Rússíbanalíf Erics Claptons

Eric Clapton Það verður ekki um það deilt að Eric Clapton er einn besti tónlistarmaður síðustu áratuga, goðsögn í lifanda lífi. Hann var hinsvegar ekki beint dýrlingur á æskuárum sínum. Sögusagnir af líferni hans hafa jafnan verið skrautlegar og almenningur haft á því mikinn áhuga. Hann hefur hinsvegar þroskast mikið í gegnum lífið og eiginlega varla hægt að trúa því að sami maður hafi sungið bæði Cocaine og Tears in Heaven. Andstæðurnar í tónlist hans verða varla meiri að mörgu leyti.

Clapton hefur verið goð sinnar kynslóðar og að svo mörgu leyti annarra. Auðvitað ekki vegna lífstílsins, heldur umfram allt tónlistarinnar. Annars held ég að saga allra rokkgoða á hans skeiði sé mörkuð óreglu og háleitu líferni, þar var lifað hátt og lifað lifandi. Öll munum við eftir Hendrix, Morrison, Joplin, Jagger og svona mætti lengi telja. Sögurnar af líferni Presleys og Bítlanna hafa líka þótt áhugaverðar. Þetta var bara standardinn á þessum tíma.

Aldrei hefur Clapton þó snortið mig og eflaust fleiri meira en þegar að hann samdi og söng hið undurljúfa lag sitt Tears in Heaven - þar braust rokkgoðið harða og ákveðna allt að því fram með tárin í augunum og samdi kveðjuóð til sonar síns, Connors, sem hafði látist með sorglegum hætti í New York. Þar fór lífsreyndi rokkarinn með tilfinningar, eins og við öll, en líka faðirinn með ábyrgðartilfinninguna sem hafði boðskap fram að færa - talaði hreint út, lét tilfinningarnar koma óhikað. Og lagið er einstakt.

Annars er erfitt að nefna bestu lög Claptons, en þau sem koma helst í huga mér eru lög á borð við; Layla, Tears in Heaven, Crossroads, Bellbottom Blues, Have You Ever Loved A Woman, Badge, Cocaine, I Shot the Sheriff, My Father´s Eyes, Change the World, Old Love og Wonderful Tonight. Allt perlur rokksögunnar að sínu leyti, minnisvarði um rokkgoð.

Clapton lifði í rússíbana árum saman, öll vitum við það. Það er ekkert nýtt að koma fram í þessari frétt. En hann er einn þeirra sem hefur samið hrátt og sterkt eftirminnileg lög, sem þekja allan skalann, eru eftirminnileg, ekkert síður en karakterinn á bakvið lögin.

mbl.is Áhrifaríkt kynlíf Claptons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband