Fogh áfram forsætisráðherra í Danmörku

Anders Fogh Rasmussen Það er nú ljóst að hægristjórnin í Danmörku hefur haldið velli og Anders Fogh Rasmussen verður áfram forsætisráðherra. Hann er fyrsti leiðtogi Venstre sem hlýtur umboð sem forsætisráðherra þrisvar og Venstre er ennfremur stærsti flokkurinn í Danmörku þriðju kosningarnar í röð. Merkilegur árangur og sannarlega sögulegur. Jafnaðarmannaflokkurinn var í rúm áttatíu ár stærsti flokkurinn í dönskum stjórnmálum og drottnaði þar yfir. Það er óhætt að segja að það sé á bak og burt.

Það vekur athygli að kjör Edmunds Joensen, fyrrum lögmanns Færeyinga, á danska þingið tryggir sigur hægriblokkarinnar í Danmörku. Þetta er ekki ósvipað og því er Poul Nyrup Rasmussen hélt velli sem forsætisráðherra í þingkosningunum 1998 á atkvæðum frá Færeyjum. Þá munaði rétt um 100 atkvæðum að hinn litríki forystumaður Venstre, Uffe Ellemann Jensen, utanríkisráðherra í tíð borgaralegu stjórnarinnar 1982-1993, yrði forsætisráðherra. Það greiddi leiðina fyrir innkomu Fogh sem leiðtoga Venstre og hann hefur nú markað spor í danska stjórnmálasögu á þessu kvöldi.

Þó að naumt hafi staðið með stjórnina er yfir lauk má segja með sanni að Fogh hafi sterkasta umboðið til að stjórna í Danmörku er úrslitin liggja fyrir. Þó að Helle Thorning Schmidt hafi sett mark sitt á baráttuna tapar Jafnaðarmannaflokkurinn fylgi undir hennar stjórn, frá kosningunum 2005 er Mogens Lykketoft fékk sinn séns. Þetta er versta útkoma Jafnaðarmannaflokksins danska. Eins og ég sagði hér fyrr í kvöld er það mikið áfall fyrir kratana og þeir hljóta að hugsa mikið á þessu kvöldi. Hefðu þeir bætt einhverju við sig hefðu þeir getað staðið uppi sem sigurvegarar og jafnvel getað náð tökum á stjórnarmyndun hefði tæpar staðið. En svo fór ekki.

Vinstrimennirnir í SF eru stærstu sigurvegarar kosninganna, fyrir utan hægriblokkina sem heldur völdum þriðju kosningarnar í röð. Þeirra árangur er sannarlega glæsilegur og mikil fylgisaukning staðreynd. Þeir eru enda glaðir á þessu kvöldi, fagna fyrir alla vinstriblokkina í heild sinni. Ekki geta kratarnir brosað allavega á þessu kvöldi. Helle hafði viðurkennt ósigur nokkuð snemma í kvöld, enda ljóst að hún yrði ekki forsætisráðherra og umboð kratanna veikst frá síðustu kosningum sem þóttu það slæmar að Lykketoft hrökklaðist frá. Helle fær þó greinilega annan séns, þó marin sé eftir kosningarnar.

Fogh tók auðvitað mikla áhættu með að flýta kosningum. Það er ekkert gefið í þessum efnum þó kosningabaráttan sé stutt, aðeins þrjár vikur. Það fékk Poul Nyrup Rasmussen að reyna fyrir sex árum, þar sem hann notaði tímabundna uppsveiflu sem ástæðu til að flýta kosningum. Sú áhætta var dýrkeypt og hann horfði á eftir völdunum til Fogh. Þó Fogh standi eftir áfram sem forsætisráðherra er meirihlutinn tæpur og gætu verið spennandi ár framundan. Tel að það verði ekki svo langt í næstu kosningar altént.

En það er vissulega ánægjulegt fyrir Dani að geta tekið kosningar með trompi með þessum hætti, tekið slaginn á aðeins þrem vikum. Þetta er eitthvað allt annað en hérna heima þar sem kosningabaráttan stendur meira og minna í 8-9 mánuði.

mbl.is Joensen tryggir Fogh meirihluta á danska þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó ég sé (skiljanlega) með öðruvísi vinkil á minni bloggsíðu þá er þetta góð greining hjá þér. En annað mál vil ég vekja hér upp enda margir lesa: Hvernig í ósköpunum erum við að telja atkvæði fram undir morgun á meðan Danir gera þetta á 2 klst. ? Ég geri mér sannarlega að það taki tíma að safna saman atkvæðum úr dreifbýli Íslands en ég er að tala um þéttbýli s.s. höfuðborgarsvæðið. Eigum við að senda teljara á námskeið í Danmörku?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 10:10

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Gísli. Held já að þetta sé heiðarlegt mat. Þó að Fogh tapi fylgi er hann sigurvegari kvöldsins, þ.e. að stjórnin haldi velli er sögulegt og að Venstre sé áfram stærsti flokkur landsins. Svo er það áfall fyrir kratana að tapa enn fylgi. Hefði Helle bætt einhverju við sig hefði hún getað markað sig sem sigurvegara. Hún er það þó ekki. Helle fór þó annan séns í næstu kosningum. SF er stóri sigurvegarinn í fylgi, eini vinstriflokkurinn sem gat virkilega fagnað. Alveg sammála með talninguna. Danir eru snillingar í þessu. Getum lært mikið af þeim.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.11.2007 kl. 16:19

3 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Pabbi minn er formaður yfirkjörstjórnar í Fjarðabyggð og því fylgdist ég mikið með kosningunum bæði í ár og einnig sveitastjórnakosningunum í fyrra. Ég komst að því að þetta tekur allt dágóðan tíma, það þarf að sækja kassana, innsigla þá, koma þeim í flug/láta lögregluna aka þeim (til akureyrar í mínu tilfelli) sem tekur dágóðan tíma, og svo er eftir að telja kjörseðlana.

Mér finnst persónulega meira gaman þegar þetta tekur langan tíma og spennan helst lengi.

Auðbergur D. Gíslason

14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 14.11.2007 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband