Margrét Frímannsdóttir hættir í stjórnmálum

Margrét Frímannsdóttir

 

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og síðasti formaður Alþýðubandalagsins, tilkynnti á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í dag um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Það eru stórtíðindi að Margrét hætti í stjórnmálum. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar frá 2004. Hún hefur leitt framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi.

Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.

Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Margrét Frímannsdóttir

 

Margrét greindist með krabbamein skömmu eftir prófkjörssigur sinn í Suðurkjördæmi í ársbyrjun 2003. Meginhluta kosningabaráttunnar var hún í meðferð við því meini en tók þátt í kosningabaráttunni undir lokin. Rétt eins og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, gerði í veikindum sínum, vafði hún túrban um höfuðið til að hylja hárleysið. Hún stóð sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður. Hvernig hún tókst á við erfiða kosningabaráttu í skugga veikinda árið 2003 var mikill persónulegur sigur hennar. Það er öllum ljóst að Margrét hefur verið gríðarlegt akkeri Samfylkingarinnar. Þó hefur öllum verið ljóst að samstarf hennar og Ingibjargar Sólrúnar hefur verið mjög stirt, frá kjöri ISG í formannsstólinn og þeim tíma er hún eiginlega allt að því neyddist til að fórna varaformennsku flokksins fyrir ISG eftir að hún var hrakin úr borgarstjórastól.

Reyndar eru miklar breytingar nú að eiga sér stað innan flokksins. Auk Margrétar hafa þau Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir tilkynnt að þau gefi ekki kost á sér aftur í þingkosningum. Á kjörtímabilinu hættu auk þess bæði Guðmundur Árni Stefánsson og Bryndís Hlöðversdóttir þingmennsku. Það leikur enginn vafi á því að það veikir verulega Samfylkinguna að missa svona marga forystumenn á einu bretti, enda voru þetta allt leiðtogar innan flokksins með miklar sögulegar tengingar fyrir þennan unga flokk.

En ákvörðun Margrétar er áfall fyrir Samfylkinguna, sem sannar sig best í því að landsþing UJ samþykkti í dag áskorun á Margréti um að fara aftur fram og minnt á að ef hún hætti hefði það veruleg áhrif á stöðu flokksins t.d. í Suðurkjördæmi.


mbl.is Margrét Frímannsdóttir hyggur ekki á áframhaldandi þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar R. Jónsson

Sæll,

Rakst hingað inn fyrir tilviljun. Gott að sjá að þú sért kominn yfir á "málgagnið" -að hluta til hið minnsta.

kv, Gunnar R.

Gunnar R. Jónsson, 17.9.2006 kl. 20:46

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er ágætt að kanna þennan möguleika. Nú verður maður að sjá til hvað gerist. Ég hef bloggað á sama stað í fjögur ár, svo að það eru viss tæknileg atriði framundan hjá mér. En já, þetta er allavega vettvangur sem verður virkjaður héðan í frá. Það þarf smáfíniseringar á næstu dögum og þá verður þetta fínt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.9.2006 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband