Ljóstrað upp um litríka fortíð Leonardo DiCaprio

Leonardo DiCaprio Jæja, þá er leikarinn Russell Crowe búinn að ljóstra því upp að Leonardo DiCaprio var enn hreinn sveinn sautján ára gamall, sennilega við lítinn fögnuð leikarans margfræga. Það hefur ekki beinlínis farið það orð af Leonardo síðasta áratuginn að honum vanti kvenfólk, hann hefur frekar átt erfitt með að raða niður tækifærunum fyrir þær konur sem hafa viljað vera við hans hlið, allt frá því að hann náði heimsfrægð fyrir rúmum áratug.

Leonardo er okkur vel þekktur. Hann varð Íslandsvinur á árinu meira að segja, þegar að hann fetaði í fótspor James Bond, í túlkun Roger Moore í A View To a Kill árið 1985 og Pierce Brosnan í Die Another Day árið 2002, í því að fara á Jökulsárlón. Ekki þó til að leika í kvikmynd, heldur í myndatöku fyrir glansritið Vanity Fair. DiCaprio er sannarlega mjög þekktur leikari. Hann hefur þó ungur sé verið tilnefndur þrisvar til óskarsverðlauna fyrir leik, síðast fyrir Blood Diamond á óskarsverðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári. Hann var áður tilnefndur fyrir The Aviator og What´s Eating Gilbert Grape?

Þekktasta mynd DiCaprio er þó án nokkurs vafa Titanic, mynd um ástir og örlög á skipinu sögufræga sem sökk til botns fyrir tæpri öld. Mikil og stór mynd um sögu skipsins sem átti ekki að geta sokkið en sökk þó í jómfrúrferðinni sinni. Sú mynd sló í gegn á sínum tíma og er ein vinsælasta kvikmynd sögunnar. Hún verður tíu ára á þessu ári. Hún hlaut 14 óskarsverðaunatilnefningar og 11 verðlaun, sem er hið mesta í sögu verðlaunanna, jafnmikið og Ben-Hur hlaut áður, árið 1959, og The Lord of the Rings: The Return of the King, hlaut síðar, árið 2003. DiCaprio hlaut ekki einu sinni leiktilnefningu fyrir túlkun sína á Jack Dawson í myndinni, sem olli áralangri fýlu hans við akademíuna.

Vinsælasta mynd DiCaprio í seinni tíð hlýtur að teljast The Departed, kvikmynd leikstjórans Martin Scorsese, sem færði leikstjóranum langþráðan leikstjóraóskar og hlaut ennfremur óskarinn sem besta kvikmynd ársins 2006. DiCaprio sýndi góða takta en hlaut þó frekar leiktilnefningu fyrir Blood Diamond en hana, þó ég geti reyndar fullyrt að Blood Diamond sé úrvalsmynd. Flestir töldu að DiCaprio fengi leikaraóskarinn fyrir tveim árum fyrir túlkun sína á auðjöfrinum Howard Hughes í The Aviator en þá tapaði hann fyrir Jamie Foxx sem túlkaði Ray Charles með bravúr. Enn á hann því eftir að vinna þessi eftirsóttu verðlaun. Hann hefur nú gert þrjár myndir með Scorsese.

Hvort að hann þurfi að bíða jafnlengi eftir verðlaununum og uppáhaldsleikstjórinn hans, sem hefur gefið honum bestu leiktækifærin undanfarin ár, skal ósagt látið. En nú fer hann í sviðsljósið fyrir sveindóminn margfræga. Einhver mun eflaust spyrja hann hinnar sígildu og margtuggnu spurningar um hvenær hann hafi misst sveindóminn eftir þessa uppljóstrun.

mbl.is Var hreinn sveinn 17 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður alveg að viðurkennast að mér gæti ekki verið meira sama um þessa ágætu menn eða hvort þeir hafi komist yfir kvenmann yfirleitt. Mér sýnist þó greinilegt að umræddur Russell sé smákarl sem finni til í sálinni og reyni að upphefja sjálfan sig á kostnað annars manns. Sem mér finnst reyndar vera vindhögg, því mér finnst bara ekkert fyrir Leonardo þennan að skammast sín fyrir að hafa ekki sett í konu fyrr en sautján ára.

Það er nú einhvernvegin þannig, þegar öllu er á botninn hvolft, að enginn gerir lítið úr manni nema maður sjálfur. Reyni maður að gera lítið úr öðrum, hittir það mann ávallt sjálfan.

Brjánn Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband