Ár til forsetakosninga í Bandaríkjunum

White House Ár er í dag þar til að 44. forseti Bandaríkjanna, eftirmaður George Walker Bush, verður kjörinn. Kosningabaráttan er löngu hafin af fullri alvöru og aðeins eru rúmir tveir mánuðir í að forkosningar stóru flokkanna hefjist af krafti. Baráttan er galopin, enda fyrstu forsetakosningarnar frá 1952 þar sem hvorki sitjandi forseti né varaforseti eru í kjöri um sjálft embættið og fyrstu kosningarnar frá 1928 þar sem hvorugur tekur þátt í forkosningum. Þetta verða því sögulegar kosningar hvernig sem fer.

Það blasir orðið nokkuð vel við að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður í New York og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, verði forsetaframbjóðandi demókrata. Hún nýtur um eða yfir 20% forskots á aðra frambjóðendur flokksins. Það er mjög afgerandi forskot. En það er ekkert öruggt í þessum efnum, eins og Howard Dean mátti reyna fyrir fjórum árum. Hann hélt inn í desembermánuð 2003 með mikið forskot, og fékk þá meðal annars afgerandi stuðning Al Gore, en missti forskotið fljótt á árinu 2004 og varð að játa sig sigraðan. En staða Hillary er mjög vænleg.

Baráttan verður hörð hjá repúblikunum. Fátt öruggt í slag þeirra. Þó hefur Rudy Guiliani, fyrrum borgarstjóri í New York, verið með forskot í könnunum þeirra á meðal mjög lengi og virðist hafa sterka stöðu. Hann er þó mjög umdeildur hjá hægrisinnuðustu flokksmönnum og erfitt að spá um hvað gerist þegar að fækka tekur í hóp frambjóðenda og baráttan verður að slag tveggja til þriggja, enda blasir við að fækka mun mjög hratt eftir fyrstu forkosningarnar. Flestir búast við hörðum slag einkum Fred Thompson, Mitt Romney og John McCain við Giuliani. Það verður mjög áhugavert að sjá hverjir missa fyrst af lestinni og hverjir verða raunhæfir keppinautar Giuliani um hnossið.

Fyrir sjö árum stefndi flest í að Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani myndu berjast hatrammlega um öldungadeildarþingsæti Patrick Moynihan í New York. Vegna veikinda Giulianis gaf hann ekki kost á sér er á hólminn kom og Hillary vann Rick Lazio með nokkrum yfirburðum og hlaut endurkjör fyrir ári. Kannanir benda nú eindregið til þess að þau verði í kjöri um forsetaembættið eftir ár. En ár er langur tími í stjórnmálum. Það er víst óhætt að segja.

Heilt yfir stefnir í breytingar. George W. Bush, fráfarandi forseti, hefur verið umdeildur, ekki síður innan eigin flokks eftir tapið í þingkosningunum fyrir ári. Flestir frambjóðendur repúblikana nú hafa reynt allt til að fjarlægja sig forsetanum og stefnir því flest til að Bandaríkjamenn kjósi um hreint borð eftir ár og nýja valkosti úr báðum áttum. Það stefnir í spennandi kosningar og sannarlega áhugavert ár framundan í bandarískum stjórnmálum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætla að leyfa mér að segja að Rudy Guiliani muni sigra á næsta ári. Ekki það að ég haldi með honum, heldur tel ég að bandaríkjamenn séu ekki tilbúnir að fá konu eða svertingja í embættið. Þegar á hólminn verður komið þá vinnur hann.

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 21:35

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, eins og staðan er núna sé ég ekki annað en að Rudy verði frambjóðandi repúblikana. Hann yrði líka forsetaefni nýrra tíma hjá repúblikunum að mínu mati. Er mun frjálslyndari og líbó en Bush. Þetta verða spennandi kosningar. Verður þrusugaman að sjá einvígi Rudy og Hillary.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 22:35

3 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég tel reyndar að Rudy eigi ekki séns á forsetaembæti, vegna þess að hann hefur ekki nægilegan mikin stuðning í Bíblíubeltinu. Þar eru margir sem geta ekki hugsað sér að kjósa eins frjálslyndan mann eins og Rudy. Ég spái því að það verður trúaður maður sem fari mótframboð. Þessi öfl sem hafa haft tögl og haldir þarna vestra geta ekki hugsað sér að missa völdinn.

Ingi Björn Sigurðsson, 5.11.2007 kl. 10:59

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það sem mér efst í huga er eftirsjá í George W. Bush úr þessu embætti og vona ég fyrir hönd bandaríkjamanna að þeir sitji ekki uppi með Hillary.

Óðinn Þórisson, 5.11.2007 kl. 11:57

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

maður verður að vona að Frú Hillary Clinton vinni þetta,það er að segja, ef lýðræðið virkar/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.11.2007 kl. 12:36

6 identicon

Ingi, Hver er Mótframbjóðandinn John mcain, hann er ekki nógu öflugur. honum vantar þennan x faktor. Rudy nær að sigra sem frambjóðandi Reblúblikana og seinna meir forsetann. Hvað heldur þú að biblíubeltið geri þegar frambjóðandi demókrata er kona eða svertingi. Rudy er með gífulegan stuðning frá báðum áttum, einfaldega út af því hvernig hann hagaði sér 11. september, þegar hann var borgarstjóri New York. Ég held að biblíubeltið sé minnsta áhyggjuefni hans. Þrátt fyrir það sem Bush hefur gert þá horfa bandaríkjamenn allt öðruvísi á Rudy. að sjálfsögðu er Bush ekki Rudy til framdráttar, en hann mun sigra þrátt fyrir Bush.

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 17:26

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ingi: Það kemur enginn nýr frambjóðandi úr þessu fram, nema þá auðvitað að hann sé óháður og utan stóru flokkanna. Það þarf rosalegan grunn, peninga og mikla maskínu, í að fara í framboð vestanhafs fyrir flokkana og það er ljóst hverjir fara fram þar. Mörgum þótti Fred Thompson seinn að koma fram í september og ef hann tapar dampi þá er það vegna þess. Hallast að því að Mitt Romney og Fred Thompson muni veita Giuliani harðasta keppni. Held að John McCain sé einfaldlega búinn að vera. Hann er kominn á áttræðisaldur og að margra mati á síðasta snúning.

Óðinn: Þó Bush hafi verið umdeildur er saga hans mjög mögnuð. Ótrúlega sterk maskína á bakvið hann og forsetaferill hans verður sögulega merkilegur sama hvað mönnum finnst um hann sjálfan.

Halli: Hillary er mjög sterk kona, hún er langframbærilegasti fulltrúi demókrata og verður áhugavert að sjá hana í slagnum og hversu mikla möguleika hún eigi.

Óli: Já, ég held að Rudy muni ná þessu. Hann hefur sterkan grunn og fjölmiðlasjarma sem hjálpar honum. En þetta er brothætt þó. Það er ekkert öruggt. Verður spennandi að sjá hvernig slagurinn verður þegar að Rudy verður eftir með einum keppinaut. Þá gæti hægrisinnaðasta liðið ráðið úrslitum, þ.e.a.s. ef það finnur valkost í öðrum sterkum. Sá líklegasti í það er Thompson.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.11.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband