda um gjörvöll Bandaríkin og Deborah Kerr voru allir vegir færir á listabrautinni hafði tekist að ná til stóru kvikmyndaframleiðendanna. Hún lék t.d. bæði á móti Clark Gable í The Hucksters og Walter Pidgeon og Angelu Lansbury í If Winter Comes sama ár.
Deborah hlaut fyrstu tilnefningu sína til óskarsverðlaunanna árið 1949 fyrir öfluga túlkun sína á Evelyn í kvikmyndaútfærslu George Cukor á hinu kraftmikla leikverki Edward, My Son en það hafði slegið í gegn áður á Broadway. Hún glansaði í erfiðu hlutverki Evelyn á móti sjálfum Spencer Tracy sem átti þar ekki síðri leikframmistöðu. Í kjölfarið lék hún Alison í Please Believe Me, Elizabeth í hinni eftirminnilegu King Salomon´s Mines, Lygiu í hinni risavöxnu Quo Vadis (sem tók nokkur ár að gera), Flaviu prinsessu í The Prisoner of Zenda, Catherine í Young Bess og Effie í Dream Wife.
Deborah Kerr lék í einni eftirminnilegustu kvikmynd sinni árið 1953, From Here to Eternity, byggðri á þekktri samnefndri sögu James Jones. Hlutverk Karen Holmes var visst stílbrot hennar frá fyrri kvikmyndum og hún fetaði nýjar slóðir. Myndin þótti djörf á köflum á þess tíma mælikvarða, en sló eftirminnilega í gegn. Lýsir herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941. Deborah lék ófullnægða eiginkonu yfirmanns í hernum sem á í ástarsambandi við undirmann hans, leiknum af Burt Lancaster.
Ástríða þeirra er heit og eitt meginstefanna í myndinni. Í From Here to Eternity er reyndar eitt eftirminnilegasta atriði kvikmyndasögunnar; ástríðufullt faðmlag Deborah og Burt í hlutverkum Karen og Miltons í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau. Að mínu mati var þetta öflugasta kvikmyndahlutverk Deborah og hún hlaut aðra óskarsverðlaunatilnefningu sína. Myndin hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn Fred Zinnemann og sjarmörinn Frank Sinatra og Donna Reed hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Maggio og Ölmu. Myndin hlaut í heildina átta óskarsverðlaun og er ein sterkasta mynd sjötta áratugarins.
Árið 1956 náði Deborah einum hápunkta sinna á leikferlinum með túlkun sinni á ekkjunni Önnu Leonowens sem heldur til Síam til að verða kennslukona barna Mongkuts konungs. Myndin er ein rómaðasta dans- og söngvamynd kvikmyndasögunnar og þekkt fyrir glæsileika frá öllum hliðum og glæsilega túlkun Deborah (sem var tilnefnd til óskarsverðlauna í þriðja skiptið) og Yul Brynner, sem hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á Mongkut á hápunkti ferils síns. The King and I var endurgerð sem Anna and the King árið 1999 með Jodie Foster og Chow Yun-Fat í aðalhlutverki.
Deborah lék ennfremur Söruh Miles í The End of the Affair, byggðri á þekktri ástarsögu Graham Greene, á móti Van Johnson, sem var endurgerð hálfri öld síðar með Julianne Moore. Deborah var að margra mati aldrei betri en sem systir Angela í kvikmynd meistarans John Huston, Heaven Knows, Mr. Allison, árið 1957 og hlaut fyrir hana fjórðu óskarstilnefningu sína. Þar lék hún ein nær alla myndina í gegn á móti Robert Mitchum í hlutverki hermannsins sem nunnan er skipreka með á eyju í Kyrrahafinu. Mjög öflug kvikmynd, er stendur og fellur með glæsilegum leik og minnir að nokkru á aðra mynd Hustons, The African Queen.
Sama ár lék Deborah í hinni eftirminnilegu ástarsögu An Affair to Remember sem færð var í glæsilegan kvikmyndabúning leikstjórans Leo McCarey. Hún lék þar á móti Cary Grant. Segir frá glaumgosa og söngkonu sem kynnast á siglingu um heimsins höf og falla fyrir hvoru öðru. Þau ákveða að hittast nokkrum mánuðum síðar í turni Empire State-byggingarinnar. En sumt fer öðruvísi en ætlað er. Myndin hefur af mörgum verið nefnd eftirminnilegasta ástarsaga hvíta tjaldsins og hefur verið færð upp til skýjanna af þeim sem meta rósrauðar kvikmyndir. Var t.d. fyrirmynd Sleepless in Seattle á tíunda áratugnum.
Árið 1958 lék Deborah í stórfenglegri kvikmynd Delbert Mann, Separate Tables. Þar fór hún enn einu sinni á kostum, þá sem mömmustelpan ástsjúka Sybil sem fellur fyrir majórnum, leiknum af Sir David Niven. Separate Tables er ein af þessum sterku kvikmyndum síns tíma, full af glæsilegum leikframmistöðum og þar er stjarna í hverju hlutverki. Niven hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á majórnum og einnig Dame Wendy Hiller, sem var aldrei betri á löngum ferli sínum en sem Pat. Deborah hlaut fimmtu óskarstilnefningu sína fyrir leik sinn í myndinni.
Síðasta stórmynd Deborah Kerr á ferlinum var The Sundowners, kvikmynd leikstjórans Fred Zinnemann árið 1960. Þar fór hún enn og aftur á kostum, þá í hlutverki Idu Carmody. Þar léku hún og Robert Mitchum aftur saman, þá sem hjón sem lifa sveitalífinu á flakki og dreymir um að eignast eigin jörð og setjast að. Mjög eftirminnileg kvikmynd sem klikkar aldrei. Deborah hlaut sjöttu og síðustu óskarsverðlaunatilnefningu ferilsins fyrir að túlka hina jarðbundnu fjárhirðaeiginkonu. Á næstu árum lék hún í myndum á borð við The Naked Edge, The Chalk Garden, Marriage on the Rocks og The Night of the Iguana.
Frægðarsól Deborah Kerr hneig til viðar eftir því sem leið á sjöunda áratuginn. Árið 1967 náði hún þeim merka áfanga, undir lok leikferilsins, að verða Bond-stelpa, þá orðin 46 ára gömul, í hinni umdeildu en eftirminnilegu Casino Royale. Hún varð ekki ein hinna þekktu Bond-mynda Broccoli-fjölskyldunnar og því um margt allt öðruvísi. Þar lék Deborah bæði Mimi og lafði Fionu á móti Peter Sellers, Woody Allen, Ursulu Andress og mörgum fleiri þekktum leikurum. Casino Royale var þó gerð eftir sögu Ian Fleming en gekk ansi langt í absúrd-isma og var endurgerð mun fágaðri fjórum áratugum síðar með fyrsta ljóshærða Bondinum.
Deborah náði nýjum hæðum er hún kom fram nakin, í fyrsta og eina skiptið á löngum leikferli, í kvikmynd John Frankenheimer, The Gypsy Moths árið 1969. Samkeppnin við yngri leikkonurnar um krefjandi alvöru hlutverk var orðin erfið. Að því kom að hún ákvað að hætta kvikmyndaleik. Hún sneri aftur í ræturnar sínar, kom fram á sviði á Broadway í fjölda leikverka og birtist í sjónvarpsmyndum. Síðasta mynd hennar var sjónvarpsmyndin Hold the Dream árið 1986.
Eins og fram hefur komið hlaut Deborah Kerr aldrei óskarsverðlaunin fyrir leik í kvikmynd, þrátt fyrir að vera af flestum talin ein þeirra bestu á 20. öld. Hún fór þar í flokk frægra leikkvenna og er sennilega ásamt Barböru Stanwyck og Thelmu Ritter hæfileikaríkasta leikkona 20. aldarinnar sem hlaut aldrei óskarinn, þrátt fyrir að vera tilnefnd sex sinnum (jafnoft og Thelma) fyrir ógleymanlegar túlkanir í sönnum stórmyndum.
Til að bæta fyrir það ákvað bandaríska kvikmyndaakademían að heiðra Deborah Kerr loks fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1994. Hún kom fram af glæsileika (felldi reyndar tár er hún var hyllt af viðstöddum) er hún tók við heiðursóskarnum og flutti smellna þakkarræðu. Þetta var síðasta stund hennar í glampa sviðsljóssins í Los Angeles kveðjustund hennar eftir langan og litríkan leikferil sinn.
Deborah Kerr lét sig að mestu hverfa úr sviðsljósinu eftir það. Síðustu æviárin barðist hún við Parkinson-sjúkdóminn og lifði kyrrlátu lífi síðustu árin fjarri skarkala umheimsins, í Suffolk í Bretlandi. Deborah var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood um miðja 20. öldina.
Deborah Kerr fæddist í Helensburgh (rétt við Glasgow) í Skotlandi árið 1921 og var skírð Deborah Jane Kerr-Trimmer. Deborah hóf ung feril sem balletdansari og kom fyrst fram á sviði í alvöru verki á miðjum fjórða áratugnum. Eftir nokkurra ára dansferil snerist hugur hennar til þess að koma sér á framfæri sem leikkona. Frænka hennar, Phyllis Smale, stjórnaði leiklistarskóla í Bristol og kveikti áhuga Deborah á að hún gæti átt framtíðina fyrir sér sem leikkona og ætti að horfa frekar til þess en dansins. Phyllis varð að sjálfsögðu fyrsti leiklistarkennari Deborah og hún hóf fyrstu skrefin út í frægðina undir hennar verndarvæng.
Frumraun Deborah sem leikkonu var árið 1940 í bresku kvikmyndinni Contraband, en hún lék í og með einnig á ferlinum oft á sviði. Öll atriði hennar voru klippt út úr myndinni er yfir lauk, sem olli Deborah gríðarlegum vonbrigðum. Hún fékk næst alvöru tækifæri tveim árum síðar í kvikmyndinni Hatter´s Castle, þar sem hún lék á móti James Mason og Robert Newton. Auk þess lék Deborah þrjú eftirminnileg kvenhlutverk í kvikmyndinni The Life and Death of Colonel Blimp árið 1943 og náði þá fyrstu alvöru athygli í bransanum. Myndin er mörgum gleymd en er ein af perlum hennar eftir það náði hún hægt en örugglega á frægðarbrautina.
Ósvikinn fágaður breskur hreimur og glæsileiki urðu alla tíð aðalsmerki Deborah Kerr og hún hlaut æ fleiri hlutverk út á þá ímynd að vera hin fágaða kona glæsileikans og með þeim hætti var hún markaðssett nær alla tíð í Bandaríkjunum eftir að hún hóf leik þar af alvöru árið 1942 með Penn of Pennsylvania. Í kvikmyndunum I See a Dark Stranger og Perfect Strangers sjást þó væntanlega sterkust merki þessarar lykilímyndar Deborah í upphafi ferilsins sem fylgdi henni eftir það. Aðrar myndir þessa tíma eru t.d. Major Barbara og The Day Will Dawn, allar gerðar á stríðstímanum.
Stóra tækifæri Deborah á ferlinum kom árið 1947 er hún lék systur Clodagh í hinni óviðjafnanlegu kvikmynd Black Narcissus í leikstjórn Michael Powell og Emeric Pressburger, sem höfðu leikstýrt Deborah áður í The Life and Death of Colonel Blimp nokkrum árum áður. Stjarna var fædd að mati kvikmyndagagnrýnenda um gjörvöll Bandaríkin og Deborah Kerr voru allir vegir færir á listabrautinni hafði tekist að ná til stóru kvikmyndaframleiðendanna. Hún lék t.d. bæði á móti Clark Gable í The Hucksters og Walter Pidgeon og Angelu Lansbury í If Winter Comes sama ár.
Deborah hlaut fyrstu tilnefningu sína til óskarsverðlaunanna árið 1949 fyrir öfluga túlkun sína á Evelyn í kvikmyndaútfærslu George Cukor á hinu kraftmikla leikverki Edward, My Son en það hafði slegið í gegn áður á Broadway. Hún glansaði í erfiðu hlutverki Evelyn á móti sjálfum Spencer Tracy sem átti þar ekki síðri leikframmistöðu. Í kjölfarið lék hún Alison í Please Believe Me, Elizabeth í hinni eftirminnilegu King Salomon´s Mines, Lygiu í hinni risavöxnu Quo Vadis (sem tók nokkur ár að gera), Flaviu prinsessu í The Prisoner of Zenda, Catherine í Young Bess og Effie í Dream Wife.
Deborah Kerr lék í einni eftirminnilegustu kvikmynd sinni árið 1953, From Here to Eternity, byggðri á þekktri samnefndri sögu James Jones. Hlutverk Karen Holmes var visst stílbrot hennar frá fyrri kvikmyndum og hún fetaði nýjar slóðir. Myndin þótti djörf á köflum á þess tíma mælikvarða, en sló eftirminnilega í gegn. Lýsir herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941. Deborah lék ófullnægða eiginkonu yfirmanns í hernum sem á í ástarsambandi við undirmann hans, leiknum af Burt Lancaster.
Ástríða þeirra er heit og eitt meginstefanna í myndinni. Í From Here to Eternity er reyndar eitt eftirminnilegasta atriði kvikmyndasögunnar; ástríðufullt faðmlag Deborah og Burt í hlutverkum Karen og Miltons í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau. Að mínu mati var þetta öflugasta kvikmyndahlutverk Deborah og hún hlaut aðra óskarsverðlaunatilnefningu sína. Myndin hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn Fred Zinnemann og sjarmörinn Frank Sinatra og Donna Reed hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Maggio og Ölmu. Myndin hlaut í heildina átta óskarsverðlaun og er ein sterkasta mynd sjötta áratugarins.
Árið 1956 náði Deborah einum hápunkta sinna á leikferlinum með túlkun sinni á ekkjunni Önnu Leonowens sem heldur til Síam til að verða kennslukona barna Mongkuts konungs. Myndin er ein rómaðasta dans- og söngvamynd kvikmyndasögunnar og þekkt fyrir glæsileika frá öllum hliðum og glæsilega túlkun Deborah (sem var tilnefnd til óskarsverðlauna í þriðja skiptið) og Yul Brynner, sem hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á Mongkut á hápunkti ferils síns. The King and I var endurgerð sem Anna and the King árið 1999 með Jodie Foster og Chow Yun-Fat í aðalhlutverki.
Deborah lék ennfremur Söruh Miles í The End of the Affair, byggðri á þekktri ástarsögu Graham Greene, á móti Van Johnson, sem var endurgerð hálfri öld síðar með Julianne Moore. Deborah var að margra mati aldrei betri en sem systir Angela í kvikmynd meistarans John Huston, Heaven Knows, Mr. Allison, árið 1957 og hlaut fyrir hana fjórðu óskarstilnefningu sína. Þar lék hún ein nær alla myndina í gegn á móti Robert Mitchum í hlutverki hermannsins sem nunnan er skipreka með á eyju í Kyrrahafinu. Mjög öflug kvikmynd, er stendur og fellur með glæsilegum leik og minnir að nokkru á aðra mynd Hustons, The African Queen.
Sama ár lék Deborah í hinni eftirminnilegu ástarsögu An Affair to Remember sem færð var í glæsilegan kvikmyndabúning leikstjórans Leo McCarey. Hún lék þar á móti Cary Grant. Segir frá glaumgosa og söngkonu sem kynnast á siglingu um heimsins höf og falla fyrir hvoru öðru. Þau ákveða að hittast nokkrum mánuðum síðar í turni Empire State-byggingarinnar. En sumt fer öðruvísi en ætlað er. Myndin hefur af mörgum verið nefnd eftirminnilegasta ástarsaga hvíta tjaldsins og hefur verið færð upp til skýjanna af þeim sem meta rósrauðar kvikmyndir. Var t.d. fyrirmynd Sleepless in Seattle á tíunda áratugnum.
Árið 1958 lék Deborah í stórfenglegri kvikmynd Delbert Mann, Separate Tables. Þar fór hún enn einu sinni á kostum, þá sem mömmustelpan ástsjúka Sybil sem fellur fyrir majórnum, leiknum af Sir David Niven. Separate Tables er ein af þessum sterku kvikmyndum síns tíma, full af glæsilegum leikframmistöðum og þar er stjarna í hverju hlutverki. Niven hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á majórnum og einnig Dame Wendy Hiller, sem var aldrei betri á löngum ferli sínum en sem Pat. Deborah hlaut fimmtu óskarstilnefningu sína fyrir leik sinn í myndinni.
Síðasta stórmynd Deborah Kerr á ferlinum var The Sundowners, kvikmynd leikstjórans Fred Zinnemann árið 1960. Þar fór hún enn og aftur á kostum, þá í hlutverki Idu Carmody. Þar léku hún og Robert Mitchum aftur saman, þá sem hjón sem lifa sveitalífinu á flakki og dreymir um að eignast eigin jörð og setjast að. Mjög eftirminnileg kvikmynd sem klikkar aldrei. Deborah hlaut sjöttu og síðustu óskarsverðlaunatilnefningu ferilsins fyrir að túlka hina jarðbundnu fjárhirðaeiginkonu. Á næstu árum lék hún í myndum á borð við The Naked Edge, The Chalk Garden, Marriage on the Rocks og The Night of the Iguana.
Frægðarsól Deborah Kerr hneig til viðar eftir því sem leið á sjöunda áratuginn. Árið 1967 náði hún þeim merka áfanga, undir lok leikferilsins, að verða Bond-stelpa, þá orðin 46 ára gömul, í hinni umdeildu en eftirminnilegu Casino Royale. Hún varð ekki ein hinna þekktu Bond-mynda Broccoli-fjölskyldunnar og því um margt allt öðruvísi. Þar lék Deborah bæði Mimi og lafði Fionu á móti Peter Sellers, Woody Allen, Ursulu Andress og mörgum fleiri þekktum leikurum. Casino Royale var þó gerð eftir sögu Ian Fleming en gekk ansi langt í absúrd-isma og var endurgerð mun fágaðri fjórum áratugum síðar með fyrsta ljóshærða Bondinum.
Deborah náði nýjum hæðum er hún kom fram nakin, í fyrsta og eina skiptið á löngum leikferli, í kvikmynd John Frankenheimer, The Gypsy Moths árið 1969. Samkeppnin við yngri leikkonurnar um krefjandi alvöru hlutverk var orðin erfið. Að því kom að hún ákvað að hætta kvikmyndaleik. Hún sneri aftur í ræturnar sínar, kom fram á sviði á Broadway í fjölda leikverka og birtist í sjónvarpsmyndum. Síðasta mynd hennar var sjónvarpsmyndin Hold the Dream árið 1986.
Eins og fram hefur komið hlaut Deborah Kerr aldrei óskarsverðlaunin fyrir leik í kvikmynd, þrátt fyrir að vera af flestum talin ein þeirra bestu á 20. öld. Hún fór þar í flokk frægra leikkvenna og er sennilega ásamt Barböru Stanwyck og Thelmu Ritter hæfileikaríkasta leikkona 20. aldarinnar sem hlaut aldrei óskarinn, þrátt fyrir að vera tilnefnd sex sinnum (jafnoft og Thelma) fyrir ógleymanlegar túlkanir í sönnum stórmyndum.
Til að bæta fyrir það ákvað bandaríska kvikmyndaakademían að heiðra Deborah Kerr loks fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1994. Hún kom fram af glæsileika (felldi reyndar tár er hún var hyllt af viðstöddum) er hún tók við heiðursóskarnum og flutti smellna þakkarræðu. Þetta var síðasta stund hennar í glampa sviðsljóssins í Los Angeles kveðjustund hennar eftir langan og litríkan leikferil sinn.
Deborah Kerr lét sig að mestu hverfa úr sviðsljósinu eftir það. Síðustu æviárin barðist hún við Parkinson-sjúkdóminn og lifði kyrrlátu lífi síðustu árin fjarri skarkala umheimsins, í Suffolk í Bretlandi. Deborah var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood um miðja 20. öldina.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Aftur og aftur kemurðu manni á óvart með snilli þinni um Kvikmyndir og leikara/við sem sáum mikið af leikkonunni gerum okkur vel ljóst hvað þetta var frábær listamaður,en komum ekki orðum að því sem þú gerir/ þakka þetta/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 19.10.2007 kl. 22:55
Takk kærlega fyrir góð orð Halli um greinina. Gott að þú hafðir gaman af að lesa.
bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson, 19.10.2007 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.