Slagur hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Norðvestrið

Það stefnir heldur betur í hasar og fjör hjá Samfylkingarmönnum í Norðvestri. Þar verður prófkjör síðustu helgina í október. Jóhann Ársælsson, alþingismaður 1991-1995 og frá 1999, hefur tilkynnt rétt eins og þær Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir að hann ætli ekki fram að vori. Leiðtogastóllinn er því laus og það stefnir í að fjölmennt verði í slagnum um forystusessinn. Þetta er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns. Flokkurinn varð fyrir verulegu áfalli í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 og hlaut aðeins tvo þingmenn, en hafði í skoðanakönnunum verið spáð lengi vel 3-4 þingsætum.

Jóhann og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru kjörin á þing en Gísli S. Einarsson, sem verið hafði þingmaður Alþýðuflokksins fyrst í stað og síðar Samfylkingarinnar, féll í kosningunum sitjandi í þriðja sætinu. Gísli skipti svo um fylkingar á kjörtímabilinu, varð bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í kosningunum í vor og varð bæjarstjóri á Skaganum, sínum gamalgróna heimabæ, í júní í samstarfi Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra. Samhliða þessu sagði hann sig úr flokknum og baðst lausnar sem varaþingmaður með formlegum hætti. Það leikur enginn vafi á því að þessi atburðarás var skaðleg fyrir Samfylkinguna í Norðvestri.

Nú liggur fyrir að sex vilja leiða framboðslistann í kjördæminu. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þau Sigurður Pétursson, Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Bryndís Friðgeirsdóttir og Karl V. Matthíasson (sem lýsti yfir framboði í dag). Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.

Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogasessinn, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru sex í leiðtogakjöri hið minnsta og því ljóst að verði beittur slagur um forystusess þarna. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar.

mbl.is Karl V. Matthíasson gefur kost á sér í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband