Prófkjör í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Það stefnir í spennandi tíma í stjórnmálunum í Norðausturkjördæmi. Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur nú samþykkt tillögu um að leggja til að prófkjör verði haldið til að velja frambjóðendur flokksins á framboðslistanum fyrir kosningarnar að vori og sú tillaga verður lögð fyrir kjördæmisþing um miðjan október. Það er fyrir löngu kominn tími til að hér verði haldið prófkjör og ég fagna því að svo verði nú, enda blasir við að tillaga stjórnarinnar verður samþykkt. Ekki hefur verið prófkjör meðal sjálfstæðismanna í landsmálum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987. Prófkjör var í gamla Austurlandskjördæmi við kosningarnar 1999.

Nú er svo sannarlega kominn tími til að flokksmenn allir fái það vald í hendurnar að velja framboðslistann og efnt til kosningar í prófkjöri. Það stefnir í spennandi átök. Skv. frétt Ríkisútvarpsins á mánudag stefnir flest í að Halldór Blöndal muni hætta eftir langa þingsetu nú og það stefni í leiðtogaslag milli allavega Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns, og Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri. Hávær orðrómur hefur verið lengi um framboð Kristjáns Þórs. Þetta ætti því að verða spennandi prófkjör og áhugavert. Fyrst og fremst er gleðiefni að stjórnin komi með þessa tillögu og því í raun tryggt að af prófkjöri verði.

Prófkjör verður hjá Samfylkingunni í póstkosningarformi undir lok október og talið 4. nóvember á Akureyri. Framsóknarmenn munu væntanlega velja sína frambjóðendur á tvöföldu kjördæmisþingi og VG mun eflaust stilla upp, þó að ég viti það ekki. Hvað frjálslynda varðar eru þeir ósýnilegir að mestu hér og fátt af þeim að segja. En já það eru spennandi mánuðir framundan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband