Er Tony Blair á leið til Brussel?

Tony Blair Það kemur ekki að óvörum að sögusagnir hermi að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, verði fyrsti forseti Evrópusambandsins. Allt frá því að Blair hvarf af hinu pólitíska sviði í júní eftir áratug í Downingstræti hefur hann verið nær ósýnilegur. Val á honum sem sáttasemjara kvartettsins í Mið-Austurlöndum hefur ekki markað hann sem lykilspilara á alþjóðavettvangi af þeim skala sem stjórnmálaleiðtogar, og væntanlega hann sjálfur, ætluðu sér. Til þess er hann bæði of umdeildur og vald hans einfaldlega ekki nógu mikið í slíku embætti.

Það hefur lengi verið talað um það hvort að Tony Blair myndi enda sem einskonar alþjóðaforseti Evrópusambandsins. Sá orðrómur hefur staðið meira og minna frá árinu 2004, er þess sáust fyrst merki að Blair ætlaði ekki að leiða Verkamannaflokkinn í fjórðu þingkosningarnar í röð. Hann var allan valdaferil sinn mikill talsmaður ESB-samstarfsins og var annt um þann vettvang, mun frekar en Gordon Brown væntanlega. Örlögin höguðu því einmitt svo til að síðasti blaðamannafundur Blairs á valdaferlinum var einmitt í Brussel, rúmum sólarhring áður en hann lét af leiðtogaembætti í flokknum, helgina áður en hann sagði af sér.

Það voru mikil viðbrigði fyrir Tony Blair að hætta sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi, eflaust mun meiri en hann gerði sér grein fyrir. Það hefur verið öllum ljóst að sviðsljós fjölmiðla hefur ekki verið mikið á honum í nýju hlutverki. Staðan sem hann gegnir hefur ekki verið það hlutverk aðalleikara á alþjóðavettvangi sem hann eflaust taldi að fylgdi titlinum. Fjölmiðlar hafa mjög lítið fjallað um verkefni hans og umfram allt skortir honum alvöru völd til að gera eitthvað stórvægilegt. Í ofanálag er Blair of markaður sögulega af miklum hitamálum til að vera einhver allsherjarreddari á þessu svæði. Það hefur umfram allt sést af stöðu mála eftir að Blair tók við embættinu.

Skarð Blairs var mjög mikið fyrir breska fjölmiðla sérstaklega, enda hafa þeir lengi hossað honum, sérstaklega fyrir Íraksstríðið og sumir allt til endalokanna meira en aðrir. Blair hefur verið maður sviðsljóssins, tilbúinn til að gera allt fyrir spinnið, plottið og myndavélablossana. Athyglin hefur líka verið honum mikilvæg. Brown er maður annarrar gerðar, hann er mikill hugsuður en um leið meiri pólitíkus á bakvið tjöldin og er mun litlausari sem persóna en hinn litríki Blair sem sjarmeraði Breta fyrir áratug og var lengi vel dálæti þeirra, stolt og yndi. Eða allt þar til að hans glampi hvarf með sprengjublossunum í Bagdad.

Það er því ekki óeðlilegt að Blair horfi til Brussel til að fá pláss við sitt hæfi, að eigin mati, og flestir þjóðarleiðtogar ESB-landanna kannast vel við Blair, enda hefur hann starfað með þeim flestum. Það verður áhugavert að sjá hvort að Blair muni enda sem allsherjarhöfðingi í Evrópu með aðsetur í Brussel og yfirgefa hið valdalitla embætti sem hann hefur gegnt frá flutningunum úr Downingstræti.

mbl.is Blair kann að verða fyrsti forseti Evrópusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik !

Jah,..... það væri þá kórónan; á sköpunarverki Stór- Þýzku heimsvalda sinnanna, að verðlauna Bush kjölturakkann, með því móti.

Sérðu fyrir þér tryllingsleg gleðiviðbrögð Samfylkingar fólksins, Stefán minn ? 

Með beztu kveðjum; norður yfir heiðar / Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 22:48

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Óskar Helgi. Algjörlega sammála þessu, skil ekki þetta forsetatal. Þetta er egómont Brussel-kjarnans og á að vera eitthvað hlægilegt mótvægi við Bandaríkin, marka Evrópu sem USA-ríkjasamsetningu. Ekki geðslegt í sannleika sagt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.10.2007 kl. 23:01

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ég hef alltaf kunna vel við Tony Blair.  Veit ekki af hverju. 

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 23.10.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband